Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, deildi í gær mynd á Facebook-síðu sinni af kartöflupoka frá Sölufélagi garðyrkjumanna sem hafði verið hvolft úr. Við pokann lá á fjórða tug kartafla sem næstum allar voru skemmdar.
Ingibjörg Sólrún segir í samtali við Heimildina að kartöflurnar hafi verið ljótar og skemmdar. „Það voru örfáar sem voru nothæfar,“ segir hún.
Svo þú endaðir ekki á því að borða þær?
„Nei, nei, það er ekki nokkur leið. Við fórum og skiluðum pokanum.“
Spurð hvað henni finnist um málið segir hún að ef til vill mætti búast við svona löguðu á veturna, en ekki í sumarbyrjun. „Maður hlakkar til að borða þessar fallegu, nýju, íslensku kartöflur. Og þetta komi svo úr pokanum það er náttúrulega ömurlegt. Sölufélag garðyrkjumanna að markaðssetja svona vöru er auðvitað bara mjög skaðlegt fyrir þá og fyrir bændur.“
Margir virðast hafa lent í svipuðu og Ingibjörg Sólrún. Í athugasemdunum undir færslu hennar greinir fólk frá því að það sé farið að kaupa danskar kartöflur í stað íslenskra eftir að hafa orðið fyrir vonbrigðum með þær.
Kartöflurnar vildu ekki láta taka sig upp
Spurður út í málið segir Gunnlaugur Karlsson, forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, að hann þekki til þessa og að hann hafi aldrei séð neitt þessu líkt. „Ég hef aldrei séð annað eins. Varan er bara ónýt á 48 tímum. Bara ónýt!“
Hann skýrir að í síðustu viku hafi verið byrjað að taka upp lítið magn af nýjum kartöflum sem hafi síðan ratað í búðir. „Svo kemur í ljós að þessar kartöflur falla bara á tveimur dögum og eru orðnar ónýtar. Þetta eru ekki gamlar kartöflur,“ segir Gunnlaugur.
Hann segir að Sölufélagið hafi getað rakið atvikið og skoðað hvað væri í gangi. „Það sem virðist hafa gerst er að kartöflurnar vildu ekkert láta taka sig upp. Þær bara höfnuðu því.“
Sjálfur segist Gunnlaugur hafa starfað á sínu sviði í tvo áratugi og aldrei séð annað eins. „Að þetta skuli hafa gerst á svona stuttum tíma. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð. Við þurftum bara að stoppa þetta, anda inn og vanda okkur enn frekar í þessu. Leyfa kartöflunum að vaxa aðeins meira og jafna sig,“ segir hann.
Gunnlaugi þykir málið mjög leitt og segir að Sölufélagið vilji bæta þeim neytendum sem lentu í skemmdu kartöflunum tjónið með því að gefa þeim nýjar í staðinn. „Ég veit þetta eru rosaleg vonbrigði að kaupa nýjar kartöflur og þær eru bara orðnar ónýtar í höndunum á fólki. Okkur þykir þetta afskaplega leitt. Þetta er ekki það sem við viljum standa fyrir.“
Athugasemdir (5)