„Það er gos í gangi og við getum haft áhyggjur af innviðum,“ þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, spurður út í stöðuna á gosinu sem hófst fyrr í dag. Inntur eftir því hvaða innviði hann eigi við sérstaklega nefnir Úlfar orkuverið inni í Svartsengi.
Hvernig metið þið líkurnar á því að virknin færist inn í Svartsengi?
„Krafturinn í þessu gosi er meiri en í undanförnum gosum á Sundhnúkagígaröðinni. Það er meira hraun að koma upp úr jörðinni og það rennur hratt yfir og nálgast okkar helstu innviði. Hraunið hefur runnið yfir Grindavíkurveg fyrir ofan bæinn og hraun skríður fram með ákveðnum hraða. Þannig að við auðvitað höfum áhyggjur af innviðum á svæðinu,“ segir Úlfar.
Hann vildi þó ekki tjá sig um hve langt gæti verið í það að hraunflæðið næði innviðum.
Ekkert hægt að gera til að stöðva flæðið
Nú fyrir skemmstu var greint frá því að hraunið rynni að stofnlögnum fyrir bæði heitt vatn og rafmagn við Grindavík. Úlfar segist ekki vita stöðuna á því einmitt núna en viðurkenndi að auðvitað væri ekki gott ef slíkar leiðslur færu í sundur.
Spurður út í það hvort hann hefði áhyggjur af því að hraunið rynni til Grindavíkur sagði hann: „Við getum haft áhyggjur af því.“
Er eitthvað sem þið getið gert til að stöðva þetta?
„Ekki í augnablikinu, nei,“ segir Úlfar. Nú væru viðbragðsaðilar að sjá um að halda fólki frá og fylgjast með atburðunum. Búið væri að rýma svæðið.
Á svipuðum slóðum og fyrra gos
Nú þegar hefur eldgosið, sem hófst um hádegisbil í dag, runnið yfir Grindavíkurveg. Gossprungan er samkvæmt vef Veðurstofu Íslands 3,4 kílómetrar á lengd og er útstreymishraði hrauns áætlaður 1500-2000 rúmmetrar á sekúndu.
Hraun er komið að varnargörðum vestan við Grindavík, en gossprunan er á svipuðum slóðum og sú sem opnaðist í mars. Neyðarstigi var lýst yfir fyrr í dag.
Athugasemdir