Í Silfrinu á Rúv, mánudaginn 13. maí, voru samankomnir fimm menn. Skrifleg kynning Rúv á þættinum hljóðar svo:
„Valgeir Örn Ragnarsson hefur umsjón með þættinum. Það steðjar öryggisógn að Íslandi og öðrum Evrópuþjóðum vegna innrásar Rússa í Úkraínu, stríðsins á Gaza og loftslagsbreytinga. Hverjar eru helstu ógnirnar? Hvað er verið að gera til að verjast þeim? Hvað þarf að gera betur? Gestir þáttarins eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Pia Hansson forstöðumaður Alþjóðamálastofnunnar, Hallgrímur Indriðason fréttamaður og Logi Einarsson alþingismaður.”
Það er og rétt að geta þess áður en lengra er haldið að vinafélag Nató, Varðberg, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið efndu til fundar í hátíðarsal Háskóla Íslands fyrr um daginn til að minnast 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins.
Og auðvitað hlustaði ég á Silfrið, horfði og hlustaði því þarna voru vitmenn og skörungar á ferð að ræða alvöru mál og afmælisbarnið Nató.
Ég segi það satt; Ég hef ekki í háa herrans tíð orðið jafn undrandi. Þau sögðu varla orð að viti. Ekkert þeirra; þau voru umlukin blekkingamóðu og orkuðu á mig eins og flón, sem þau eru sjálfsagt ekki ef mið er tekið af starfstitlum. Þau voru hláleg, þó að einn þekktasta skemmtikraft hrædda fólksins vantaði, prófessor Baldur með 100 manna íslenska herinn; hann er í öðru. En þarna rigndi orðum; Íslendingar eru með orðið að vopni, sagði alþingismaðurinn og kvað fast að og þau brostu hvert framan í annað yfir orðheppni hans. Og það rigndi orðum í regnbogans litum, orðum innan í fagurlaga sápukúlum, orðum sem stóðu ein og nakin og innihaldslaus þegar kúlan leystist upp.
Silfrið, og reyndar afmælisdagurinn allur, gladdi víst margan manninn. Eftir ræður Nató-vinanna á afmælishátíðinni og eftir sápukúlurnar í Silfrinu gat hræddi karlinn í Fljótshlíðinni ekki á sér setið og vitnaði af sjálfsöryggi og festu í utanríkisráðherra sinn á bjorn.is í gærmorgun (14. maí) um árangurinn af hernaðarbrölti sameinaðra Natóríkja:
„Þetta þýðir vitaskuld að það er algjör fjarstæða sem stundum heyrist, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu geri okkur að líklegra hugsanlegu skotmarki en ella.“
Þrátt allt þetta öryggi og vissu gaf bjorn.is út eins konar viðvörun hins síhrædda:
„Hvarvetna þar sem ríkir málfrelsi og skoðanafrelsi er lögð sífellt ríkari áhersla á að efla viðnámsþrótt þjóða gegn fjölþátta hernaði sem meðal annars felst í delluboðskap ,.. Í umræðum um Eurovision í ríkisútvarpinu að morgni mánudagsins 13. maí lagði Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði og fastur álitsgjafi fréttamanna, að jöfnu innrás Rússa í Úkraínu og hernaðarlegt svar Ísraela við innrás Hamas í land sitt. Þetta er … blekking.”
Hingað kominn hætti ég skrifum og hvet ég alla hugsandi menn, konur, lesbíur, homma og hán til þess að horfa á Silfrið og lesa bjorn.is. Það skýrir samfélagsmyndina og kætir fólið í manninum.
Athugasemdir (3)