Hún lifir lífinu á eigin forsendum. Rútína er hennar ástartungumál og hún gengur um veröldina með sitt meðfædda sjálfstraust. Enginn veit hvað hún er gömul í raun og veru þó ýmsar kenningar séu á kreiki. Hún þarf ekki vegabréf og hefur engan kosningarétt. Hún býr við talsvert áreiti vegna einstakrar fegurðar og hennar lipru hreyfingar, sem eru ávallt með tilþrifum, vekja ávallt athygli nærstaddra. Hún er ekki laus við ótta um afkomu eða búsetuöryggi og þarf reglulega að verja svæði sitt, bókstaflega með kjafti og klóm.
Þú veist einnig strax hvað henni finnst um þig og eins og sagt er um hinar hispurslausu og hvatvísu verur þá kemur hún ávallt til dyranna eins og hún er klædd, ávallt í þrílit. Áreitið felst einkum í kærleiksríku klappi og óumbeðnum myndatökum nágranna og ferðamanna þegar hún sleikir á sér feldinn á útitröppunum. Einnig þarf hún að verja sinn græna reit sem hún ann svo heitt. Heyra má hávært hvæs og út um gluggann má sjá marglitaðar kattahárlufsur fjúka út í buskann eftir bardagann um hennar yfirráðasvæði.
Það kemur sér vel að Bomba mín, þrílita drottningarlæðan mín, kann að opna ólæstar útidyrnar án aðstoðar, og ef það er læst þá bara hangir hún á dyrahúninum þar til einhver opnar fyrir henni. Það skiptir engu þótt hún sé með sérinngang fyrir aftan hús, þetta er innifalið í þjónustuskilmálum okkar. Hún hefur ávallt launað mér ríkulega fyrir hollustu og óendanlega ást mína gagnvart henni, hún vekur mig oft af værum svefni þegar ég lendi í sykurfalli á næturnar, eða þæfir viðstöðulaust á mér bringuna þegar hún skynjar blóðsykurfall í vændum. Hún er eigandi minn og er lífsbjörg fyrir konu með insúlínháða sykursýki. Hennar rútína er að passa upp á mig og saman önnumst við okkar græna reit og verndum fyrir sykurföllum og öðrum yfirvofandi hamförum.
Athugasemdir (1)