Andri Steinn Hilmarsson var í mánuð bæði aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og bæjarfulltrúi hjá Kópavogsbæ.
Hann hefur nú óskað eftir tímabundnu leyfi frá skyldum sínum sem kjörinn fulltrúi í Kópavogi. „Það tekur bæði til bæjarstjórnar og nefnda sem ég sit í á vegum bæjarins,“ segir Andri í tölvupósti til Heimildarinnar.
Áður hafði verið óskað eftir áliti frá forsætisráðuneytinu vegna ráðningar hans.
Samkvæmt lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands kemur fram að störf aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf og að þeim sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða, nema fyrir því fáist sérstök undanþága.
Andri Steinn hóf störf sem aðstoðarmaður 12. maí en það var tilkynnt 5. júní síðastliðinn, degi eftir að Heimildin sendi ráðuneytinu fyrirspurn um ráðninguna. Hún er tímabundin en Andri er að leysa Eydísi Örnu Líndal af á meðan hún er í barneignarleyfi.
Andri Steinn fór í leyfi frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins sama dag og hann tók við starfi aðstoðarmanns Áslaugar Örnu. Hann hverfur aftur þangað þegar tímabundnu aðstoðarmannsstarfinu er lokið, samkvæmt skriflegu svari hans til Heimildarinnar. Aftur á móti var Andri Steinn enn bæjarfulltrúi og fulltrúi í bæjar- og skipulagsráði hjá Kópavogsbæ þegar Heimildin sendi honum fyrirspurn um það í lok síðustu viku. Í tölvupósti á miðvikudag sagðist hann svo hafa óskað eftir tímabundnu leyfi frá „skyldum mínum sem kjörinn fulltrúi í Kópavogi“.
Dómgæsla og stjórnarseta í stjórn UN Women leyfileg
Ráðherra getur veitt undanþágu frá lögum um að aðstoðarmönnum sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða „ef fyrirhugað aukastarf telst til mannúðarstarfa, kennslu- eða fræðistarfa, vísindarannsókna, listsköpunar eða annarra og tilfallandi starfa svo fremi að það hafi ekki áhrif á störf viðkomandi í Stjórnarráði Íslands og greiðslur fyrir aukastörfin teljast innan hóflegra marka“.
Fastar mánaðarlegar greiðslur til Andra vegna setu í bæjarstjórn voru 28 prósent af þingfararkaupi, eða um 410.000 krónur, og greiðslur fyrir setu í bæjarráði um 30 prósent af þingfararkaupi, eða um 440.000 krónur. Mánaðarlaun aðstoðarmanna ráðherra voru í fyrra yfir 1,5 milljónir.
Ekkert er kveðið á um það í lögunum hvað nákvæmlega telst til hóflegra greiðslna og þar er jafnframt ekki tekið fram hvort pólitísk störf geti fengið undanþágu. Fyrri aukastörf sem aðstoðarmenn hafa fengið undanþágu fyrir eru annars vegar stjórnarseta í stjórn landsnefndar UN Women á Íslandi, en það var ólaunað starf, og hins vegar dómgæsla á vegum Körfuknattsleikssambands Íslands.
Athugasemdir