Breskur athafnamaður hyggst stefna tölvuframleiðandanum Apple vegna hjónaskilnaðar. Maðurinn kvað í viðtali við breska dagblaðið The Times að hann og kona hans hefðu verið „hamingjusamlega gift“ í tuttugu ár. Þegar eiginkonan komst hins vegar að því að maðurinn hefði ítrekað keypt sér þjónustu vændiskvenna skildi hún við hann.
Maðurinn leit þó ekki á framhjáhaldið sem ástæðu skilnaðarins.
Ástarfundina við vændiskonurnar hafði maðurinn skipulagt í gegnum Apple-símann sinn með skilaboðaþjónustu fyrirtækisins iMessage. Að fundunum loknum eyddi hann skilaboðunum svo að um þá fyndust engin ummerki.
Dag einn settist eiginkona hans við borðtölvu fjölskyldunnar. Þegar hún opnaði skilaboðaforritið iMessage blöstu við henni öll samskipti eiginmannsins við vændiskonurnar.
Í ljós kom að þegar maðurinn taldi sig eyða skilaboðunum hurfu þau aðeins af símanum hans en ekki öllum þeim Apple-græjum sem síminn var tengdur við.
„Skilnaður er mjög streituvaldandi“
Þingkosningar fóru fram í Bretlandi í síðustu viku. Vann Verkamannaflokkurinn mikinn sigur og hlaut 412 þingsæti af 650. En þótt flokkurinn hafi bætt við sig 214 þingsætum jók hann aðeins atkvæðafjölda sinn um tvö prósent. „Ástlaus stórsigur“ eða „loveless landslide“ úrskurðuðu breskir fjölmiðlar, sem sjaldan fá staðist góða stuðlun. Var niðurstaðan sögð endurspegla löngun kjósenda til að koma Íhaldsflokknum frá völdum fremur en ást þeirra á Verkamannaflokknum.
Sigur Verkamannaflokksins var ekki eini kosningasigurinn sem kenndur var við ástleysi í síðustu viku. Nýja alþýðuhreyfingin, bandalag vinstriflokka í Frakklandi, vann óvæntan sigur í síðari umferð frönsku þingkosninganna á sunnudaginn. Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar Sky lýsti bandalaginu sem „ástlausu hjónabandi“ en það var eingöngu stofnað til höfuðs Þjóðfylkingu Marinu Le Pen í kjölfar þess að spár bentu til þess að öfgahægriflokkur hennar kynni að bera sigur úr býtum í kosningunum.
„Lýðræði er versta stjórnskipan sem völ er á fyrir utan allar hinar,“ er gjarnan haft eftir Winston Churchill. Þakklæti fyrir þetta illskásta fyrirkomulag virðist þó oft fjarri hugum kjósenda er þeir stíga inn í kjörklefann. Fjölmiðlafólk í Bretlandi, sem tók hinn almenna mann tali í aðdraganda kosninganna, spurði gjarnan hvort fólk væri ekki orðið spennt að kjósa. Undantekningalaust fussaði viðmælandinn og sagðist ekki finna til minnstu eftirvæntingar enda væri viðkomandi orðinn hundleiður á pólitík.
Það fer lítið fyrir ást í stjórnmálum í dag. En á ást erindi í pólitík?
„Skilnaður er mjög streituvaldandi,“ sagði maðurinn sem hélt framhjá konunni sinni og krefur nú Apple um fimm milljónir punda í skaðabætur vegna skilnaðarins. „Það er mín skoðun að þetta hefði aldrei gerst ef Apple hefði ekki talið mér trú um að skilaboðunum hefði verið eytt þegar sú var ekki raunin.“
Ekki þarf að koma á óvart að breskir kjósendur hafi fengið sig fullsadda af Íhaldsflokknum sem komst í hvert klandrið á fætur öðru eftir að fyrrverandi forsætisráðherra, Boris Johnson, leiddi flokkinn til stórsigurs í kosningum árið 2019. Furðu sætir hins vegar að þorri kjósenda kannast ekki við að eiga nokkurn hlut að máli. Eins og maðurinn sem hélt framhjá konunni sinni kenna kjósendur boðleiðinni um; vandamálið er Apple og lýðræðið en ekki athafnir mannsins og kjósandans.
Þjóðaríþrótt Íslendinga
Við Íslendingar upplifðum meintan „ástlausan“ sigur í forsetakosningunum í júní. Margir virtust líta svo á að Halla Tómasdóttir hefði ekki sigrað í kosningunum heldur hefði Katrín Jakobsdóttir tapað þeim. Gagnrýndu ýmsir þá sem kusu „taktískt“ en ekki „með hjartanu“ í kosningunum.
Kjósendur vita ekki alltaf hvað þeir vilja. Það getur þó oft verið alveg jafnmikilvægt að tjá hvað fólk vill ekki, hvort sem um ræðir laskaðan íhaldsflokk, öfgahægrið eða fyrrverandi forsætisráðherra.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun treysta sjötíu og tvö prósent landsmanna ríkisstjórninni verr eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti forsætisráðherra.
Það er orðin þjóðaríþrótt að barma sér yfir Sjálfstæðisflokknum. Staðreyndin er hins vegar sú að þaulseta flokksins í ríkisstjórn er afleiðing athafna kjósenda. Kannski er kominn tími til að kjósendur hætti að láta eins og stjórnmál séu ástarsamband.
Ákvarðanir kjósenda eru byggðar á samfélagslegri umræðu sem oft er verulega lituð af lygum stjórnmálamanna og loforðum sem jaðra við umboðssvik, eins og kosningaloforð Sigmundar Davíðs um fullt af peningum til fasteignaeigenda ef þeir kjósi hann.
Slagsíðan í fjölmiðlaumfjöllunum, lýðræðishallinn vegna sérhagsmunagæslu, skekkir og truflar alla stjórnmálaumræðu kjósenda.
Verst af þessu eru þó þöggunartilburðir sérhagsmunaafla í seinustu forsetakosningum þar sem oft skaut upp þeim skrattakolli, að ekki mætti gagnrýna vissa frambjóðendur að fólk ætti að fara leynt með vangaveltur sínar um atkvæði sitt, þegja og bera síðan harm sinn í hljóði. Þannig fá sérhagsmunaöflin að ráðskast með ákvarðanatöku kjósenda og taka af þeim eðlilega lýðræðislega umræðu. Niðurstaða kosninganna, var þó að lítill hluti kjósenda hunsaði þöggunartilburðina og tók sér réttilega hið lýðræðislega umboð til að ræða saman um hvaða niðurstöðu þau vildu og fengu hana. Svipað sást í Frakklandi í nýlegum kosningum þar.
Fyrir utan Apple þurftum við að sækja um oft að slíta sundur bankareikningana okkar hjá Íslandsbanka. En alltaf hafði ég aðgang að hans reikningum. Við fórum saman í bankann og allt en það dugði ekki til. Pældu í ef einhver svik hefðu átt sér stað og ég væri óheiðarlega gellan, í meira en ár hefði ég getað stolið af reikningunum hans. Absolúttlí sturlað.