Þegar þátttakendur í spurningavagni Prósent voru spurðir hversu háa upphæð þeir þyrftu að fá í útborguð mánaðarlaun til að eiga þægilegt líf var svarið: 798.151 króna eftir skatt – að meðaltali. Það gerir 1,2 milljónir í heildarlaun á mánuði.
Ef aðeins er litið til svara þeirra sem eiga eitt barn þá taldi fólk sig þurfa 852.741 krónu útborgað á mánuði til að lifa þægilegu lífi eða 1,3 milljónir í laun á mánuði. Ef börnin voru orðin tvö eða fleiri hækkaði upphæðin upp í 890.874 krónur, eða tæpar 1,4 milljónir í mánaðarlaun.
Til samanburðar eru meðallaun grunnskólakennara 783 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt Hagstofu Íslands, eða 553 þúsund krónur útborgaðar.
Hvað er þægilegt líf?
Spurningin er auðvitað huglæg sem gerir það að verkum að þátttakendur svara út frá eigin gildismati, væntingum og aðstæðum. Hugmyndin um þægilegt líf hefur mismunandi merkingu í huga fólks. En það má leiða að því líkum að flestir deili þeirri löngun að geta lifað þægilegu lífi. Almennur skilningur á þægindum er að það sé eitthvað sem veldur ánægju, áhyggjuleysi og gerir þér kleift að slaka á.
Í öðru samhengi er til dæmis talað um að í þægilegu húsnæði sé notalegt að verja tíma sínum, að ef sófinn sem þú situr í sé þægilegur verði líkaminn slakari, að mjúk föt séu þægileg og svo framvegis. Í þægilegum aðstæðum er einfaldlega auðveldara að njóta augnabliksins.
Á erlendum umræðuþráðum má finna tilraunir til að skilgreina hvað felst í því að eiga þægilegt líf. Þar talar fólk um að þægilegt líf felist í því að hafa val. Að geta valið að lifa sparlega í stað þess að neyðast til þess, geta greitt reikninga án þess að þurfa að sleppa einhverju öðru, brauðfætt fjölskylduna, stundað afþreyingu og samt átt smá afgang. Eitt svarið var einfaldlega: Að þurfa ekki að lifa í ótta. Ótta við framtíðina eða það hvernig hægt verði að mæta alls konar aðstæðum sem upp koma. Einn segir að sinn skilningur á þægilegu lífi sé að þurfa ekki að hafa áhyggjur af mánaðarlegum reikningum, þurfa ekki að safna upp skuldum eða safna sér fyrir strigaskóm og eiga varasjóð sem hægt er að grípa til ef bíllinn bilar.
Svörin sem þarna birtast samsvara svörum einstæðra foreldra með háskólamenntun sem tóku þátt í óformlegri könnun sem framkvæmd var af blaðamanni Heimildarinnar vegna umfjöllunar um fjárhagsstöðu hinnar molnandi millistéttar.
Þegar spurt var; hvað finnst þér sárast að neita þér um vegna fjárhagsaðstæðna? svöruðu viðmælendur Heimildarinnar: „Hollan mat, til dæmis fisk og kjöt.“ Fleiri töluðu um mat: „Mat, frí og tómstundir.“ Margir töluðu um hversu sárt það væri að geta ekki farið með börnin í ferðalag. Annar sagði sárt að þurfa að sofa í stofunni til að geta veitt börnunum sérherbergi.
Meirihluti þátttakenda hafði frestað læknisheimsókn vegna fjárhagsstöðu og um 40 prósent höfðu frestað því að fara til tannlæknis. Það er ekkert þægilegt við það að sitja í sófanum að horfa á sjónvarpið með börnunum með tannpínu vegna þess að þú hefur ekki efni á rótarfyllingu. Eða ná að skrapa saman peningum fyrir utanlandsferð þegar þú veist að það mun hafa í för með sér stöðugar fjárhagsáhyggjur næstu vikur eða mánuði.
Fullyrðingar forsætisráðherra
Í heimi hinna efnameiri þykja þetta líklega allt sjálfsagðir hlutir. Sá sem hefur aldrei þurft að safna sér fyrir strigaskóm á kannski erfitt með að skilja óöryggið sem fylgir því að geta ekki keypt sér nýja skó.
Í lífi venjulegs launafólks geta litlir hlutir hins vegar skilið á milli þess að geta lifað þægilegu lífi og rétt ná endum saman – eða verra: safna upp yfirdrætti og skuldum. Einfaldir hlutir, eins og heimsókn til tannlæknis, utanlandsferð með fjölskylduna eða bílviðgerð. Og munurinn á því að safna upp skuldum, rétt ná endum saman og lifa þægilega er þessi: Líf án ótta.
Skilningsleysi hinna efnameiri á stöðu millistéttarinnar veldur því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra stígur fram og leyfir sér að segja fullum fetum að það hafi aldrei verið betra að búa á Íslandi: „2024 er mesta lífskjaraár okkar Íslandssögu.“
Minna en það sem fólk telur sig þurfa
Það er svo auðvelt að skekkja umræðuna. Heildarlaun voru að meðaltali 935 þúsund krónur á mánuði í fyrra, samkvæmt Hagstofunni. En 65 prósent launafólks er undir meðallaunum. Sem eru lægri en það sem fólk telur sig þurfa að fá útborgað til að geta lifað þægilegu lífi hér á landi, samkvæmt könnun Prósents fyrir Heimildina.
Skekkjan felst í því að tekjuhæstu hóparnir fá svo miklu meira en millistéttin og draga meðaltalið upp. Á meðan forstjórar og aðalframkvæmdastjórar eru að meðaltali með 2,3 milljónir á mánuði geta fjórir af hverjum tíu á vinnumarkaði ekki mætt 80 þúsund króna útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Tveir af hverjum tíu foreldrum hafa ekki ráð á að gefa börnunum sínum afmælis- eða jólagjafir eða greiða fyrir skipulagðar tómstundir barnanna. Og staðan hefur versnað á milli ára.
Það hefur staða einstæðra foreldra líka gert. Hún er mun verri en staða fólks í sambúð eða hjónabandi. Á meðal einstæðra foreldra eiga tæplega sex af hverjum tíu erfitt með að ná endum saman og um fjórðungur býr við skort á efnislegum gæðum.
Í ofanálag býr þriðjungur launafólks við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. „Það er normið mitt að lifa í streitu vegna fjárhagsstöðu,“ sagði háskólamenntuð einstæð móðir í samtali við Heimildina.
Afleiðingarnar eru þessar: Um þriðjungur launafólks býr við slæma andlega heilsu.
Afleiðingar af ákvörðunum stjórnvalda
Í þessu sama samfélagi fékk Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL, 193,4 milljónir í laun árið 2023. Eða um 530 þúsund á dag, alla daga ársins. Eða dagleg laun sem voru nánast samsvarandi því sem kennari á meðallaunum fær útborgað fyrir mánaðarvinnu.
Þann 11. janúar árið 2023 sagði VÍS forstjóranum upp. Fyrir þessa fyrstu ellefu daga ársins fékk forstjórinn 69,1 milljón króna með starfslokasamningi. Annar forstjóri fékk 15,1 milljón fyrir þriggja mánaða vinnu.
Á fimm ára tímabili frá árinu 2017 til 2022 tvöfaldaðist eigið fé einstaklinga á Íslandi. Á einu ári, 2022, bættust 1.624 milljarðar við auð íslenskra heimila, aðallega heimila þeirra sem tilheyra þröngum hópi efstu tíu prósentanna. Til þeirra runnu 793 milljarðar, eða um helmingur alls auðs sem varð til á landinu og rann til einstaklinga þetta árið. Sami hópur átti um helming alls auðs sem til var á íslenskum heimilum og 85,2 prósent af heildarvirði allra verðbréfa sem heimili landsins eiga. Og borgar lægri skatt af fjármagnstekjum en vinnandi fólk greiðir af launatekjum.
„Launin dugðu áður fyrir óvæntum útgjöldum og jafnvel sparnaði en gera það ekki lengur“
Ójöfnuður á Íslandi er kerfisbundinn og birtingarmyndin er ekki aðeins fjárhagsleg. Þegar Heimildin lagði óformlega könnun fyrir háskólamenntaða einstæða foreldra lýstu nánast allir líkamlegum verkjum af fjárhagsáhyggjum, svo sem liðverkjum, magabólgum, höfuðverk og kvíða. „Tvisvar farið í veikindaleyfi vegna álags og kvíða yfir fjárhagsstöðu,“ sagði eitt foreldri.
Háskólamenntaðar konur geta engu að síður vænst þess að lifa fjórum árum lengur en konur sem eru með minnstu menntunina. Munurinn hjá körlum er enn meiri, eða fimm ár. Aðstæður fólks hafa allt með heilsu, vellíðan og jöfnuð að gera.
Sýnt hefur verið fram á að fólk sem á erfitt með að ná endum saman býr almennt við verri heilsu en fólk sem býr við betri kjör. Karlar sem eiga erfitt með að ná endum saman eru þrisvar sinnum líklegri til að meta andlega heilsu sína slæma en karlar sem eru vel stæðir fjárhagslega. Konur í sömu stöðu eru um 2,5 sinnum líklegri til að meta andlega heilsu sína slæma en konur sem þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur. Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað sem meta andlega heilsu sína slæma.
Og nú er meðalævilengd að lækka.
Hátt hlutfall í fastan kostnað
Sama spurning var lögð fyrir í Bandaríkjunum: Hvaða tekjur þarftu til að lifa þægilegu lífi?
Við úrvinnslu á svörum var miðað við að þægilegt líf fæli í sér regluna um að 50 prósent af mánaðarlegum tekjum fari í fastan kostnað og nauðsynjar, 30 prósent í það sem þig langar til og restin í sparnað.
Lífskjarakönnun Hagstofunnar frá árinu 2021 sýndi fram á að flestir vörðu um 30 prósent í húsnæði, hita og rafmagn. Í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabankans, sem leiddu af sér snarhækkandi afborganir á húsnæðislánum, má gera ráð fyrir að þessi hlutföll hafi breyst.
Á leigumarkaði er staðan jafnvel enn verri, en í maí hafði leiguverð hækkað um 13 prósent frá sama mánuði í fyrra. Fyrir utan að leigusamningar eru gjarna gerðir til skamms tíma og fólk býr því við ófyrirsjáanleika og óöryggi. Eftirspurnin er meiri en framboðið. Frá árinu 2020 hefur framboð af heppilegu húsnæði fyrir fjölskyldufólk samfellt dregist saman, enda hafa fjárfestar keypt yfir helming nýrra íbúða á síðustu fimmtán árum. Talið er að nú séu að verða til kynslóðir sem að óbreyttu missi af tækifærum til að byggja upp eigið fé.
Í óformlegri könnun Heimildarinnar voru aðeins þrír sem vörðu minna en 30 prósent af tekjum í húsnæðiskostnað. Allir aðrir vörðu hærra hlutfalli tekna í húsnæði, óháð því hvort þeir voru á leigu- eða fasteignamarkaði. Meirihlutinn talaði um að um 50 prósent af tekjum þeirra færi í húsnæðið.
„Ég hef á köflum átt 60 þúsund eftir til að lifa út mánuðinn eftir að hafa greitt föst útgjöld,“ sagði einn viðmælandi Heimildarinnar, háskólamenntaður og í góðri vinnu.
Launin dugðu áður til
Þung greiðlsubyrði, hátt leiguverð og verðlagshækkanir á helstu nauðsynjavörum gera það að verkum að tæplega helmingur launafólks á orðið erfitt með að ná endum saman.
Á ársgrundvelli hefur vísitala matar- og drykkjarverðs aukist um 5,1 prósent. „Aðgangsmiðinn í Bónus virðist hækka um nokkur þúsund kall um hver mánaðamót,“ sagði kona sem fær alltaf stein í magann um miðjan mánuð.
„Fjárhagsstaða mín hefur breyst. Launin dugðu áður fyrir óvæntum útgjöldum og jafnvel sparnaði en gera það ekki lengur. Nú duga tekjur ekki lengur fyrir rekstri heimilis og fjölskyldu og ég hef nýtt allan sparnað sem til var til að ná endum saman. Ástæðan er líklega verðbólga og hærri afborganir af húsnæði,“ útskýrði annar viðmælandi Heimildarinnar.
Á undanförnum mánuðum hafa birst skýrslur þar sem fjallað er um vaxandi erfiðleika vinnandi fólks. Fólk hefur stigið fram undir nafni og mynd til að lýsa aðstæðunum sem skapast þegar laun halda ekki í við hækkandi matar- og húsnæðisverð.
Þá er spurning hvort sé eiginlega verra: Að sjá ekki fram á breytingar – eða tilhneiging forsætisráðherra til að láta eins og veruleiki þessa fólks sé allt annar en hann er.
Eins og hann heyri ekki, skilji ekki eða vilji ekki viðurkenna veruleika venjulegs fólks.
Að meðaltali makalaust
Merkilegt þú sjálfur kaust
Fólk af öðru tagi
Sem væri allt í lagi
Ef ekki um tómar lygar hnaust