Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður ítalska liðsins Genoa, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Þetta hefur DV eftir Arnþrúði Þórarinsdóttur saksóknari.
Tæpt ár er síðan orðrómur fór á kreik um meint brot Alberts Guðmundssonar landsliðsmanns. Stjórn KSÍ var tilkynnt um það án þess að hann væri nafngreindur. Albert var fyrst kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst í fyrra. Héraðssaksóknari felldi málið niður í febrúar þar sem málið var talið ólíklegt til sakfellingar. Niðurfelling málsins var kærð til ríkissaksóknara og óskaði Eva B. Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert, eftir að niðurfellingin sæti endurskoðun.
Albert sendi frá sér stutta yfirlýsingu vegna málsins í ágúst þar sem segir: „Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram. Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar.“
Ákæra hefur nú verið gefin út á ný af héraðssaksóknara. Lokað þinghald verður í málinu. Ekki liggur fyrir hvenær þinghald hefst en gera má ráð fyrir að það verði með haustinu.
Ljóst er að verkferlar innan KSÍ þegar kemur að meintum ofbeldisbrotum leikmanna hafa verið teknir til gagngerrar endurskoðunar síðan Guðni Bergsson þurfti að segja af sér sem formaður KSÍ eftir að hafa logið vegna slíkra mála. Vanda Sigurgeirsdóttir, þáverandi formaður KSÍ, vildi ekki ræða við Heimildina síðasta haust hvort endurteknar kærur vegna kynferðisbrota gegn landsliðsmönnum hafi neikvæð áhrif á ímynd þess.
Athugasemdir