Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Hvað finnst forsetaframbjóðendunum um stríðið á Gaza?

Fé­lag­ið Ís­land-Palestína sendi for­setafram­bjóð­end­un­um bréf þar sem þeir voru spurð­ir út í af­stöðu þeirra til fram­göngu Ísra­els­hers á Gaza-svæð­inu. Þá voru fram­bjóð­end­urn­ir einnig beðn­ir um að svara því hvernig þeir sæju fyr­ir sér frjálsa Palestínu og hvort þeir muni beita sér fyr­ir frjálsri Palestínu nái þau kjöri.

Hvað finnst forsetaframbjóðendunum um stríðið á Gaza?
Allir tólf forsetaframbjóðendur svöruðu bréfi frá Félaginu Ísland-Palestínu. Svör þriggja frambjóðenda, Höllu Hrund Logadóttur, Ástþóri Magnússyni og Baldri Þórhallssyni bárust eftir að fresturinn var liðinn og bregður því ekki fyrir á fréttamyndinni.

Félagið Ísland-Palestína sendi forsetaframbjóðendunum bréf fyrir viku síðan þar sem þeir voru beðnir um að greina frá afstöðu sinni gagnvart stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs og hvernig þeir sjái fyrir sér frjálsa Palestínu. Þá voru frambjóðendurnir einnig beðnir um að svara því hvort þeir muni beita sér fyrir frelsi Palestínu nái þeir kjöri.   

Flestir frambjóðendur segja að stöðva þurfi átökin sem nú geisa og semja þurfi um vopnahlé tafalaust. Þeir frambjóðendur sem mælast með mest fylgi í könnunum eru á sama máli að forsenda fyrir friðarsamningum sé gagnkvæm viðurkenning á fullveldi og sjálfstæði Palestínu og Ísraelsríkis.     

Arnar Þór segist þurfa skoða málið betur

Arnar Þór Jónsson segist vera í hjarta sínu friðarsinni og á þeim forsendum sé afstaða hans sú að „stöðva þurfi blóðbaðið tafarlaust.“ Hann tekur þó fram að hann viti ekki nægilega mikið um ástandið til þess að geta lagt mat á það og segist þurfa skoða málið betur.  

„Út frá mínum fyrri störfum vil ég vera viss um að ég hafi fengið að skoða málið út frá öllum hliðum áður en ég legg mat á viðfangsefnið.“

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér frjálsa Palestínu, svarar Arnar Þór því að að hann óski öllum „þess að fá að lifa við frelsi, öryggi og óttaleysi.“

Nái hann kjöri segist Arnar Þór ekki munu beita sér einhliða fyrir frelsi Palestínu í embætti forseta Ísland. „Í þessu máli eins og öllum öðrum þarf forseti að eiga náið samstarf við ríkisstjórn Íslands. Forseti Íslands getur ekki farið að reka sjálfstæða utanríkisstefnu.“

Steinunn Ólína segir Twitter-færslur ráðherra duga skammt

„Mér finnst ótækt að Ísland hafi ekki með formlegum hætti líkt og margar þjóðir aðrar fordæmt yfirstandandi þjóðarmorð í Gaza. Að ráðherrar tjái sig í þá veruna á Twitter dugar ekki til. Allt annað en yfirlýstur stuðningur Íslands við Palestínumenn og afdráttarlaus fordæming á gjörðum Ísraelsmanna er óafsakanlegt,“ segir Steinunn Ólína í svari sínu við fyrirspurn félagsins. 

Þá segist hún styðja sjálfstæði Palestínu. Hún telur að það geri flestir Íslendingar líka með vísan í sögu sjálfstæðisbaráttunar hér landi.

Nái hún kjöri sem næsti forseti Íslands segist Steinunn Ólína munu nýta dagskrárvald sitt til þess að minna Alþingi og ríkisstjórn á vilja íslensku þjóðarinnar.

„Ísland var eitt fyrsta Evrópuríkjanna til að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu. Ég myndi sem forseti alltaf vera hlynnt sjálfstæðri og frjálsri Palestínu og nýta dagskrárvald mitt til að minna þing og stjórn á vilja íslensku þjóðarinnar í þeim efnum.“

Jón Gnarr leggur áherslu á mannréttindi

Spurður um afstöðu sína gagnvart „ísraelskri nýlendustefnu og yfirstandandi þjóðarmorði í Palestínu,“ segist Jón ekki taka stöðu með Palestínu eða Ísrael, hans afstaða byggi fyrst og fremst á að standa vörð um mannréttindi. 

Landnemabyggðir á herteknum svæðum eru óþarfa ögrun og niðurlæging fyrir palestínsku þjóðina og stór hluti af því að viðhalda átökum með hræðilegum afleiðingum. Ég fordæmi þetta stríð og hefði ég nokkurt vald til þess þá myndi ég krefjast tafarlaus vopnahlés og mannúðaraðstoðar. Grundvallarafstaða mín er sú að ég ekki pro Palestína eða pro Ísrael, ég er pro mannréttindi. Ef yfirvöld í þessum löndum geta ekki tryggt öryggi almennra borgara sinna ber Alþjóðasamfélaginu skylda til að gera það.“

Þá segist Jón styðja sjálfstæði Palestínu og hann að hann sé hlynntur tveggja ríkja lausn, sem honum hefur þótt skynsamleg. Í svari sínu bætir hann þó við að hann veit ekki hversu raunhæf lausnin er í framkvæmd. 

Nái hann kjöri segist Jón tvímælalust munu beita sér fyrir frelsi Palestínu og bendir á að það sé í takti við utanríkisstefnu Íslands sem hefur viðurkennt sjálfstæði landsins.

Þá nefnir Jón að hann hafi á tíð sinni sem borgarstjóri reynt að „koma á systraborgarsambandi milli Reykjavíkur og Bethlehem með áherslu á barnamenningu og hitti þá meðal annars utanríkisráðherra Palestínu til að ræða þetta þegar hann var hér. Þessi hugmynd náði ekki fram að ganga vegna flækjustiga í alþjóðamálum. „En ásetningur minn var skýr þá eins og nú.“

Helga styður tveggja ríkja lausn

Helga Þórisdóttir segist fordæma það sem er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs. „Eina lausnin sem ég sé er að vopnin verði lögð niður og friðsamleg sáttaleið fundin. Það mun aldrei nást friður með þessu áframhaldi. Þessari martröð þarf að ljúka“ segir Helga.

Þá telur Helga að skynsamlegt sé að stefna að tveggja ríkja lausn til þess að tryggja frelsi Palestínu. Hún tekur fram að leggja þurfi öruggan grunn að slíku ferli til þess að sáttaferlið geti yfirleitt hafist. 

Spurð hvort hún muni beita sér fyrir frjálsri Palestínu, nái Helga kjöri, segist hún munu tala fyrir friði og beita sér í ræðu og riti „fyrir frelsi allra undirokaðra.“

Ekki á stefnuskrá Viktors

Spurður um afstöðu sína gagnvart ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði í Palestínu svarar frambjóðandinn Viktor Traustason því ósköp einfaldlega að hún þyki þetta allt saman sorglegt.

Þá segist Viktor ekki þekkja málið nógu vel til að svara því hvernig hann sjá fyrir sér frjálsa Palestínu. „Ég þekki það ekki nógu vel og ég held að það velti ekki á mér. Betra væri að spyrja Palestínumenn að því.“

„Það er ekki á minni stefnuskrá og ég sé það ekki sem hlutverk forseta að blanda þjóðinni inn í blóðugar deilur úti í heimi. Fólki er frjálst að gera slíkt að sínu eigin frumkvæði.“

Eiríkur Ingi fer yfir söguna 

Eiríkur Ingi Jóhannsson svaraði fyrirspurn félagsins í talsvert lengra máli en aðrir frambjóðendur. Í svari sínu segir Eiríkur Ingi að ástandið sé „erfitt viðureignar“ vegna þess valdaójafnvægis sem ríki á svæðinu, á milli Ísrael annars vegar og Palestínu hins vegar.

Rætur ójafnvægisins og ófriðarins segir Eiríkur Ingi mega rekja til afskipta stórvelda á borð við Bandaríkjanna og Bretlands sem „styðja við öfgasinnaða Zíonista.“ Eiríkur telur þessi ríki hafa haft stríðandi fylkingar að leiksoppum „oftast til að auðgast og nálgast auðlindir.“  

Í svari sínu fer Eiríkur hratt yfir söguna, stofnun Ísraelsríkis, upphaf ófriðarins, og hvernig átök Ísrael og Palestínu, ásamt öðrum nágrannaríkjum hafi þróast á undanfarna áratugi.

Af svari Eiríks má greina að hann telji Palestínu eiga rétt á því að vera frjálst og fullvalda ríki. Sömuleiðis telur Eiríkur að Palestínumenn að eigi rétt á að endurheimta landsvæði sem hafa verið hernumin af Ísraelum. 

Þá telur Eiríkur Ingi að forseti Íslands eigi að tala fyrir friði og leita leiða til að stuðla að friðarviðræðum milli stríðandi fylkinga. „Meira getum við stóra Ísland ekki gert í þessu nema leitað sé eftir frekari ráðum af okkur,“ segir Eiríkur. 

Í svari sínu nefnir Eiríkur einnig að það mætti skora á „bresku ríkisstjórninni að virða það samkomulag sem þeir gerðu við Palestínumenn þegar Bretar ákváðu að leita aðstoðar Palestínumanna við að hrekkja Ottómenn af þessu landsvæðum sem tilheyrðu að hluta til Palestínu. Þar var samið um að Palestínumenn fengu að vera sjálfráða í eigin ríki að stríði loknu þetta var snemma á 20. öldinni og enn bíða Palestínumenn.“

Halla Tómasdóttir segir ofbeldi gegn almennum borgurum óréttlætanlegt

Í svari sínu við fyrirspurn Félags Ísland-Palestínu segir Halla Tómasdóttir það vera óbærilegt að að fylgjast með þjáningum barna og fullorðinna á Gaza

„Undanfarna mánuði höfum við orðið vitni að algerlega ólíðandi mannfalli og hörmungum meðal óbreyttra borgara Gaza. Ofan á fjölda myrtra og særðra, eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða og vísvitandi hömlun á mannúðaraðstoð, bætist nú við manngerð hungursneyð.“

Þá segist Halla einnig harma grimmdarverkin sem Hamas-liðar unnu gegn ísraelskum almenningi með árás sinni 7. október 2023. „Ekkert réttlætir slíkt ofbeldi gegn almennum borgurum. Það er nauðsynlegt að greina á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka,“ segir Halla. 

Spurð hvort hún muni beita sér fyrir frjálsri Palestínu segist Halla leggja á skapa þurfi aðstæður til þess að raunverulegar friðarumleitanir milli Ísrael og Palestínu geti farið fram.

Nái hún kjöri segist Halla munu styðja við íslensk stjórnvöld „með ráðum og dáðum“ ef þau vilja leggja friðarumleitunum lið, eins og áður hefur verið gert.

Í svari sínu segir hún þó ekki beinlínis hvort munu beita sér fyrir frelsi Palestínu nái hún kjöri. Halla segist þó vilja vera „talskona friðar og þess að Ísland velji ávallt frið, tali fyrir friði og bjóðist til að vera vettvangur friðarumleitana.“

Ásdís Rán vill sjá efnahagslega þróun í frjálsri Palestínu

Ásdís Rán Gunnarsdóttir segir ástandið í Palestínu vera þyngra en tárum taki. Þá segist hún stenda með frelsisbaráttu Palestínumanna og fordæmir þjóðarmorð. Í svari hennar við fyrirspurn félagsins kemur fram að hún sjái frjálsa Palestínu fyrir sér sem fullvalda ríki, með fullkomna sjálfstjórn og óháða dómstóla. 

„Ég myndi vilja sjá efnahagslega þróun til að styrkja innviði landsins, skapa störf og tengingu við alþjóðlega markaði og að þar ríki samfélag án aðgreiningar með menntunartækifærum fyrir ungt fólk,“ segir Ásdís og bætir við að hún myndi vilja sjá alþjóðasamfélagið bjóða fram meiri aðstoð og stuðla að efnahagslegri uppbyggingu á svæðinu.

Þá segist Ásdís munu beita sér fyrir frelsi Palestínu ásamt  öðrum mannréttindamálum. 

„Vald forseta liggur að mestu í því að hann hefur rödd og getur verið talsmaður friðar á erlendri grundu og sett fordæmi fyrir því að vera þjóðhöfðingi sem fordæmir þjóðarmorðin í Palestínu.“

Katrín Jakobsdóttir segir vonina um frið mega aldrei kulna

Í svari sínu við fyrirspurn félagsins segir Katrín Jakobsdóttir hernað Ísraels hafa valdið „ólýsanlegum hörmungum.“ Binda þurfi enda á átökin tafarlaust með vopnahléi, að hennar mati. Í framhaldi af því segir hún mikilvægt að „þrýst verði á um varanlega friðarsamninga.“

Katrín telur að forsendur fyrir frjálsri Palestínu vera frið og fullveldi. „Í mínum huga er forsenda fyrir frjálsri Palestínu að gerður verði friðarsamningur á milli Palestínu og Ísraels á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem meðal annars feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis,“ segir Katrín og bætir við að mikilvægt sé að réttur palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til heimkynna sinna sé tryggður.  

Hún segir að átökin á milli Ísrael og Hamas undanfarna mánuði hafa veikt vonina um frið. Katrín leggur áherslu á að ríki heims megi ekki gefa upp vonina. Alþjóðasamfélagið þurfi að haldi áfram að beita sér af fullum þunga fyrir vopnahléi og friðarsamningum í kjölfarið.     

„Sem forseti Íslands mun ég leggja mitt lóð á þær vogarskálar í samræmi við okkar gildi og ályktun Alþingis,“ segir Katrín. 

Halla Hrund fylgjandi tveggja ríkja lausn

Í svari sínu segir Halla Hrund Logadóttir ekkert geta réttlætt „þær stórfelldu árásir sem gerðar hafa verið á börn og almenna borgara síðustu mánuði, og þær hræðilegu þjáningar sem þeim fylgja.“

Þá tekur hún fram að „jafnvel í stríði gilda reglur sem öll ríki ættu að fara eftir.“ Hún hvetur alþjóðasamfélagið til þess að bregaðst við til þess stöðva frekar átök og tryggja það að mannréttindi séu virt. Þá telur Halla Hrund einnig brýnt að greiða fyrir aðgengi starfsfólks Sameinuðu þjóðanna, hjálparstofnana og fjölmiðlafólks inn á átakasvæði Gaza.

Halla Hrund segist vera fylgjandi tveggja ríkja lausn sem sé í takt við áherslur utanríkisstefnu Íslands. „Það er grundvallaratriði að Palestínumenn fái að lifa í friði og mannlegri reisn og geti mótað framtíð sína,“ segir Halla Hrund.

Nái hún kjöri segist hún munu fylgja utanríkisstefnu Íslands gagnvart svæðinu, eins og forseta ber skylda til.

„Sem forseti friðsællar þjóðar mun ég alltaf leggja áherslu á að finna farsælar lausnir í átt að friði og beita mér fyrir því að mannréttindi og alþjóðalög séu virt,“ segir Halla Hrund og bætir við að Ísland eigi allt undir því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt.

Svör frá Baldri og Ástþóri tínast inn

Svör frá kosningaframbjóðendunum Baldri Þórhallssyni og Ástþóri Magnússyni bárust Heimildinni eftir að svarfrestur Félags Ísland-Palestínu var liðinn. 

Ástþór Magnússon segir brýnt að Alþjóðasamfélagið nái samstöðu um að stöðva „án tafar þjóðarmorðið sem er nú í gagn í Palestínu með öllum tiltækum ráðum.“ Nefnir Ástþór því samhengi lausnir á borð við viðskiptaþvinganir og stöðvun á vopnaflutningum til Ísrael. 

Þá segir Ástþór að félag hans Friður 2000 sé um þessar mundir að vinna að verkefni sem kallast „Alþingi Jerúsalem.“ Þar sem lagt til að samið verði um frið í anda við Alþingisfundina sem haldnir voru hér á landi fyrir þúsund árum. 

„Forfeður okkar sýndu mikið umburðarlyndi og virðingu fyrir mannréttindum þegar þeir afstýrðu
borgarastyrjöld með sáttmála friðar um trúmál. Þennan boðskap þurfum við að kynna í Ísrael og Palestínu til að ná fólki saman til að vinna að friðsamlegum lausnum. Landfræðilega getur tveggja ríkja lausn í dag verið flókin lausn. Það getur þurft nýja hugmyndafræði að því hvernig tveggja ríkja lausn getur virkað á sameiginlegu landsvæði,“ segir Ástþór.

Þá segist Ástþór að nái hann kjöri muni hann gera allt í sínu valdi til þess að koma á friði um allan heim. Hann segist muni beita sér „með afgerandi hætti til friðar í Ísrael og Palestínu.“ 

Baldur Þórhallsson segir í svari sínu að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs sé þyngra en tárum taki og staðan hafi sjaldan verið erfiðari en nú. 

„Ég hef þá skoðun að forseti Íslands eigi alltaf að tala fyrir friði. Við sem smáríki eigum allt okkar undir að deilumál séu leyst með friðsælum hætti og að alþjóðalögum sé fylgt,“ segir Baldur. 

Hann bætir við að ríkisstjórn Íslands marki utanríkisstefnu landsins og það falli í hlut forseta að fylgja henni. 

„Ég hef verið mjög ánægður með þá stefnu Íslands og er sjálfur fylgjandi tveggja ríkja lausn á deilum Ísraels og Palestínu. Ísland varð fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu fyrir 13 árum síðan og sífellt fleiri Evrópuríki fylgja nú okkar fordæmi. Af því er ég mjög stoltur.“ 

Í svari sínu við þriðju spurningu félagsins segir Baldur að það sem mestu máli skiptir núna sé að stilla til friðar „og það þegar í stað.“

„Skiptir þar máli að Ísland stilli sér upp með nágrannaþjóðum okkar og beiti sér af fullum þunga í þeim efnum. Sem forseti myndi ég stoltur leggjast á árar með stjórnvöldum til þess að svo verði.“


Uppfært 21. maí, klukkan 17:00
Skömmu eftir að fréttin var birt bárust Heimildinni svör Höllu Hrundar Logadóttur, forsetaframbjóðanda. Svörum hennar hefur því verið bætt við og fréttin uppfærð eftir því. Tíu frambjóðendur hafa því svarað fyrirspurn Félags Ísland-Palestínu. Baldur Þórhallsson og Ástþór Magnússon eiga enn eftir svara bréfinu.
Uppfært 22. maí, klukkan 13:00
Svör frá Baldri Þórhallssyni og Ástþóri Magnússyni bárust Heimildinni fyrir skömmu og hefur þeim verið bætt við fréttina. Taka skal fram að svörin bárust þegar fresturinn sem Félagið Ísland-Palestína gaf frambjóðendunum til að svara var liðinn. 
Kjósa
34
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (6)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Unnar Unnarsson skrifaði
    Kjósum Baldur 🇮🇸💪
    1
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    Ísrael hefur aldrei verið lýðræðisríki.

    Það var stofnað 1948 og byggðist frá upphafi á þjóðhreinsunum (e. ethnic cleansing) og þjófnaði lands (e. land theft). Síonistarnir ráku árið 1948 a.m.k. 700.000 frumbyggja frá heimilum sínum, auk þess drápu þeir u.þ.b. 15.000 manns sem ekki sættu sig við ofbeldið. Ég mæli með lestri eftirfarandi bókar um þessa atburði.

    https://en.wikipedia.org/wiki/The_Ethnic_Cleansing_of_Palestine

    Höfundurinn Ilan Pappe er gyðingur alinn upp í Ísrael. Hann gegndi herþjónustu í heimalandinu. Hann varð síðar prófessor við háskólann í Haifa. Þar var rekinn úr embætti og hrakinn úr landi. Í dag er hann prófessor í háskólanum í Exeter.

    https://en.wikipedia.org/wiki/Ilan_Papp%C3%A9
    8
  • Siggi Rey skrifaði
    Slóðin hennar Katrínar er þyrnum stráð eftir hana sjálfa! Auðvitað stingur hún sig, þannig er það bara með þyrna! Að gera embætti forseta Íslands að enn einu spillingarbæli stjórnmálanna er svívirða! En höfum það hugfast er við förum í kjörklefann. Vid höfum aðra kosti en Katrínu.
    6
  • Helen Olafsdottir skrifaði
    ...segir Katrín og bætir við að mikilvægt sé að réttur palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til heimkynna sinna sé tryggður.

    Ég vil bara minna fólk á að það var ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem vísaði m.a. úr landi palestrínsrki móður með 8 börn og sendi þau á vergang á Spáni. Tvö barnanna þurftu læknisaðstoð. Katrín hefur ekki gert boffs þegar hún var við völd að beita sér fyrir frjálsri Palestínu né heldur fyrir vopnahléi.
    14
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Núverandi ríkisstjórn sem starfað hefur frá því ósköpin á Gasa fundu yfir, hefur ekki haft manndóm í sér til að andmæla gjörðum Ísraelsmanna, og forsætisráðherrar bæði núverandi og nýhættir ekk hreyft legg eða lið til bjargar börnum á Gasasvæðinu. Það má fabúlera um frið, en stundum þarf að láta verkin tala.
    12
  • Ásgeir Överby skrifaði
    "Hvað finnst forsetaframbjóðendunum um slátrun ísraelsmanna á vopnlausum borgurum"
    hefði spurningin átt að vera.
    Fréttamenn þurfa að orða spurningar þannig að bara sé hægt að svara þeim með já eða nei en ekki útúrsnúmingum eins og hér.
    4
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2024

Katrín niðurstaða flestra í Kosningaprófi Heimildarinnar
FréttirForsetakosningar 2024

Katrín nið­ur­staða flestra í Kosn­inga­prófi Heim­ild­ar­inn­ar

Katrín Jak­obs­dótt­ir lenti oft­ast í fyrsta sæti hjá þeim sem þreyttu Kosn­inga­próf Heim­ild­ar­inn­ar fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar 2024. Um fjórð­ung­ur þátt­tak­enda var oft­ast sam­mála fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herr­an­um. Yf­ir 8.000 tóku próf­ið en svör bár­ust ekki frá Vikt­ori Trausta­syni eða Ást­þóri Magnús­syni.
Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti lýðveldisins
GreiningForsetakosningar 2024

Halla Tóm­as­dótt­ir verð­ur sjö­undi for­seti lýð­veld­is­ins

Kjarna­fylgi tveggja efstu fram­bjóð­enda til for­seta var hníf­jafnt dag­inn fyr­ir kosn­ing­ar. Fjöldi kjós­enda valdi að velja á milli þeirra á kjör­dag og lang­flest­ir þeirra völdu Höllu Tóm­as­dótt­ur, sem vann af­ger­andi sig­ur. Þrjár kon­ur fengu þrjú af hverj­um fjór­um at­kvæð­um, kjós­end­ur Jóns Gn­arr kusu „með hjart­anu“ og fjöldi fram­bjóð­enda fékk mun færri at­kvæði en með­mæli með fram­boði sínu.

Mest lesið

Tilgangsleysi og gáleysi lýst í rannsókn slyssins í Grindavík
2
AfhjúpunFéll í sprungu í Grindavík

Til­gangs­leysi og gá­leysi lýst í rann­sókn slyss­ins í Grinda­vík

Það svar­aði ekki kostn­aði að fara í fram­kvæmd­ir við að bjarga hús­inu við Vest­ur­hóp 29 í Grinda­vík, sam­kvæmt skýrslu tveggja mats­manna sem skoð­uðu hús­ið rúm­um mán­uði áð­ur en að verktaki lést við sprungu­fyll­ingu við hús­ið. Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing vís­ar ábyrgð á und­ir­verk­taka sinn, Eflu, sem seg­ir eng­ar kröf­ur hafa ver­ið gerð­ar um áhættumat á verkstaðn­um. Lög­regla hafði lok­ið rann­sókn en hóf hana aft­ur, af ókunn­um ástæð­um.
„Konan með brosandi augun“ sem á ekki neitt þrátt fyrir þrotlausa vinnu
3
ViðtalInnflytjendurnir í framlínunni

„Kon­an með bros­andi aug­un“ sem á ekki neitt þrátt fyr­ir þrot­lausa vinnu

Þó Olga Leons­dótt­ir, starfs­mað­ur á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Skjóli, sé orð­in 67 ára göm­ul og hafi í tæp 20 ár séð um fólk við enda lífs­ins get­ur hún ekki hætt að vinna. Hún hef­ur ein­fald­lega ekki efni á því. Olga kom hing­að til lands úr sárri fá­tækt fall­inna fyrr­ver­andi Sov­ét­ríkja með dótt­ur­syni sín­um og seg­ir að út­lit sé fyr­ir að hún endi líf­ið eins og hún hóf það: Alls­laus. Hún er hluti af sís­tækk­andi hópi er­lendra starfs­manna á hjúkr­un­ar­heim­il­um lands­ins.
Erlendu heilbrigðisstarfsfólki fjölgar hratt: „Við getum alls ekki án þeirra verið“
4
ÚttektInnflytjendurnir í framlínunni

Er­lendu heil­brigð­is­starfs­fólki fjölg­ar hratt: „Við get­um alls ekki án þeirra ver­ið“

Fólk sem kem­ur er­lend­is frá til þess að vinna í ís­lenska heil­brigðis­kerf­inu hef­ur margt hvert þurft að færa fórn­ir til þess að kom­ast hing­að. Tvær kon­ur sem Heim­ild­in ræddi við voru að­skild­ar frá börn­un­um sín­um um tíma á með­an þær komu und­ir sig fót­un­um hér. Hóp­ur er­lendra heil­brigð­is­starfs­manna fer stækk­andi og heil­brigðis­kerf­ið get­ur ekki án þeirra ver­ið, að sögn sér­fræð­ings í mannauðs­mál­um.
Tíu mánaða langri lögreglurannsókn á áhöfn Hugins VE lokið
5
FréttirVatnslögnin til Eyja

Tíu mán­aða langri lög­reglu­rann­sókn á áhöfn Hug­ins VE lok­ið

Karl Gauti Hjalta­son, lög­reglu­stjóri í Vest­manna­eyj­um, seg­ir að rann­sókn á því hvort skemmd­ir á vatns­lögn til Vest­manna­eyja megi rekja til refsi­verðs gá­leys­is sé lok­ið. Rann­sókn­in hef­ur stað­ið yf­ir síð­an í nóv­em­ber í fyrra og hef­ur ver­ið lögð fyr­ir ákæru­svið lög­reglu sem mun taka end­an­lega ákvörð­un um það hvort grun­að­ir í mál­inu verði sótt­ir til saka eð­ur ei.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Engu munaði að stórslys yrði í Kötlujökli 2018: „Mér leið eins og ég væri í hryllingsmynd“
3
FréttirStjórnleysi í ferðaþjónustu

Engu mun­aði að stór­slys yrði í Kötlu­jökli 2018: „Mér leið eins og ég væri í hryll­ings­mynd“

Jón­as Weld­ing Jón­as­son, fyrr­ver­andi leið­sögu­mað­ur, forð­aði 16 við­skipta­vin­um sín­um naum­lega frá því að lenda und­ir mörg­um tonn­um af ís í ís­hella­ferð í Kötlu­jökli sum­ar­ið 2018. „Það hefði eng­inn lif­að þarna af ef við hefð­um ver­ið þarna leng­ur. Þetta sem hrundi voru tug­ir tonna." Hann seg­ir sumar­ið ekki rétta tím­ann til að fara inn í ís­hella, eins og ný­legt bana­slys á Breiða­merk­ur­jökli sýn­ir.
Indriði Þorláksson
5
AðsentHátekjulistinn 2024

Indriði Þorláksson

Há­tekju­list­inn og kvót­inn

Sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki eru flest að formi til í eigu eign­ar­halds­fé­laga en eru ekki skráð beint á raun­veru­lega eig­end­ur. Megin­á­stæð­an er skatta­legt hag­ræði sem slík­um fé­lög­um er bú­ið og hef­ur ver­ið auk­ið á síð­ustu ára­tug­um. En tekju­verð­mæti hvers hund­raðs­hluta af kvót­an­um er nærri hálf­ur millj­arð­ur króna á ári.
Tilgangsleysi og gáleysi lýst í rannsókn slyssins í Grindavík
6
AfhjúpunFéll í sprungu í Grindavík

Til­gangs­leysi og gá­leysi lýst í rann­sókn slyss­ins í Grinda­vík

Það svar­aði ekki kostn­aði að fara í fram­kvæmd­ir við að bjarga hús­inu við Vest­ur­hóp 29 í Grinda­vík, sam­kvæmt skýrslu tveggja mats­manna sem skoð­uðu hús­ið rúm­um mán­uði áð­ur en að verktaki lést við sprungu­fyll­ingu við hús­ið. Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing vís­ar ábyrgð á und­ir­verk­taka sinn, Eflu, sem seg­ir eng­ar kröf­ur hafa ver­ið gerð­ar um áhættumat á verkstaðn­um. Lög­regla hafði lok­ið rann­sókn en hóf hana aft­ur, af ókunn­um ástæð­um.
Hafa reynt að lægja öldurnar og rætt við ungmenni sem vilja hefnd
7
Fréttir

Hafa reynt að lægja öld­urn­ar og rætt við ung­menni sem vilja hefnd

Fé­lag fanga hef­ur boð­ið stuðn­ing og þjón­ustu til ætt­ingja 16 ára pilts sem er í gæslu­varð­haldi á Hólms­heiði, grun­að­ur um hnífa­árás þar sem 17 ára stúlka lést af sár­um sín­um. Full­trú­ar fé­lags­ins hafa einnig rætt við ung­menni sem vilja hefnd og reynt að lægja öld­urn­ar. Hefndarað­gerð­ir gætu haft „hræði­leg­ar af­leið­ing­ar fyr­ir þá sem hefna og ekki síð­ur fyr­ir sam­fé­lag­ið," seg­ir Guð­mund­ur Ingi Þórodds­son, formað­ur Af­stöðu.
„Það sem gerðist á sunnudaginn er á margan hátt óvenjulegt“
9
FréttirStjórnleysi í ferðaþjónustu

„Það sem gerð­ist á sunnu­dag­inn er á marg­an hátt óvenju­legt“

Bana­slys eins og það sem varð á Breiða­merk­ur­jökli um síð­ustu helgi eru ekki mjög al­geng, að mati upp­lýs­inga­full­trúa Lands­bjarg­ar. Hann seg­ir björg­un­ar­sveit­irn­ar enn vel í stakk bún­ar til þess að bregð­ast við óhöpp­um og slys­um þrátt fyr­ir fjölg­un ferða­manna og að slík­um til­vik­um hafi ekki fjölg­að í takt við vax­andi ferða­manna­straum.

Mest lesið í mánuðinum

Óli Þórðar græddi pening en tapaði heilsunni
5
FréttirHátekjulistinn 2024

Óli Þórð­ar græddi pen­ing en tap­aði heils­unni

„Já ég seldi und­an mér vöru­bíl­inn og er hrein­lega ekki að gera neitt,“ seg­ir Ólaf­ur Þórð­ar­son, knatt­spyrnugoð­sögn og vöru­bif­reið­ar­stjóri á Skag­an­um. Óli dúkk­aði nokk­uð óvænt upp á há­tekju­lista árs­ins eft­ir að fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­ið var selt. Hann gæti virst sest­ur í helg­an stein. Það er hann þó ekki, í það minnsta ekki ótil­neydd­ur.
Ætluðu til Ameríku en festust á Íslandi
7
ÚttektFólkið í neyðarskýlinu

Ætl­uðu til Am­er­íku en fest­ust á Ís­landi

Fyr­ir klukk­an tíu á morgn­anna pakka þeir fögg­um sín­um nið­ur og setja þær í geymslu. Þeir líta eft­ir lög­regl­unni og fara svo af stað út, sama hvernig viðr­ar. Þeir mæla göt­urn­ar til klukk­an fimm á dag­inn, þang­að til svefnstað­ur­inn opn­ar aft­ur. Til­vera þessa svefnstað­ar er ekki tryggð. Flosn­að hef­ur úr hópn­um sem þar sef­ur á síð­ustu mán­uð­um og líka bæst við.
Tveir ungir menn „settir á guð og gaddinn“  eftir alvarlegar líkamsárásir á Þjóðhátíð
8
Fréttir

Tveir ung­ir menn „sett­ir á guð og gadd­inn“ eft­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir á Þjóð­há­tíð

For­eldr­ar tveggja ungra manna sem urðu fyr­ir al­var­leg­um lík­ams­árás­um á Þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyj­um segja að árás­irn­ar hafi ekki ver­ið skráð­ar í dag­bók lög­reglu. Fag­fólk á staðn­um hafi sett syni þeirra sem fengu þung höf­uð­högg og voru með mikla áverka „á guð og gadd­inn“ eft­ir að gert hafði ver­ið að sár­um þeirra í sjúkra­tjaldi. Sauma þurfti um 40 spor í and­lit ann­ars þeirra. Hinn nef- og enn­is­brotn­aði. Móð­ir ann­ars manns­ins hef­ur ósk­að eft­ir fundi með dóms­mála­ráð­herra vegna máls­ins.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár