Þessa spurningu fæ ég gjarnan. Þegar í ljós kom að Baldur og Felix hefðu í hyggju að komast í kapphlaupið um Bessastaði var ég ekki í vafa um minn forseta. Önnur framboð sem lágu fyrir eða á eftir komu breyttu þar engu um. Mér fannst að hann hefði allt sem þarf til brunns að bera í embættið og sú skoðun mín hefur síðan styrkts með degi hverjum. Ég þekkti Baldur ekki persónulega, einungis úr sjónvarpi eins og margir aðrir. Eftir störf, fundi og samtöl á kosningaskrifstofu hans þekki ég Baldur betur og veit mun meira um þá heiðursmenn og fyrir hvað þeir standa.
Baldur sem fjölskyldumaður. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að kynnast Baldri og nánustu fjölskyldu hans sem er falleg og samheldin fjölskylda. Kærleikur, virðing, umhyggja og glaðværð er í fyrirrúmi. Þau hafa einstaklega þægilega nærveru enda hjartahlýjar manneskjur sem draga fólk ekki í dilka. Baldur og Felix leggja mikla rækt við samverustundir með sínum nánustu og eiga barnabörnin þrjú sérstakan sess hjá báðum öfum sínum.
Baldur sem kennari og stjórnmálafræðingur. Baldur er einn þekktasti stjórnmálafræðingur sem við eigum og hefur sérhæft sig í málefnum smáríkja ekki síst árangri þeirra, tækifærum og nauðsynlegri fyrirhyggju. Hann þekkir stjórnskipan og utanríkisstefnu Íslands mjög vel og hefur mikilvæg alþjóðleg tengsl víða um heim sem kennari og fræðimaður. Fjöldi nemenda við HÍ og erlenda háskóla hafa verið lánsöm að hafa hann sem kennara þar sem hann er þekktur fyrir fjölbreyttar og nútímalegar kennsluaðferðir. Baldur hefur áhuga á fólki og kann að hlusta.
Baldur sem talsmaður barna og ungs fólks. Eitt helsta áherslumál Baldurs er að vera talsmaður barna og ungs fólks. Það eitt og sér höfðar sérstaklega til mín sem móður, ömmu og leikskólakennara. Þennan hóp vantar iðulega sterkan málsvara og rödd. Þar kemur reynsla þeirra vel, Baldurs sem kennara og Felix sem leikara og reynslubolta í samskiptum við börn og unglinga. Þeir hyggjast kalla saman þá hópa sem um ræðir og þá sem þekkja vel til og setja í samstarfi við þá mælanleg markmið til að vinna eftir.
Baldur sem hommi. Ég ætla ekki að kjósa Baldur af því að hann er hommi en mér finnst það skipta miklu máli. Barátta hans fyrir því að fá að vera hann sjálfur og störf hans er varða mannréttindi hinsegin fólks og fleiri sýnir að hann hefur sjálfstraust, áræðni, þrautsegju og þor. Það eru mikilvægir eiginleikar sem koma sér alls staðar vel, ekki síst á Bessastöðum.
Baldur sem forseti. Allt hér að framan og margt fleira mun koma að góðum notum og prýða Baldur sem forseta. Hann er venjulegur alþýðumaður úr sveit, ekki ofurseldur né tengdur valdhöfum eða peningaöflum. Hann er réttsýnn og öfgalaus mannréttinda- og lýðræðissinni, vel menntaður og með víðtæka reynslu. Hann með Felix sinn fjölhæfa eiginmann sér við hlið mun vekja heimsathygli og koma Íslandi á jákvæðan og mikilvægan hátt á kortið.
Þess vegna vil ég Baldur á Bessastaði. Brjótum aftur blað í forsetasögu okkar.
Athugasemdir (2)