Vantrauststillaga sem Miðflokkurinn hefur lagt fram á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra er djúpstæðari en afstaða þingmanna til hvalveiða að mati Sigmars Guðmundssonar, þingmanns Viðreisnar.
„Þetta snýst að sjálfsögðu bæði um stjórnsýslu ráðherrans, algjörlega óháð því hvaða skoðun maður kann að hafa á tiltekinni atvinnustarfsemi þá finnst manni það eðlileg og sjálfsögð krafa í stjórnsýslunni að þau fyrirtæki sem á annað borð mega starfa hér á Íslandi að þau búi við einhvern fyrirsjáanleika í stjórnsýslunni, algjörlega óháð skoðunum manns sjálfs,“ sagði Sigmar þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins í upphafi þingfundar í dag.
Sigmar sagði vandræðagang hafa einkennt störf ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna allt kjörtímabilið. Algjört meirihlutaræði ríki á Alþingi og sagði hann það ekki ganga upp að einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar séu settir í þá stöðu að eiga að verja ráðherra ríkisstjórnar falli. „Ríkisstjórnar sem teygir sig ekki til stjórnarandstöðunnar í samkomulagsátt í nokkru einasta máli.“
„Vandi þessarar ríkisstjórnar eru miklu djúpstæðari“
Vantrauststillaga á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður tekin til umræðu á Alþingi á morgun og að öllum líkindum verða greidd atkvæði um tillöguna í kjölfarið. „Ég sé að því er hreyft í Morgunblaðinu í dag að ein leiðin út úr þessum ógöngum fyrir matvælaráðherra getur verið að skipta einfaldlega um ráðherrastól eins og hefur verið gert áður á líftíma þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Sigmar, sem telur enn ein stólaskipti ráðherra ekki koma til greina.
Slíkt hefur gerst í tvígang á þessu kjörtímabili. Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra vegna þess að umboðsmaður Alþingis birti álit þess efnis að Bjarna hefði brostið hæfi til að taka ákvörðun um að selja hlut í Íslandsbanka til félags í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, í mars 2022. Þá færði Svandís Svavarsdóttir sig úr matvælaráðuneytinu í innviðaráðuneytið í apríl þegar breytingar voru gerðar á ríkisstjórn eftir að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um forsetaframboð.
„Vandi þessarar ríkisstjórnar eru miklu djúpstæðari en svo að hann verði leystur með því einu að skipta ráðherrum milli ráðherrastóla,“ sagði Sigmar.
Vantraust á matvælaráðherra er ekki eina málið sem er á dagskrá þingsins þessa síðustu daga fyrir sumarfrí. Síður en svo. Meðal annarra mála má nefna frumvarp um lagareldi, sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka, fjármálaáætlun 2025-2029, breytingar á lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis og listamannalaun.
Þinglok voru áætluð síðasta föstudag en þingfundir og nefndarfundir verða haldnir næstu daga eftir því sem þörf er á. Ekki liggur fyrir hvenær þingmenn komast í sumarfrí. Starfsáætlun fyrir næsta þingvetur hefur hins vegar verið samþykkt af forsætisnefnd. Sumarleyfi þingsins lýkur 10. september þegar þingsetning fer fram. Stefnuræða Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og umræður um hana fara fram 11. september.
Athugasemdir