Frá ársbyrjun 2022 hefur verið dimmt yfir heimsmálunum. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem þannig er staðan því maðurinn er jú grimmasta tegundin sem býr á þessari jörð og viðvarandi stríðsátök því miður daglegt brauð.
Það ganga nefnilega lausir og hegða sér tryllingslega, nokkrir herramenn sem eru eiginlega stjórnlausir stríðsherrar, það lýsir þeim best. Og hegðun þeirra veldur ómældum skaða fyrir almenning, hermönnum er fórnað miskunnarlaust og þeir skilja eftir sig slóð eyðileggingar og hörmunga.
Byrjum á forseta Rússlands. Í lok febrúar 2022 réðist hann með her sinn inn í nágrannaríki sitt, Úkraínu á þeim forsendum að hvorki landið, né þjóðin ættu sér tilverurétt. Í raun var markmið hans að fremja valdarán í landinu og útrýma þjóð þess og menningu. Þar með hóf hann mestu nýja stórstyrjöld í Evrópu og rauf þar með mikilvæga samninga sem löndin höfðu gert sín í milli. Þar með fór hann sömu leið og náungi sem var upp í Þýskalandi á fyrri hluta síðustu aldar.
Nánast ráðist á allt
Rússland er eitt mesta herveldi sögunnar og síðan innrásin hófst hefur verið ráðist á nánast allt í Úkraínu, meira að segja kirkjurnar líka. Almenningur, íbúðarhúsnæði, skólar, sjúkrahús og orkuinnviðir, ekki minnst, allt hefur þetta orðið að skotmörkum Rússa, með fallbyssum, stýriflaugum, drónum, skriðdrekum og öðrum drápstólum.
Hundruð þúsunda manna, bæði hermanna og almennra borgara hafa goldið fyrir þetta stjórnlausa rugl með lífi sínu. Börn og gamalmenni eru þar ekki undanskilin. Enginn veit hversu margir hafa fallið, en líklegt að um tugir, jafnvel hundruð þúsunda, sé að ræða. Talið er að tugum þúsunda barna hafi verið rænt og þau meðal annars flutt til Rússlands. Fyrir hvað? Ekki neitt, því að öllum líkindum mun Pútín alls ekki takast það sem hann ætlaði sér í upphafi, það er að velta yfirvöldum í Kiev og ná undir sig Úkraínu, sem er um 600.000 ferkílómetrar að stærð.
Gengur illa hjá Rússum
Það gengur að minnsta kosti illa hjá Rússum um þessar mundir og engan veginn í hlutfalli við væntingar ráðamanna í Kreml. Búið er að skipta út varnarmálaráðherranum, sem og fleiri í æðstu lögum stjórnkerfisins, m.a. vegna spillingar, en Rússland er eitt spilltasta land í heimi. Umræddur ráðherra, Sergei Shoigu, hefur árum saman verið einn tryggasti fylgismaður Pútíns og til rómantískar myndir af þeim félögum, þar sem þeir eru saman í veiðiferðum.
Peningum er bókstaflega ausið í þetta stríð, bæði frá hendi Rússa, sem og Úkraínumanna og stuðningsaðila beggja aðila, sama hvort það eru N-Kórea og Íran, sem meðal annars styðja Rússa, eða vestrænna ríkja á borð við Bretland, Bandaríkjamenn og fleiri, já meira að segja Ísland.
„Tilvistarstríð“
Stríð Rússa gegn Úkraínu er í raun spurning um tilvist þess síðarnefnda og má því kalla þetta „tilvistarstríð“. Úkraínumenn eru einfaldlega að berjast fyrir því að halda áfram að vera til sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Nokkuð sem Úkraínumenn eiga fullan rétt á samkvæmt alþjóðalögum. Hvenær þessum hildarleik lýkur svo, veit enginn.
En það eru fleiri stríðsherrar sem ganga lausir og vindur nú sögunni til Mið-Austurlanda, nánar tiltekið til Ísraels og Palestínu.
Í byrjun október 2023 réðust hryðjuverkasveitir á vegum Hamas-samtakanna á Ísrael í árás sem virtist koma Ísraelsmönnum i opna skjöldu. Alls voru um 1300 manns drepnir í þessari grimmilegu árás og fjöldi tekinn í gíslingu, og er enn þegar þessi orð eru skrifuð. Árásir sem þessar eru hryðjuverk og ekkert annað, sama hver eða hverjir framkvæma þær.
Ísrael svaraði með mjög eindregnum hætti, en þeir eru öflugasta herveldið á þessu svæði, dyggilega studdir af Bandaríkjunum, sem veitir þeim milljónir dollara á dag í beinan hernaðarstuðning.
Hið mikla endurgjald
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, varð nánast hamstola af reiði eftir árásirnar, er skiljanlegt, allir leiðtogar hefðu orðið það. Hann hét því að útrýma Hamas-samtökunum, sem eru studd af Íran, erkióvini Ísraels. Með sér í liði hefur hann stjórn sem talin er ein sú öfgafyllsta í sögu landsins, sem stofnað var árið 1948 og er eina alvöru lýðræðisríkið í Mið-Austurlöndum. En endurgjaldið, eða það sem mætti kannski kalla „hefndin“ fyrir þessar árásir, hefur farið gjörsamlega úr böndunum.
Alls er talið að nú hafi rúmlega 37.000 manns verið drepin í árásum Ísraelsmanna á Gaza, eða um 30 sinnum fleiri en Hamas-liðar drápu. Það er hrikalegt „drápshlutfall“ (e. kill ratio). Þetta er viðvarandi mynstur í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna, sem sjálfir hafa misst um 700 hermenn og liðsmenn öryggissveita og sést vel á þessari mynd. Þá herma fréttir að um 20.000 börn séu týnd eða sé saknað. Það eru álíka margir og búa á Akureyri.
Þær fréttamyndir sem sýndar hafa verið frá þessum hrikalegu átökum sýna nánast algera eyðileggingu og minna helst á borgir eins og Stalíngrad, Dresden eða Leipzig, eftir seinni heimsstyrjöld, sem voru gjörsamlega í rúst. Það er bókstaflega ráðist á allt sem fyrir verður, sama hvort það eru tjaldbúðir, sjúkrahús eða almenn hýbýli fólks. Húsnæði hjálparsamtaka á borð við Rauða krossinn eru heldur ekki í skjóli. Mannúð og virðing fyrir alþjóðareglum um átök er í algeru lágmarki, eða hreinlega ekki fyrir hendi.
Það er nánast borðleggjandi að hinar tvær milljónir íbúa Gaza hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli, sem mun taka ár, jafnvel áratugi að vinna úr, ef það er þá hægt yfir höfuð. Einnig eru viðvarandi átök á Vesturbakkanum og þá hafa átökin einnig teygt sig til Líbanon og Sýrlands. Þetta gerir svæðið allt því verulega eldfimt og var það eldfimt fyrir.
Reknir eins og búfénaður
Íbúar Gaza, Palestínumenn, hafa verið meðhöndlaðir eins og búfénaður, þeim hefur verið „smalað“ út og suður um svæðið þegar Ísraelsmenn hafa verið með sínar hernaðaraðgerðir í gangi, til dæmis fallbyssu og loftárásir. Niðurlægingin er alger og heilu fjölskyldurnar hafa verið þurrkaðar út.
Hungur og matarskortur eru viðvarandi og hjálparlestum vísvitandi haldið frá svæðinu. Ástandinu hefur verið líkt við helvíti á jörð, enda sýna fréttamyndir það augljóslega, t.d. frá sjúkrahúsum þar sem sundursprengt fólk liggur öskrandi af sársauka. Langflest sjúkrahús svæðisins eru nánast óstarfhæf vegna eyðileggingar. Rétt er að taka fram að Ísland hefur viðurkennt tilvist ríkis Palestínu og auðvitað eiga þeir rétt á stofnun eigin ríkis og er það sú lausn sem vinna ætti að.
Áhrif í Bandaríkjunum
Hvenær þessum átökum lýkur liggur ekki fyrir, en teygist þau á langinn, er alls ekki ólíklegt að þau hafi áhrif á forsetakosningar í Bandaríkjunum í haust, með neikvæðum hætti fyrir Joe Biden, sitjandi forseta, sem sækist eftir endurkjöri, en andstæðingur hans er jú Donald Trump, sem reynir nú aftur að verða forseti. Það virðist því allt vinna með Trump, bæði þetta stríð, sem og dómur yfir honum vegna greiðslna til klámmyndaleikonunnar Stormy Daniels. Hann að minnsta kosti rakaði inn fjármagni í kosningasjóði í kjölfar dómsins.
Biden virðist hafa lítil áhrif á framvindu mála og Netanyahu virðist hafa það eitt að markmið að halda stríðsrekstrinum áfram. Hann veit líka að þegar að átökunum lýkur munu sennilega fara í gang málaferli gegn honum og yfirvöldum í Ísrael vegna mistaka sem mögulega voru gerð í aðdraganda árásar Hamas. Talið er mjög niðurlægjandi fyrir t.d. Mossad, leyniþjónustu Ísraaels, að þeir hafi ekki vitað af þessu. Mossad hefur hingað til þótt vera meðal fremstu leyniþjónusta heims.
Þá virðast leiðtogar Hamas einnig staðráðnir í því að halda sínu striki, þrátt fyrir að hafa misst jafnvel þúsundir liðsmanna á undanförnum mánuðum. Stríðsherrar virðast alltaf vera tilbúnir til geysilegra mannfórna fyrir málstaðinn.
„Þetta blóðbað, sama hvort er í Úkraínu eða á Gaza, verður að stöðva.“
Fleiri átök væri hægt að nefna, þar sem stjórnlausir stríðsherrar virðast vaða uppi, nærtækast eru ef til vill innanlandsátök í Súdan, þar sem um 2.5 milljónir mann eru á flótta. Þau falla hins vegar nánast í skuggann af átökunum á Gaza og Úkraínu (sem féllu sjálf í skugga fjölmiðla, þegar Gaza-stríðið hófst). Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hafa um 6-10 milljónir mann lagst á flótta, en íbúar Gaza komast hins vegar hvergi, þar sem svæðið er í raun lokað.
Gagnsleysi alþjóðasamfélagsins
Gegn þessu stendur alþjóðasamfélagið, sem er meira og minna gagnslaust, sérstaklega öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem tekur hverjar tillöguna á fætur annarri til umfjöllunar, en þær síðan kæfðar með neitunarvaldi áhrifaþjóða innan þess, sérstaklega af þeim sem eiga þar fast sæti, til dæmis Bandaríkjamönnum, Rússum og Kínverjum (ásamt Bretum og Frökkum).
Það er því í raun ótrúlegt hvað stríðsherrar hafa í raun mikið vald og hversu lítil takmörk eru á hegðun þeirra. Það er jú oft líka þannig að stríð og átök öðlast sitt „eigið líf“ eða „eigið gangverk“ og því getur oft verið verulega erfitt að stöðva stríðsvélarnar. En það verður að gerast, þetta blóðbað, sama hvort er í Úkraínu eða á Gaza, verður að stöðva.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.
Athugasemdir (1)