Kostnaður við innkaup í kjúklingasalat er töluvert hærri á Íslandi en í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, samkvæmt athugun Heimildarinnar. Aðeins í Noregi er innkaupalistinn dýrari en kostnaðurinn fyrir íslensk heimili er svipaður þegar litið er til þess að kaupmáttur er töluvert meiri í Noregi.
Heimildin tók saman innkaupalista fyrir öll hráefni sem þarf í „Litríkt og matarmikið kjúklingasalat með stökkum grillosti“ sem Valgerður Gréta Gröndal matarbloggari gerði fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn og birt var nýlega á matarvef Mbl.is.
Innkaupin fyrir salatið kostuðu 9.522 kr. í Krónunni, sem mælist reglulega með ódýrari matvöruverslunum landsins. Þó salatið sé matarmikið og seðji ábyggilega fjögurra manna fjölskyldu hið minnsta hlýtur þetta að teljast nokkuð hátt verð fyrir heimatilbúinn rétt. Það útskýrist að miklu leyti af því að kaupa þurfti inn heila flösku af ólífuolíu, dollu af hunangi, pakka af salti og ýmiss konar krydd sem nýtast munu síðar í eldhúsinu.
Það má velta því fyrir sér hver staðan væri hér á landi ef virðisaukaskattur á matvöru væri í almenna virðisaukaskattþrepinu (24%), eins og einu sinni var, en ekki 11% eins og nú er. Það má gera ráð fyrir vörurnar á innkaupalistanum kostuðu þá rúmar 10.600 kr. en ekki rúmar 9.500 kr.
Svo má spyrja sig að því hvort etv. einhverjir aðrir en neytendur hafi fyrst og frems notið góðs af lækkun matarskattsins úr 24% í 11% á sínum tíma?