Það eru ýmsar leiðir til að meta árangur í hagstjórn. Hagvöxtur, þ.e. aukning þeirra efnahagslegu verðmæta sem til skipta eru, hefur lengst af verið ríkjandi viðmið. Góður hagvöxtur var áður fyrr sagður vera forsenda þess að kaupmáttur launafólks gæti aukist. Stækkandi þjóðarkaka myndi skila sér einnig til þeirra, en ekki bara til eigenda og stjórnenda fyrirtækja.
Nú hefur hagvöxtur verið mjög mikill frá 2021 til 2023. Verkalýðshreyfingin reyndi að sækja sér kaupmáttaraukningu í hóflegu samræmi við hagvöxtinn 2022 til 2023. En þá jókst verðbólgan og var launahækkunum kennt um, þó megin orsakir verðbólgunnar væru í fyrstu áhrif innrásar Rússa í Úkraínu (sem kom fram í hækkuðu innflutningsverðlagi hér), en síðan stjórnlaust misvægi á íslenskum húsnæðismarkaði (sem skrifast bæði á reikning stjórnvalda og seðlabankans). Launahækkanir hafa átt lítinn þátt í verðbólgunni hér á landi.
Hagfræðingar BHM og ASÍ félaga bentu á að verðbólgan væri að hluta hagnaðardrifin, þ.e. afleiðing aukinnar sóknar fyrirtækja eftir auknum hagnaði, með umframhækkunum verðlags. Enda hefur hagnaður fyrirtækja í landinu verið með allra mesta móti frá 2021 til 2023, raunar í methæðum. Samt kenna hagfræðingar bankanna launahækkunum um og jafnvel eftir að nýlega var samið um kaupmáttarrýrnum á yfirstandandi ári!
Fólk þekkir svo framhaldið. Seðlabankinn fór offari í hækkun stýrivaxta til að draga niður kjör almenns launafólks, í von um að það myndi draga úr eftirspurnarþrýstingi á verðbólgu, sem var ekki einu sinni helsta orsök verðbólgunnar!
Þar erum við nú. Þó verðbólga hafi lækkað úr um 10% niður fyrir 6% þá eru stýrivextir enn í hæstu hæðum, 9,25%. Vextir á húsnæðislánum eru svo talsvert hærri en það og raunvextir verðtryggðra lána hafa hækkað umfram langtímameðaltal. Seðlabankanum hefur með þessu tekist að kæla hagkerfið svo rækilega að hagvöxtur verður lítill sem enginn á þessu ári.
„Við verðum því áfram með eina hæstu stýrivexti í Evrópu, í félagsskap með Belarus og stríðshrjáðri Úkraínu og Rússlandi.“
Samt er of lítill árangur að nást í að lækka verðbólguna, sem er magnað. Greiningarfólk bankanna segir að verðbólgan sé og verði áfram „þrálát“. Sem sagt, ekki er reiknað með að meðalið (háir stýrivextir) muni virka vel á næstunni, frekar en á undanförnum mánuðum. Engum dettur samt í hug að beita öðrum úrræðum í hagstjórninni – nema mér (sjá hér og hér).
Við verðum því áfram með eina hæstu stýrivexti í Evrópu, í félagsskap með Belarus og stríðshrjáðri Úkraínu og Rússlandi. Evru-löndin og hinar norrænu þjóðirnar eru á allt öðru plani og hafa einnig náð betri árangri í lækkun verðbólgunnar með lægri stýrivöxtum.
Samhengið í hagstjórninni hér á landi er svo fáránlegt að vel má líta á tölurnar á meðfylgjandi mynd af stýrivöxtum í Evrópu sem eins konar „fáránleikavísitölu“ Íslands. Félagsskapurinn sem við erum í þar er í svo fáránlegu samhengisleysi við hagsældarstig þjóðarbúsins og þær ríkulegu auðlindir sem þjóðin býr að – en fær ekki að njóta til fulls.
Evru-löndin eru öll með sömu stýrivexti, sem ákveðnir eru af Seðlabanka Evrópu (4,5%). Tyrklandi er sleppt en stýrivextir þar eru 50% og verðbólga er nú rúmlega 75%.
Ef litið er á árangur í baráttunni við verðbólguna þá er útkoman jafnvel enn verri fyrir Ísland, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Að Tyrklandi frátöldu þá er verðbólgan á Ísland næsthæst, á eftir Rússlandi, og sjónarmun fyrir ofan Belarus og Rúmeníu. Hin Norðurlöndin eru á bilinu 1,5% til 3,7%. Aftur erum við þarna í óviðeigandi félagsskap ef litið er til hagsældarstigs og almennrar þróunar samfélaga.
Samhengi hagstjórnarinnar á Íslandi er því heldur sérkennilegt, sem bendir til slæmrar hagstjórnar Seðlabanka og ríkisstjórnar – og árangurinn í baráttunni við verðbólguna er eftir því.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.
Auðvitað væri mjög skynsamlegt fyrir íslenskt samfélag að ganga til samstarfs við Evrópusambandið, taka upp evru sem gjaldmiðil en hvað á að gera við Seðlabankann og íslensku krónuna sem á þeim bæ er haldið i gjörgæslu alla daga ársins?
Mér þætti ofureðlilegt að sameina mætti bankann Draugasetrinu á Stokkseyri enda hefur krónan valdið íslenskri þjóð mjög oft vandræðum og er enn. Krónan myndi sóma sér þar vel innan um þessagömlu óvætti, afturgöngur og draga. Hún er tæki fyrir braskara og vandræðamenn sem gera sér hana að féþúfu enda má lesa um þau ósköp dagsdaglega í fjölmiðlum um þá ótrúlega bíræfni og græðgi sem kemur fram í óvenjuháu verðlagi víða í samfélaginu. Má t.d. nefna ferðaþjónustufyrirtæki um allt land sem selur veitingar á margföldu verði en eðlilegt megi telja. Allt þetta er afleiðing spákaupmennsku byggð á veikburða gjaldmiðli sem hefur verið okkur til vandræða síðan undir lok 19. aldar. Má m.a. benda á skrif Eiríks Magnússonar í Cambridge sem skrifaði um 100 greinar þar sem hann benti á þetta þegar fyrir meira en 135 árum!
Hvers vegna hefurASÍ ekki kært Seðlabankann fyrir að stela frá almenningi??