Macron stendur nú ráðvilltur uppi eins og spilafíkill sem hefur álpast inn í spilavíti, lagt allt undir í rúllettunni og tapað. Á þennan hátt var tónninn í fréttamönnum þegar fyrstu kosningaspárnar fóru að birtast að kvöldi kjördags, og bar þeim saman um að nú væri komin upp áður óþekkt staða í frönskum stjórnmálum. Að vísu fékk flokkur Macrons rúm 21 prósent atkvæða og beið því ekki afhroð eins og sumir höfðu spáð, en hann var langt fyrir neðan Þjóðarfylkingu Marine Le Pen sem vann stórsigur, fékk rúm 33 prósent og var ekki langt frá því að tvöfalda fylgi sitt frá kosningunum 2022.
Um leið var flokkur Macrons góðan spöl fyrir neðan hina nýju alþýðufylkingu vinstri manna sem hlaut 28 prósent atkvæða. Hann er því langneðstur þeirra þriggja stóru flokka og bandalaga sem móta frönsk stjórnmál. Fyrir neðan hann er einungis „Repúblikanaflokkurinn“ svokallaði með rétt rúm tíu prósent. Innan sviga má geta þess að eitt af vandamálum þeirra sem vilja fylgjast með frönskum stjórnmálum í tímans rás er sú árátta stjórnmálaflokka að vera sífellt að skipta um nafn (sósíalistar og kommúnistar eru lausir við þessa áráttu). Eftir margar nafnbreytingar og sviptingar er „Repúblikanaflokkurinn“ nýjasta útgáfa hins forna gaullistaflokks sem hafði einu sinni töglin og hagldirnar í stjórnmálum landsins. Nú ráfar hann um í villu og svíma, áhrifalaus að mestu, og má hafa til marks um það að skömmu fyrir kosningar gekk sjálfur formaður flokksins, Eric Ciotti, til stuðnings við Marine Le Pen og tók nokkra flokkspótintáta með sér. Aðrir mótmæltu og vildu setja hann af sem formann, en hann taldi þann brottrekstur ólöglegan. Varð úr þessu alls kyns málastapp fram og aftur fyrir dómstólum, en svo er þó að sjá að Eric Ciotti kallist enn formaður. Ljóst er að hann er kominn í metorð hjá Marine Le Pen, hún lætur hann sitja sér við hægri hönd.
Nú er þingið runnið Macron úr greipum og þar að auki hefur hann ekki lengur nein tök á sínum eigin flokki, þeir sem enn kallast flokksmenn hans eiga þá ósk heitasta að hann þegi. Eftir þessa fyrri umferð kosninganna er spurningin sú hvað hinir ýmsu flokkar fái mörg þingsæti og hvernig afstaðan verði þegar upp er staðið, hverjir muni stjórna landinu eða hvort yfirleitt verði hægt að stjórna því. Strax kosningakvöldið fóru ýmsir fréttaskýrendur að reikna út tölur þingsæta og bar þeim öllum saman um að bilið væri harla vítt milli hæstu og lægstu þingmannatölu sem hver flokkur gæti fengið. En samkvæmt reikningunum virtist þó ljóst að Marine Le Pen gæti ekki gert sér vonir um að fá hreinan meirihluta, það gæti enginn flokkur fengið og síst af öllu flokkur „Macronista“. Morguninn eftir var þó komið annað hljóð í fréttamenn, þeir virtust nú gera ráð fyrir að eftir viku gætu menn staðið uppi með stjórn „Þjóðarfylkingarinnar“ og hinn snoppufríða Bardella í forsætisráðherrastól – fyrir því eru jafnvel „talsverðar líkur“ sagði stórblaðið „Le Monde“ og virtust menn skelfingu lostnir.
Þetta er allt komið undir því sem gerist í síðari umferð kosninganna 7. júlí. Reglan er sú að í fyrri umferðinni nái þeir einir kjöri sem fái hreinan meirihluta atkvæða. Ef enginn frambjóðandi nær því skuli efnt til annarrar umferðar en þá megi þeir einir bjóða sig fram sem hafa fengið yfir tólf og hálft prósent atkvæðisbærra manna í fyrri umferðinni. Um langt skeið hefur það verið algengast að þá eigist tveir frambjóðendur við, en stöku sinnum hefur það borið við að þrír frambjóðendur nái upp í seinni umferð og er það kallað „þríhyrnings-kosningar“. Þá ber gjarnan við að sá frambjóðandinn sem er þriðji í röðinni dregur sig í hlé og bendir kjósendum sínum á að greiða sitt atkvæði öðrum hvorum þeirra sem eru fyrir ofan hann, og kjósendur hlýða því kannske og kannske ekki. En nú hefur það gerst, sennilega vegna þess hve kosningaþátttakan var nú mikil, að í meirihluta kjördæma eru nú „þríhyrningskosningar“, í 305 kjördæmum á móti 191 „einvígjum“ eins og sagt er, og eru varla nokkur dæmi til slíks. Þá skiptir vitanlega öllu máli fyrir lokaúrslitin hverjir muni draga sig í hlé og fyrir hverjum.
Á vinstri væng stjórnmálanna er stefnan ótvíræð, þar lýsa því yfir allir sem einn að aðalmálið sé að bregða fæti fyrir þjóðarfylkingu Le Pen, um það snúist kosningarnar, allt annað sé hégómi. Ef frambjóðandi alþýðufylkingarinnar geti brugðið fæti fyrir frambjóðanda hennar í þríhyrningskosningum með því að draga sig í hlé fyrir öðrum sem sé sigurstranglegri skuli hann ævinlega gera það, án þess að skoða í honum tennurnar fremur en í gjafahesti. En afstaða Macronista er hins vegar langt frá því að vera skýr. Það stafar af því að í kosningabaráttunni héldu þeir því fram statt og stöðugt að þeir væru fulltrúar ábyrgrar stefnu milli tveggja „öfgahópa“ sem væru báðir jafnlíklegir til að steypa landinu í glötun, en beindu þó skeytum sínum fyrst og fremst að alþýðufylkingunni. Þeir notuðu Melanchon eins og Grýlu, höfðu hann sífellt milli tannanna og töluðu eins og hann væri alþýðufylkingin og alþýðufylkingin hann, að kjósa hana væri að kjósa Melanchon, jafnvel tylla honum beint í stól forsætisráðherra, og þá færi allt í bál og brand. Þótt Macron færi nú að tala um hættuna af þjóðarfylkingu Le Pen, var ekki vandalaust að kúvenda svona allt í einu. Það var líka andstætt stjórnarstefnu hans gegnum árin sjö, hina hiklausu frjálshyggju.
Forsætisráðherrann Gabriel Attal lýsti því þó skýrt yfir, líkt og vinstri menn, að nú verði umfram allt að bregða fæti fyrir þjóðarfylkinguna, en hann nefndi þó ekki berum orðum stuðning við neina ákveðna frambjóðendur né flokka, það virtist sitja fast í kokinu. En aðrir voru ekki eins skýrir í tali, og virtust sumir vilja líta á aðstæður á hverjum stað, það þyrfti að skoða hvern frambjóðanda fyrir sig og styðja einungis þá sem virtu „lýðræðisleg gildi“. Með því vildu þeir útiloka með öllu frambjóðendur úr flokki Melanchons, sem er stærsti flokkurinn á vinstri vængnum en búinn að taka við því hlutverki sem kommúnistar höfðu áður fyrr, að vera samkrull hinna óalandi, óferjandi og ókjósandi, öfgamannanna með rýtinginn milli tannanna, sem svo væru gyðingahatarar ofan á annað. En kannske væri hægt að styðja valda frambjóðendur úr flokki umhverfissinna (þó með fyrirvara), svo og flokkum sósíalista og kommúnista. Myndi það þó nægja til að stemma stigu við Le Pen? Afstaða „repúblikana“ er í rauninni skýrari, stjórn flokksins gefur engin fyrirmæli um að frambjóðendur þeirra draga sig í hlé fyrir einum fremur en öðrum, það er í samræmi við þá kenningu þeirra að Le Pen og alþýðufylkingin séu sami grauturinn í tveimur skálum, og Le Pen kannske skárri kosturinn eftir allt.
Að svo stöddu er ástandið harla ótryggt. Hættan er sú að með ábyrgðarlausu fikti Macrons með rúllettuna muni allir tapa.
Athugasemdir