Þegar Freyja Haraldsdóttir var 11 ára var hún að mörgu leyti venjulegur krakki, rétt eins og hinn 11 ára Yazan Aburajab Tamimi. Rétt eins og Yazan var hún í hjólastól og margar venjulegar athafnir daglegs lífs voru flóknari fyrir þau en önnur börn. En það stóð ekki til að vísa Freyju úr landi. Það er hins vegar raunveruleiki Yazans í dag.
Til stendur að vísa Yazan og foreldrum hans, Mohsen og Ferial, úr landi í næsta mánuði. Þau komu hingað í leit að hæli í fyrra. Yazan, sem er frá Palestínu, er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn duchenne og hafa læknar vottað fyrir það að hann muni hljóta skaða af ef hann fær ekki viðeigandi læknismeðferð. Kærunefnd útlendingamála hafnaði beiðni fjölskyldunnar um endurupptöku hælisumsóknar þeirra síðastliðinn föstudag og því vofir brottvísun til Spánar, hvar fjölskyldan er ekki með hæli, yfir í byrjun júlí.
Brottvísun Yazans hefur verið mótmælt, nú síðast á sunnudag þegar hópur fólks safnaðist saman á Austurvelli. Kristbjörg Arna Elínudóttir Þorvaldsdóttir, vinkona fjölskyldunnar, er ein af þeim sem stóð að mótmælunum. Hún segir mótmælin tækifæri til þess að sýna Yazan „að það er fólk sem vill hafa hann hérna, hann er ekki einn.“
Freyja birti færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún birtir tvær myndir, annars vegar af henni sjálfri þegar hún var 11 ára og hins vegar af Yazan. „Á hægri mynd er hvítt íslenskt fatlað 11 ára barn að pósa hjá kengúrubakgrunni og á þeirri vinstri er brúnt palestínskt 11 ára barn að mótmæla eigin brottvísun út í dauðann,“ skrifar Freyja.
Freyja segir Yazan vera venjulegan krakka að mörgu leyti, rétt eins og hún var sjálf á þessum aldri. „Ég var á snemmgelgju með tilheyrandi drama, vinir voru þeir mikilvægustu í heimi, ég fór í skólann og flutti hinum megin á hnöttinn með fjölskyldu minni.“ Yazan hefur sömuleiðis flutt yfir hnöttinn með fjölskyldu sinni en af öðrum ástæðum en Freyja. En þau eiga það sameiginlegt að upplifa ýmsar hindranir í umhverfinu og viðhorfum.
„Ég gat ekki verið lengi ein heima og oftast þegar ég var það var ég smeyk. Mamma gat ekki verið að vinna því NPA var ekki komið til sögunnar. Ég fór í sjúkraþjálfun og átti tvo sérhannaða hjólastóla og önnur hjálpartæki,“ skrifar Freyja. Hún fæddist með beinbrotasýki, sjúkdóm sem lýsir sér þannig að bein brotna auðveldlega. „Ég var nýbyrjuð á lyfjum sem reyndust verða mér mikið gæfuspor því þau drógu verulega úr beinbrotum með tímanum. Heimili okkar var hannað sérstaklega með aðgengisþarfir mínar í huga en samt var orðin þörf á breytingum enda breytast líkamar og aðgengisþarfir með. Ég þurfti heilbrigðisvörur til þess að komast á salerni. Lífið gekk upp en var oft krefjandi fyrir fjölskylduna mína því samfélagið gerir ekki ráð fyrir fötluðu fólki. En við gátum þetta og ég átti gott líf,“ skrifar Freyja.
„Ég væri að öllum líkindum ekki á lífi“
Ef fjölskylda hennar hefði þurft að flýja, rétt eins og fjölskylda Yazans, hefði veruleiki Freyju verið allt annar. „Ég væri að öllum líkindum ekki á lífi. Ég hefði eingöngu geta haft einn hjólastól svo lengi sem hann væri ekki skemmdur eða tekin. Án hans hefðu foreldrar mínir þurft að halda á mér en beinin hefðu ekki þolað það, þau brotnuðu nefnilega oft í höndum þeirra í öryggi okkar á Íslandi. Ég hefði ekki haft lyfin og því líklega haldið áfram að brotna oft og illa. Þá hefði ég ekki haft verkjalyf og foreldrar mínir hefðu verið með mig slasaða og verkjaða öllum stundum. Þau hefðu mögulega þurft að skilja mig eftir eða bróðir minn. Eða þau hefðu þurft að skipta liði. Fjölskyldan sundruð. Ég hefði ekki fengið skólagöngu og líklega ekki lifað nógu lengi til þess að eignast vini í flóttamannabúðum. Ég hefði samt haft það skárra en Yazan því ég er hvít.“
Meðvirkt, hrætt og skammsýnt þjóðfélag
Freyja segir Ísland ekki vera paradís fyrir fatlað fólk. Langt því frá. En samanborið við Palestínu býður Ísland upp á lífsviðurværi og öruggari framtíð fyrir Yazan, þó Ísland sýni það ekki í verki. Freyja er mjög gagnrýnin á íslensk stjórnvöld. „Ég gæti farið að vísa í lög og mannréttindasáttmála en ég nenni því ekki því með þá ríkisstjórn og ríkisstofnanir sem við búum við hafa þau bara þýðingu þegar það hentar ríkisstjórninni og fjölskyldum þeirra og kannski einhverja strengjabrúðuplebbaembættismönnum. Þeim er öllum drull um barn eins og Yazan. Það eina sem þeim er annt um er að varðveita hvítu ófötluðu börn ríka fólksins. Aðallega bara sín eigin börn samt og börn sem eru lík þeim,“ skrifar Freyja.
Hún gefur lítið fyrir nýsamþykkt frumvarp um óháða mannréttindastofnun „sem vissulega mátti stofna fyrir áratugum en þau ætla aldeilis að monta sig núna“. „Við hljótum að vera eitt meðvirkasta, hræddasta og mest skammsýna þjóðfélag heims.“
Athugasemdir