„Að mínu mati er augljóst að þessi svokölluðu heimili, sem hafa meðal annars sprottið upp í Kópavogi undir formerkjum Betra lífs, geri meira ógagn en gagn,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
„Það er ekkert eftirlit. Þarna er ekkert starfsfólk til staðar sem veitir skjólstæðingum stuðning og öryggi fólks er ekki tryggt í hrörlegum húsakynnum. Það þyrfti að vera forgangsatriði að skilgreina þessa starfsemi í lögum og reglugerðum því þangað til þar verður gert falla þau á milli kerfa enda teljast þau hvorki til heilbrigðisúrræði né gistiþjónustu, þrátt fyrir að eiga að vera einhverskonar blanda af hvoru tveggja. Heimilisleysi er bæði heilbrigðisvandi og félagslegur vandi sem nálgast þarf á heildstæðan hátt. Þetta er afar viðkvæmur hópur sem fær ekki fullnægjandi þjónustu við núverandi aðstæður og því miður fjölgar bara þeim sem láta lífið í úrræðaleysinu á meðan pólitíkin forgangsraðar fjármagni í flest annað,“ segir Sigurbjörg Erla.
Borguðu leigu fyrir óíbúðarhæft hús
Eins og hefur komið fram í umfjöllun Heimildarinnar voru tvö af áfangaheimilum Betra lífs rekin í Kópavogi, bæði í Fannborg þar sem kviknaði í og síðar á Kópavogsbraut, húsnæði sem var í niðurníðslu en íbúar borguðu Arnari Gunnari Hjálmtýssyni, forstöðumanni Betra lífs, á bilinu 140 til 160 þúsund krónur í reiðufé fyrir herbergi þar. Íbúar voru með leigusamning sem enn var í gildi þegar húsið var rifið, þeim að óvörum. Heimildin greindi frá því að einn íbúinn hefðist við í tjaldi eftir að húsið var rifið en tveir þurftu að flytja í bíl.
Maður sem hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot bjó bæði á Kópavogsbraut og í Fannborg. Í samtali við Heimildina sagðist hann vera að selja lyf en þegar kom að ásökunum fjölmargra kvenna sem eru heimilislausar og glíma við fíknisjúkdóminn sagði hann þær ljúga upp á hann kynferðisbrotum gagnvart þeim.
Heimildin óskaði eftir upplýsingum frá sameiginlegu Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness varðandi áfangaheimilið að Kópavogsbraut. Í málaskrá eftirlitsins segir að „faðir drengs“ sem leigði herbergi á Kópavogsbraut hefði „miklar áhyggjur af öryggi, brunavörnum og hollustuháttum í húsnæðinu“. Fulltrúi hjá eftirlitinu segir manninum að leigjendurnir sjálfir ættu að hafa samband og þá væri hægt að fara í skoðun á því en „margir eru tregir til þess vegna ótta við að missa herbergið og enda á götunni“, skrifaði fulltrúinn í málaskrána.
Ekkert gerst á heilu ári
Enn er svo komið að Reykjavíkurborg hefur borið hitann og þungann í málefnum heimilislausra á höfuðborgarsvæðinu og hafa fulltrúar borgarinnar ítrekað kallað eftir því að önnur sveitarfélög taki virkari þátt í að veita heimilislausu fólki þjónustu.
Velferðarsvið Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness ákváðu á vormánuðum 2022 að fara af stað með samstarfsverkefni í málaflokki heimilislausra. Markmiðið með verkefninu var að greina hóp þeirra einstaklinga sem töldust heimilislausir með miklar og flóknar þjónustuþarfir og í brýnni húsnæðisþörf. Jafnframt var markmið verkefnisins að móta tillögur um það hvernig bæta mætti þjónustu við þennan hóp með sameiginlegu átaki aðildarsveitarfélaganna. Samstarfshópurinn skilaði af sér skýrslu í mars 2023.
Sigurbjörg Erla segir vinnu hópsins hafa verið afar vandaða og hún unnin í miklu samráði og með aðkomu ólíkra sérfræðinga og hagaðila. „Í skýrslunni eru settar fram tillögur til úrbóta og þeim forgangsraðað. Lögð er áhersla á að tryggja framboð á húsnæði samkvæmt hugmyndafræði Housing first ásamt því að koma á fót VOR-teymi - vettvangs- og ráðgjafarteymi - að fyrirmynd Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Auk þess er lagt til að stofnuð verði bæði dagsetur og neyslurými.“
Þegar ár var liðið frá útkomu skýrslunnar, í apríl á þessu ári, lagði Sigurbjörg Erla, sem situr í velferðarráði Kópavogsbæjar, fram beiðni í ráðinu „um minnisblað um samráðsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem Kópavogsbær tók þátt í, um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.“
„Hver er staða mála varðandi þetta verkefni í Kópavogi og hvað er áætlað að gera á þessu ári í þessum málaflokki?“
Þá spurði hún á fundinum: „Hver er staða mála varðandi þetta verkefni í Kópavogi og hvað er áætlað að gera á þessu ári í þessum málaflokki?“ Velferðarráð vísaði málinu til úrvinnslu hjá sviðsstjóra velferðarsviðs.
Óskar eftir endurskoðun hjá Kópavogsbæ
Í tillögum starfshópsins trónir efst að móta stefnu í málefnum heimilislausra og gera málaflokkinn sýnilegri í heildarstefnum og aðgerðaráætlunum. Velferðarráð ber ábyrgð á mótun stefnu í velferðarmálum í umboði bæjarstjórnar.
Á síðasta fundi velferðarráðs Kópavogsbæjar, sem haldinn var í maílok, lagði Sigurbjörg Erla fram eftirfarandi bókun
„Velferðarráð samþykkir að við endurskoðun velferðarstefnu Kópavogs haustið 2024 verði mótuð stefna Kópavogsbæjar í málefnum heimilislausra. Stefnan mæli fyrir um hvernig þjónustu við heimilislausa skuli háttað og taki mið af þörfum hópsins, byggi á skaðaminnkandi nálgun og miði að því að tryggja hópnum aðgengi að þjónustu og húsnæði án strangra skilyrða. Í samræmi við tillögur skýrslu verkefnastjóra samstarfsverkefnis í málefnum heimilislausra verði unnið út frá kjarna þeirrar hugmyndafræði að húsnæði sé grunnþörf sem þarf að mæta áður en tekist er á við annan vanda sem einstaklingur kann að kljást við, svo sem fíkni-og/eða geðvanda."
Formaður ráðsins, Björg Baldursdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði til að afgreiðslunni yrði frestað til næsta fundar ráðsins. Frestun var samþykkt með atkvæðum Bjargar, Matthíasar Björnssonar , Páls Marís Pálssonar og Sigrúnar Bjarnadóttur, en þau fjögur eru fulltrúar meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Einar Örn Þorvarðarson aðalmaður Viðreisnar, Hólmfríður Hilmarsdóttir aðalmaður Vina Kópavogs og Erlendur H. Geirdal áheyrnarfulltrúi Samfylkingar tóku undir tillögu Sigurbjargar að bókun velferðarráðs.
Meirihlutinn hafnaði fjármögnun
Sigurbjörg Erla segir miður að lítið hafi gerst í málaflokki heimilislausra í Kópavogsbæ. „Þrátt fyrir mikla vinnu og kostnað við greiningarvinnu hafnaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi því að fjármagna málaflokkinn í fjárhagsáætlun. Stjórnendur og starfsfólk velferðarsviðs Kópavogsbæjar hefur gert sitt besta með núverandi fjármagn og mannafla en það gefur augaleið að það er takmarkað hægt að bæta án viðbótarfjármagns þegar allir eru verkefnum hlaðnir fyrir. Í stað stofnunar dagseturs var því farin sú leið að nýta fyrirliggjandi styrkheimildir velferðarsviðs til frjálsra félagasamtaka til þess að styðja Samhjálp til þess að lengja opnunartíma kaffistofunnar yfir allra köldustu vetrarmánuðina, eða frá desember til mars. Vissulega betra en ekkert en það er ljóst að þessi mál eru í algjöru óefni og brýnt að gera mikið betur. Skjólstæðingum Kópavogsbæjar er í dag raunverulega vísað á neyðarskýlin sem Reykjavíkurborg rekur þar sem þau geta fengið inni á meðan húsrúm leyfir og greiðir Kópavogbær borginni þá fyrir gistiplássið."
2022 vor - samstarfsverkefni um heimilislausa ýtt úr vör.
2023 mars - vandaðri skýrslu skilað.
2024 apr. maí - skorað á Velferðarráð Kóp. að móta stefnu. Meirihluti frestar málinu.
2025 - ný verkefnastjórn skipuð. Nei, segi bara svona…