Stærsta kosningaár sögunnar er nú næstum hálfnað. Yfir 70 kosningar munu hafa verið haldnar í öllum heimshlutum þegar 2024 rennur sitt skeið. Þjóðir heimsins hafa þá kosið sér forseta, þing eða sveitastjórnir. Eðli málsins samkvæmt eru þessar kosninga mismikilvægar í stóra samhenginu, en margar skipta máli fyrir gang alþjóðasamfélagsins næstu árin, enda fær næstum helmingur allra kosningabærra íbúa jarðarinnar að nýta sinn lýðræðislega rétt til kosninga. Kosningarnar í Frakklandi eru nokkuð óvæntar en forseti boðaði til þeirra á dögunum eftir að niðurstöður Evrópuþingskosninganna urðu ljósar. Hægri flokkar fengu þar afar sannfærandi fylgi, þó að þeim hafi sem betur fer ekki gengið eins vel og sum óttuðust.
Það sem af er ári hafa verið kosningar í 48 ríkjum heimsins. Til dæmis í Taívan, Pakistan og Suður Afríku. Rússlandsforseti endurnýjaði sömuleiðis umboð sitt eins og honum einum er lagið og ég er þakklát fyrir að við búum ekki við slíkt sýndar-lýðræði hér. Nýkjörin forseti okkar Íslendinga hlaut heiðarlega kosningu og kemur askvaðandi úr atvinnulífinu inn á Bessastaði innan tíðar. Ætli það sé ekki óhætt að fullyrða að hún staðsetji sig nokkuð vel til hægri á hinum títtnefnda pólitíska ás. Nóg hefur verið skrafað og skrifað um forsetakosningarnar okkar og ég ætla ekki að bera meira í þann bakkafulla læk.
Öflugur hægri krókur
Hægrinu hefur reyndar gengið alveg glimrandi vel víða. Ríkisstjórnir Ítalíu, Finnlands, Slóvakíu, Ungverjalands, Króatíu og Tékklands skarta allar flokkum sem kæmust varla lengra til hægri á ásnum þótt þeir vildu. Svíþjóðardemókratarnir eru næst-stærstir í því ágæta landi og flokkur hollenska hægri-öfgamannsins Geert Wilders vann stórsigur í síðustu kosningum þar. Og svo kemur brátt í ljós hvað gerist í Frakklandi, eftir að Emmanuel Macron ákvað skyndilega að boða til kosninga eins og áður var nefnt, þar sem Þjóðfylking andstæðings hans, Marine Le Pen, vann stórt í Evrópuþingskosningunum. Macron biðlaði til miðju- og vinstri flokka að taka höndum saman til að sporna við hægrisveiflunni sem virðist yfirvofandi. Og þau hlustuðu. Kosningabandalag vinstrisins var myndað á mettíma daginn eftir tilkynninguna. Það er nefnilega hægt að gera ýmislegt þegar tíminn er naumur og mikið er í húfi. Hvort þetta dugi til, verður að koma í ljós.
Óhugnanlegar vinsældir öfganna
Þann 22. maí síðastliðinn boðaði Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, óvænt til kosninga þann 4. júlí næstkomandi. Ríkisstjórn Sunak hefur komið afar illa út í könnunum og beið nýlega ósigur í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, ber sig vel og segir þetta tækifærið sem Bretland hefur beðið eftir. En það eru önnur og ógnvænlegri teikn á lofti í Bretlandi. Þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Reform UK, sem mætti snara sem Umbótaflokkur Bretlands, með Nigel Farage í broddi fylkingar, er á fordæmalausri siglingu upp á við. Flokkurinn mælist ýmist á milli íhaldsins og verkamannanna, eða í öðru sæti. Hverju eru Farage og félagar hans að lofa kjósendum? Þeir ætla að laga efnahaginn, stöðva innflytjendaflæði, skera niður ríkisbáknið og endurskoða heilbrigðiskerfið frá grunni. Kunnuglegt stef. Hvort Bretar gleypi þetta á eftir að koma í ljós. Má í þessu samhengi minna á að Miðflokkurinn okkar íslenski er að mælast þriðji stærsti flokkurinn í skoðanakönnunum. Nóg um það.
En framtíð fleiri ríkja heimsins er enn óráðin. Í Bandaríkjunum keppast tveir aldurshnignir hvítir karlar á ný um lyklavöldin að heiminum og niðurstöðu að vænta í nóvember. Bandaríkin eru merkilegt land fyrir margra hluta sakir. Öfgafullt land, að mörgu leyti hrátt og vart þarf að taka fram að pólitíkin og pólaríseringin er það líka. Nú í aðdraganda kosninganna gáfu íhaldssöm hægri öfl þar í landi út sameiginlega stefnuskrá sem telur næstum þúsund blaðsíður og útlistar ítarlega aðgerðaráætlun. Lítum aðeins á þetta manífestó hægrisins vestra, óðinn til Trumps.
„Í Bandaríkjunum keppast tveir aldurshnignir hvítir karlar á ný um lyklavöldin að heiminum.“
Með aðgerðaráætluninni ætla þau sér að: Leggja niður menntamálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Banna þungunarrof. Draga gífurlega úr allri opinberri heilbrigðisþjónustu. Leyfa skilyrðislaust beitingu hervalds gegn mótmælendum, safna upplýsingum um almenna borgara og þeirra pólitísku skoðanir, setja skorður á mál- og kennslufrelsi í skólum, efla kristin gildi, skerða réttindi kvenna, hinsegin fólks, innflytjenda og nánast allra sem eru ekki hvítir karlmenn. Hvers vegna? Jú, þau svara því svona: Til að ná Bandaríkjunum til baka úr höndum vinstra fólks sem hefur eyðilagt Bandaríkin með frjálslyndri stefnu sinni.
Vopnin sem skaða engan
Ég hef engin áhrif þegar kemur að kosningum um víða veröld og get lítið annað gert en treyst að hið góða beri sigur úr býtum. Það kann að hljóma ankannalega að skilgreina „manifestó“ hægri aflanna sem eitthvað illt en ég get ekki litið öðruvísi á það. Að beita kúgun, ofbeldi og mismunun er illvirki. Einu vopnin sem við eigum í baráttunni gegn þessum vondu dystópísku plönum eru kærleikur, samkennd, viska og samfélagsvitund. Það eru reyndar ansi öflug vopn, sem þó skaða engan.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna
En vera í ríkisstjórn og halda hægrinu á floti en svíkja allt vinstrið.
Hver er trúverðugleikinn?