„Ég missti móður mína þegar ég var tíu ára. Það var mikið áfall. Pabba minn þegar ég var 14, 15 ára. Það var líka mikið áfall – að vera orðinn foreldralaus ungur,“ segir Gunnbjörn Guðmundsson, prentari á eftirlaunum. „Ég hef alla tíð starfað við það. Bæði erlendis, í Noregi, og hérna heima á Íslandi,“ útskýrir hann.
Gunnbjörn segir blaðamanni að hann sé áttræður og yngstur átta systkina. „Nú eru bara þrjú eftir, tvær systur og ég. Þær hafa reynst mér mjög vel – þær voru eldri en ég og gátu komið í staðinn fyrir foreldramissinn.“ Hann segir það hafa bjargað sér í gegnum unglingsárin að hafa átt systkini sín að. Spurður hvort hann sakni ekki þeirra sem fallin eru frá svarar hann því játandi. „Mjög mikið.“
Einkum var Gunnbjörn náinn einum bróður sínum, en sá var tíu árum eldri. „Við vorum miklir vinir og töluðumst alltaf við daglega. Þegar maður horfir til baka – ég er orðinn svo gamall – þá sakna ég margra systkina minna en þó mest hans. Við vorum svo góðir vinir, þótt hann væri tíu árum eldri en ég. Stórgáfaður strákur.“
Gunnbjörn er ekkill en hann á tvö börn sem eru honum bæði nákomin og kær. „Þau hugsa vel um gamla manninn, það gefur lífinu gildi. Annars er ég voða mikið einn og mér líkar ekki að vera einn. Það held ég að engum líki við. Það er mjög erfitt þegar maður er orðinn svona gamall að vera einn. Bæði er tíminn lengi að líða og áhugamálin fá. Einveran er orðin svo þjakandi eitthvað. En þegar maður er orðinn svona gamall þá hefur maður ekki mikið val.“
Athugasemdir (1)