Ég er staddur í Kaupmannahöfn núna og verð hér næstu daga, svo áður en ég fór út, þá fór ég og greiddi atkvæði utan kjörfundar í forsetakosningunum. Það er rúm vika síðan ég mundaði stimpilinn og ég vissi að ýmislegt ætti eftir að gerast, sem kannski myndi breyta viðhorfi mínu en ég vissi líka að ég gæti þá alltaf greitt atkvæði að nýju, ef ég passaði bara að atkvæðið kæmist heim í tæka tíð.
Og nú eru allra síðustu forvöð:
Á ég að skipta um hest og breyta atkvæðinu?
Má ég fara yfir þá frambjóðendur sem helst komu til mála hjá mér?
Ég gæti reyndar mjög vel hugsað mér að kjósa Steinunni Ólínu þó hún eigi greinilega ekki möguleika á að ná kjöri. En vá hvað það er miklu meira púður í henni en flestum hinna! Eldhjarta og eldmóður. Hún hefur eindregið frábeðið sér allar óskir um að hún fari út í hefðbundnari pólitík; annars hefði ég sennilega sett þær fram!
Jón Gnarr hefur oft verið skemmtilegur í kosningabaráttunni en kannski ekki alveg nógu oft til að sannfæra mig um erindi hans. Það er ögn eins og hann vanti sjálfan svolítinn sannfæringarkraft.
Katrínu Jakobsdóttur ætla ég ekki að kjósa. Burtséð frá áliti mínu á hennar ferli sem forsætisráðherra, þá finnst mér hreinlega og einlæglega að embætti forseta eigi ekki að skipa manneskja sem er varla enn búin að leggja frá sér margvíslegar og þungar byrðar af stjórnmálaferli við hin allra æðstu völd.
Mér finnst það satt að segja bara ómögulegt fordæmi, jafnvel varasamt, hver sem í hlut ætti.
Og Katrín á líka við þann djöful að draga að þó stuðningsmenn hennar komi vissulega úr öllum áttum og öllum stéttum, þá verður því ekki neitað að öflugasti valdahópur landsins í stjórnmálum og peningum styður hana með ráðum og dáð.
Það var bara eins og punkturinn yfir það i þegar Kristján Þór Júlíusson Samherjaráðherra birtist með henni skælbrosandi að grilla pylsur á Akureyri.
Það kann að virðast óréttlátt að láta Katrínu gjalda stuðningsmanna sinna, en hún hefur látið sér þennan stuðning valdaklíkunnar vel líka og þá er það bara svoleiðis.
Og sannarlega ótvíræðir hæfileikar Katrínar og reynsla eru þrátt fyrir allt ekki svo áberandi meiri en sumra hinna frambjóðendanna að þeir nái að vega upp á móti þessum mótbárum gegn henni sem forseta í mínum huga.
Í þessu sambandi má geta þess að íslenska þjóðin hefur gjarnan talið sér mjög til tekna að hafa valið Kristján Eldjárn til forseta 1968 fremur en Gunnar Thoroddsen. Þó var það svo að Gunnar hafði svo ótrúlega miklu meiri hæfileika og reynslu til að gegna embættinu heldur en Kristján, samkvæmt öllum hefðbundnum skilgreiningum.
En íslenska þjóðin valdi Kristján.
Hvers vegna?
Vegna þess að Gunnar Thoroddsen var þrátt fyrir alla sína hæfileika í huga þjóðarinnar of tengdur valdaklíkunni sem þá réði. Þjóðin vildi þá forseta óháðan valdastéttinni.
Katrín á svolítið við þetta að stríða núna, í margra augum, þrátt fyrir að stuðningsmenn hennar komi vissulega úr mörgum fleiri áttum en valdastéttinni. Og þeir stuðningsmenn verða bara að sætta sig við að þetta vefst fyrir mörgum.
Baldur Þórhallsson hefur komið skemmtilega á óvart í þessari kosningabaráttu. Ég hefði til skamms tíma ekki látið mér detta hann í hug sem forseta en með blöndu sinni af heiðarleika og röggsemi hefur hann fært okkur heim sanninn um að hann hafi vissulega þunga til að gegna starfinu. Þótt Baldur verði máske ekki kosinn forseti í þetta sinn vona ég og treysti því að hann finni hæfileikum sínum og þekkingu verðugan vettvang.
Í sjálfu sér hefur Halla Tómasdóttir líka komið mér þægilega á óvart. Hún hefur sagt ýmislegt sem ég kann bara ljómandi vel við. Og hún mundi áreiðanlega leikandi létt kunna sitt fag í þessu djobbi, þó mér finnist reyndar ögn óþægilegt að hún skuli hafa valið sér að slagorði að „taka þátt og gera gagn“ í ljósi þess að frá því skömmu eftir hrun hefur hún einmitt valið að taka ekki þátt í íslensku þjóðlífi, nema rétt þegar hún skýst hingað heim til að bjóða sig fram til forseta.
Þetta hef ég nú verið að hugsa og að lokum er niðurstaðan sú að ég þurfi ekki að breyta atkvæði mínu.
Ég kaus Höllu Hrund áður en ég fór út og ætla að halda mér við það.
Ég held að við þurfum á að halda forseta sem er ekki með neinn farangur úr hruninu og öllum hinum þreytandi róstum eftir það. Það er orðið tímabært og ég ímynda mér að Halla Hrund geti sem forseti átt þátt í að losa okkur úr þeim leiðinda álögum.
Þó það þurfi kannski að kosta svolítinn harmóníkuleik inn á milli, þá finnst mér það tilvinnandi!
Ég tók eftir henni fyrst fyrir fáeinum misserum þegar hún varð orkumálastjóri og mann rak í rogastans þegar hún birtist í viðtölum í sjónvarpinu. Ha? Þarna var komin manneskja, háttsettur embættismaður sem talaði mannamál, alþýðumál, sem talaði mál — og máli — fólksins, ekki stofnana, ekki fyrirtækja, ekki valdaklíku.
Og ég man að ég hugsaði með mér: Hvað skyldu þeir verða lengi að berja hana þessa niður?
En hún hélt sjó og er nú komin í forsetaframboð. Sú hefur þá bein í nefinu. Hún er greinilega ekki sú allra sleipasta í kappræðum, en þarf forseti endilega að vera ofsalega sleipur í kappræðum?
Ég held ekki og ég hallast að því að Halla Hrund geti alveg orðið sá forseti sem við þurfum helst á að halda á nýjum tímum frekar en að við þurfum einhvern sem kann öll hin gömlu handtök, hin gömlu orð.
Ég tek allavega sénsinn.
" Eldhjarta og eldmóður"
Steinun Òlina fær mitt atkvædi
Sigmar Odinn Jonsson
Dauðu atkvæðin munu gagnast best þeim sterkasta.
Meinar þú að eg eigi ekki að kjósa þann frambjóðandan sem mér finnst frambærilegastur
Hvað verður með þitt atkvæði
Ég vel þann frambjóðanda sem mér finnst best/ur og það tel ég vera Steinunn Ólina að öðrum ólöstuðum
Þetta er ekki kapphlaupum að kjósa þann sem þú heldur að vinni svo þú getir stært þig af að hafa kosið þann sen vinnur.
Sníst um eigin sannfæringu
Kveðja Sigmar