Í Alþingiskosningunum 2017 náði VG 17% fylgi, og varð annar stærsti flokkur landins. Í krafti þessa veitti forseti formanni VG, Katrínu Jakobsdóttur, stjórnarmyndunarumboð, sem hún nýtti. Leiddi það svo til tæplega 7 ára stjórnarforustu hennar/VG, með Sjálfstæðisflokki og Framsókn, sem enn heldur áfram, þó undir forsæti Bjarna Benediktssonar sé frá í apríl.
Í vikunni kom fram í þjóðarpúlsi Gallup, að fylgi flokksins væri komið úr 17% 2017 niður í rúm 3% nú! Hvernig gat fylgi VG hrunið með þessum stórfellda og einstaka hætti? Annað eins hefur varla sést.
Hver voru helztu stefnumál VG 2017, sem öflugt fylgi þess tíma byggðist á?
Bann við hvalveiðum
„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23.-25. október 2015, leggst eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur. Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni“.
Hvað varð um ofannefnda hvalveiðistefnu VG, sem tryggði flokknum fylgi dýraverndar- og náttúruverndarsinna, loforð um hvalveiðibann við Íslandsstrendur? EKKERT. Frá því 1980 hefur aldrei verið meira veitt af hvölum, langreyði, en einmitt í forsætisráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur.
Stærsti þjóðgarður Evrópu á miðhálendinu
Í stjórnarsáttmála frá 2017 stendur líka: „Stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu“. Þetta stóra stefnumál, átti að verða einn stærsti þjóðgarðurinn í Evrópu, hefði VG kannske átt að fá framgengt fyrir að gefa eftir hvalafriðun. Svona á grundvelli þeirra málamiðlana og hrossakaupa, sem tíðkast hafa hjá þessari ríkistjórn. En náði VG því? NEI. Hér svikust D og B undan merkjum, ýttu bara málinu út af borðinu, og VG lét það bara gott heita.
Aukin vernd villtra dýra
„Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum“ stóð líka í stjórnarsáttmála.
Frá 1970 til 2020 hefur viltum dýrum og fuglum í heiminum fækkað um 70%, þannig, að fyllsta ástæða virtist til að taka fyrir þetta mál hér líka. En, hvað varðar Bjarna Ben og Sigurð Inga um villt dýr, lífríkið og vernd þeirrar einu jarðar, sem við eigum!? Auðvitað ekki mikið. Enda komst þetta verndar- og friðunarmál aldrei úr nefnd. Fékk ekki mikið á VG. Þau brostu bara áfram.
Endurskoðun stjórnarskrár
„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar...“ segir líka í sama stjórnarsáttmála. Náðist þetta miklivæga atriði í stjórnarsáttmála þá fram? NEI. Sama saga.
Hér fóru D og B líka undan í flæmingi, og sat formaður VG/forsætisráðherra uppi með frumvarp, sem „samherjar“ vildu ekki sjá eða heyra, og varð að engu. Enn eitt núllið.
Stórfellt átak í umhverfis- og loftslagsvernd
VG hefur látið nokkuð með sinn meinta góða árangur í loftslagsvernd í þessari ríkisstjórn.
Haustið 2018 boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar, þar sem ekki mættu færri en 7 ráðherrar. Bæði D og B þóttust allt í einu vera orðnir grænir.
6,8 milljarða skyldi nú verja til aðgerða í loftslagsmálum næstu 5 árin. 1,3 milljarða á ári. Gott mál, allt er betra en ekkert, en það vildi svo til, að um sömu mundir og ríkisstjórnin barði bumbur sínar með þetta mál, fréttist það, að setja ætti 120 milljarða í flugstöð í Keflavík á næstu árum. 18-falt meira skyldi fara í flugstöð, en í að tryggja landsmönnum minni mengun, hreinna loft og betri lífsskilyrði. „Stórfellt“ er sveigjanlegt hugtak.
Þessi upptalning ætti að skýra ástæðurnar fyrir því, að VG er farið úr 17% fylgi niður í 3%. Flokkurinn fallinn út af þingi. Eins og við blasir, er ástæðan vanefndir og stefnusvik í helztu málum.
Fyrsta stefnumálið, landsfundarloforð VG frá 2015, bann við hvalveiðum, er nú í deiglu hjá matvælaráðherra, Bjarkeyju Olsen, eftirmanni Svandísar Svavarsdóttur, auðvitað líka VG.
Í fyrravor birti MAST skefilega skýrslu um hvalveiðarnar sumarið 2022, kolsvarta skýrslu, sem sýndi, að lífið hafði verið murkað úr yfir 40% dýranna, með frumstæðum, fantalegum og skelfilegum hætti. Fylltust margir hrylling við lestur og skoðun myndefnis. Hvers konar menn erum við, Íslendingar?
Hversu margar hvalkýrnar voru, af þeim 148 dýrum, sem drepin voru, kom ekki fram, en vitað var, að flestar þeirra voru með því sem næst fullgenginn kálf í kviði, eða með lifandi kálf sér við hlið, sem þá soltið hefur í hel.
Skýrsla MAST fór formlega til Fagráðs um velferð dýra 22. maí 2023, og kom þessi niðurstaða Fagráðs 16. júní:
„Niðurstaða ráðsins var sú, að sú veiðiaferð sem beitt er við veiðar stórhvela samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra“.
Gaf ráðið jafnframt til kynna, að það telji, að ekki sé hægt að bæta svo úr, með núverandi skipum, tólum og veiðiaðferðum, að veiðar geti samræmst þessum lögum.
Línurnar í þessu máli eru því hreinar og tal Bjarkeyjar um enn eina skoðun málsins tómur fyrirsláttur.
Ef nýtt hvalveiðileyfi verður veitt, gengur það klárlega og skýrlega gegn lögum landins, nr. 55/2013, svo að ekki sé talað um, hvernig það þverbryti stefnu og konsingaloforðum VG.
Ef Bjarkey stendur ekki loks við stefnuna og loforð VG og hafnar með öllu útgáfu frekari leyfa til langreyðaveiða, jafngildir það því fyrir undirrituðum, að hún reki síðasta naglann í líkkistu VG. Það er hætt við, að fámennt yrði við útförina og harmar í lágmarki.
Höfundur er samfélagsrýnir og náttúruverndarsinni
Athugasemdir (5)