Eco-fasismi, eða grænn fasismi, er skilgreindur svona: Ríki viðurkennir að loftslagsbreytingar séu raunverulegar en skellir skuldinni á offjölgun mannkyns og innflytjendur í stað þess að fara í rót vandans. Spurningin er ekki hvort bjarga megi lífríki jarðarinnar heldur: Hverjir fá að lifa og hverjir þurfa að deyja? Hert er á lögum um útlendinga, múrar eru byggðir, ofbeldi beitt.
„Margt í þjóðarmorðinu á Gaza kristallar tvískinnung Vesturlanda í loftslagsmálum.“
Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember kallaði Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, þjóðarmorðið á Gaza eins konar general-prufu fyrir það sem koma skal. Eitthvað sambærilegt bíði milljóna manna í suðri sem flýja munu loftslagsbreytingar. Loftslagsbreytingar sem eru drifnar áfram af ríkustu löndum heims, sömu löndum og standa hjá eða beinlínis styðja morð Ísraels á börnum og óbreyttum borgurum. Í mörgum þessara landa fara fasískir einræðistilburðir vaxandi í takt við aukna andúð á útlendingum.
Margt í þjóðarmorðinu á Gaza kristallar tvískinnung Vesturlanda í loftslagsmálum. Ísrael er með háleit loftslagsmarkmið, meðal annars um að byggja græn þorp á landnemabyggðum. En samkvæmt rannsókn sem The Guardian greinir frá var kolefnisfótsporið af fyrstu 60 dögum árásarinnar á Gaza 281.315 tonn, mjög varlega áætlað, talan er líklega 5–8 sinnum hærri. Þetta fótspor er jafnstórt og samanlagt árlegt kolefnisfótspor þeirra 20 ríkja sem berskjölduðust eru fyrir loftslagsbreytingum.
17. nóvember árið 2023 mældist hitinn á jörðinni 2,07 °C hærri en fyrir iðnbyltingu. Parísarsamkomulagið gengur út á að meðalhiti fari ekki yfir 1,5 °C markið. Talið er að 32,6 milljónir manna hafi flúið heimkynni sín vegna náttúruhamfara árið 2022. Ef fer sem horfir verður rúmlega milljarður manna lagður á flótta árið 2050.
Síðustu fimm árin hafa íslensk stjórnvöld ekki náð loftslagsmarkmiðum sínum og hafa heldur dregið úr en gefið í. Kannski eru ný og hert útlendingalög eina raunverulega loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda – það eina sem kemur frá hjartanu.
Í hlýnandi heimi er það kaldranaleg tilhugsun.
...➥➥➥ 𝘄𝘄𝘄.𝘇𝗶𝗻𝘁𝗰𝗼𝗶𝗻.𝗰𝗼𝗺