Ígær voru liðin 110 ár frá því að Franz Ferdinand, ríkiserfingi Austurríkis, og Sófía, eiginkona hans, voru ráðin af dögum í Sarajevó. Upphófst í kjölfarið atburðarás sem gat af sér fyrri heimsstyrjöldina, eitt mannskæðasta stríð sem háð hefur verið.
Þar sem ég tæmdi skápa og pakkaði eigum mínum ofan í kassa í nýlegum flutningum fann ég aðgöngumiða að sýningu sem ég heimsótti á Stríðssögusafninu í London fyrir áratug. Sýningin hafði verið sett upp til að minnast þess að öld var liðin frá upphafi stríðsins mikla.
Þegar ég fann miðann rifjaðist upp fyrir mér þrúgandi andrúmsloftið sem beið þeirra sem stigu inn úr áhyggjulausum sumardegi í myrkan sýningarsalinn. Hljóðin voru það fyrsta sem sló mann. Enginn veit nákvæmlega hvernig það hljómaði þegar sprengikúlurnar sem notaðar voru í fyrri heimsstyrjöldinni sprungu yfir skotgröfunum því ekki er til upptaka af hljóðinu. Hins vegar er til gömul upptaka af hermanni sem leikur eftir hljóðið sem heyrðist þegar hólkurinn sprakk og banvænum kúlunum rigndi yfir nærstadda. Höfðu skipuleggjendur sýningarinnar endurskapað sprengjuhljóðið og ómaði það ógnandi um salinn.
Með mér í för á sýningunni var kornung dóttir mín. Veröldin sem hún hafði fæðst inn í virtist gjörólík þeirri sem við skoðuðum á Stríðssögusafninu. En þegar við klífum fjöll sjáum við aðeins grjótið undir fótum okkar – það er úr fjarlægð sem við greinum landslagið.
Sumarið 2014 virtist sem friður yrði ríkjandi í Evrópu um ókomna tíð. Í febrúar höfðu Rússar hins vegar hertekið Krímskaga í Úkraínu. Þótt við sæjum það ekki þá hafði fyrsta skrefið verið stigið í átt að stríðinu sem nú geisar í Úkraínu.
Gerðu íbúar Evrópu sér grein fyrir þeirri þýðingu sem morðið á Franz Ferdinand hafði andartakið sem það átti sér stað 28. júní 1914?
Ekki lengur hugmynd úr fortíðinni
Fyrri heimsstyrjöldin var stríðið sem binda átti enda á stríð í eitt skiptið fyrir öll. Tveimur áratugum eftir að henni lauk hófst síðari heimsstyrjöldin. Margir láta nú eins og sú þriðja sé handan hornsins. Varnarmálaráðherra Bretlands segir heimsbyggðina hafa færst frá því að lifa á „eftirstríðsárum yfir í að lifa fyrirstríðsár“.
„Stríð er ekki lengur hugmynd úr fortíðinni.“
Varnarmálaráðherra Þýskalands spáir því að Rússland ráðist inn í eitthvert ríkja NATO á næstu fimm til átta árum. „Stríð er ekki lengur hugmynd úr fortíðinni,“ segir Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands.
Á sýningunni í Stríðssögusafninu í London mátti sjá grip úr stríðinu sem bar vott um einstaka útsjónarsemi mannsins. Ekki var hins vegar um að ræða eitt af fjölmörgum drápsvopnum sýningarinnar. Í einu horni stóð stórt, lífvana tré. Við nánari skoðun kom í ljós að tréð var ekki alvöru tré heldur var bolurinn úr stáli og hann var holur að innan.
„Þegar hermenn sáu tré í einskismannslandi, sem var laufvana, var listamaður látinn skríða að því og gera af því nákvæma teikningu,“ útskýrði sýningarstjóri sýningarinnar. Handverksmaður bjó því næst til nákvæma eftirlíkingu af trénu úr stáli. Í skjóli nætur var upphaflega tréð sagað niður og gervitréð sett upp í staðinn. Inni í hola stáltrénu földu hermenn sig og njósnuðu um andstæðinginn.
Að skjóta mann sem ég þekki ekki
Ef mannkynið beitti útsjónarsemi sinni sem endurspeglast í njósnatrjám síðari heimsstyrjaldar til að vinna að friði en ekki stríði liti framtíðin öðruvísi út.
Stjórnmálamenn í Evrópu tala nú margir eins og að þriðja heimsstyrjöldin sé óhjákvæmileg – sumir af óþægilega miklum eldmóði. Þeim væri hins vegar hollt að hlýða á orð Harry heitins Patch. Patch lést árið 2009, 111 ára að aldri. Harry varð þekktur fyrir að vera lengi síðasti eftirlifandi breski hermaður fyrri heimsstyrjaldarinnar. Harry hafði alla tíð neitað að tjá sig um stríðið. Þegar hann varð hundrað ára ákvað hann hins vegar að leysa frá skjóðunni. „Stríðið var tilgangslaust,“ sagði hann. „Öll stríð eru tilgangslaus ... Hvers vegna ætti bresku ríkisstjórninni að vera heimilt að hafa samband við mig og senda mig út á vígvöllinn til að skjóta mann sem ég þekki ekki, til að skjóta mann sem talar tungumál sem ég kann ekki? Allir þessir dauðdagar út af stríði sem var svo útkljáð við skrifborð. Það er ekkert vit í því.“
Nei, það er ekkert vit í því.
Friðartilraunir fyrir 1934 leiddu beinlínis til seinni heimsstyrjaldarinnar.
Ef þú stendur andspænis valdasjúkum einstaklingi með einbeittum brotavilja hjálpar bara að sýna styrk þinn að aftra hann frá því að ráðast á þig.
Sorglegt en satt.