Á árunum 2023 og 2024 munu alls 340 milljarðar í óverðtryggðum íbúðalánum, sem bera fasta vexti í dag, koma til vaxtaendurskoðunar. Þar eru um í 190 milljarðar króna á seinni hluta ársins 2024. Árið 2025 munu svo 250 milljarða króna lán til viðbótar koma til endurskoðunar.
Fjallað er um þetta í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gaf út í dag, en ljóst er að þau heimili sem tekið hafa óverðtryggð lán og fest vexti á árunum til ýmist þriggja eða fimm ára á 2020 og 2021 horfa fram á verulega hækkaða greiðslubyrði á allra næstu misserum, ef vaxtastig í landinu helst svipað og það er nú.
Eins og sjá má á skýringarmynd Seðlabankans hér á neðan bera þau óverðtryggðu lán sem koma til vaxtaendurskoðun á síðari hluta næsta árs 4,2 prósent vexti að meðaltali og þau sem koma til vaxtaendurskoðunar árið 2024 4,3-4,5 prósenta vexti.
Lægstu óverðtryggðu vextirnir sem eru í boði hjá viðskiptabönkunum þremur í dag eru slétt 7 prósent, en það eru breytilegir vextir Landsbankans. Fastir óverðtryggðir vextir eru einnig lægstir eða 7,45 prósent hjá þeim banka, en 8,15 prósent hjá Íslandsbanka, þar sem þeir eru hæstir um þessar mundir.
Í umfjöllun Seðlabankans í Fjármálastöðuleika segir að öðru óbreyttu muni heimilin sem bera þessar skuldir þurfa að taka á sig aukna greiðslubyrði þegar að vaxtaendurskoðun kemur, eða grípa til ráðstafana á borð við það að lengja í lánum eða breyta skilmálum lána á annan hátt til að lækka greiðslubyrðina.
„Þetta gæti leitt til þess að aukinn fjöldi heimila kjósi að færa sig yfir í verðtryggð lán, enda er greiðslubyrði slíkra lána lægri á fyrri hluta lánstíma en á sambærilegum óverðtryggðum lánum,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Milljarðar í aukinn árlegan vaxtakostnað fyrir heimilin
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur sem starfar sem efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins, kallaði þennan stabba húsnæðislána „nýju snjóhengjuna“ í færslu á Twitter í dag og benti á að það muni skipta mjög mörg heimili mjög miklu, upphæð sem samanlagt hlaupi á milljörðum króna árlega, hvar vaxtastigið í landinu yrði statt eftir um 2 ár.
„Líka slatti af heimilum sem það mun skipta máli fyrir fyrr, sérstaklega eftir ár,“ skrifaði Konráð.
Athugasemdir