Þetta byrjaði allt með flótta.
Viðbrögð líkamans við ógnarástandi eru að berjast eða flýja. Þegar streitan hafði náð of miklum tökum á mér fyrir mörgum árum ákvað ég einn daginn að flýja. Enska orðið yfir hlaup er „run“, sem átti sér eldri mynd í íslensku, að „renna“. Merkingin nær jafnt yfir hlaup sem flótta. Einhvern veginn reynist flóttinn oft það besta sem við getum gert: Öfugsnúið liggur sigurinn í uppgjöfinni. Sem er eins einfalt og að taka eitt skref.
Þau sem byrja að hlaupa enda hins vegar gjarnan á því að ganga mjög langt, ef svo má segja. Eitt af æðstu markmiðum margra hlaupara er að klára maraþonhlaup. Svo vill til að atburðurinn er beinlínis nefndur eftir hlaupi þar sem maður nokkur drap sig á því að hlaupa of langt. Það virðist ekki skynsamlegt athæfi.
Þrátt fyrir að hafa lofað sjálfum mér því fyrir löngu síðan að hlaupa ekki maraþon fór ég mitt fyrsta götumaraþon síðustu helgi. Kaupmannahafnarmaraþonið var haldið á fæðingardegi heimspekingsins Sørens Kierkegaard, 5. maí síðastliðinn. Hugmyndir hans, sem hann skrifaði meðal annars í bókina Uggur og ótti, og Endurtekningin, eiga erindi til hlaupara. Flestir myndu tengja við endurtekninguna, þetta eina skref sem endurtekur sig í sífellu. Helst er hann þó þekktur fyrir hugmyndir sínar um hið „trúarlega stökk“, hvernig við getum tekið stjórnina á eigin tilveru með trú.
Uggur og ótti er í grunninn tilraun Kierkegaards til að takast á við frægan valkvíða. Margir sem undirbúa sig fyrir maraþon upplifa svokallaða „maranoju“, óttann við að allt fari afvega. Enda virðist oft ómögulegt að feta rétta stíginn. Við eigum til dæmis að hlaða í okkur kolvetnum sem aldrei fyrr, en samt breyta sem minnstu. Maraþonið sjálft ýkir síðan upp minnstu veikleika okkar, vegna endurtekningarinnar.
Samkvæmt Kierkegaard þarfnast trúin þess ekki að við höfum ástæðu, lógík eða rök. Það er nákvæmlega í trúnni sem við tökum stökkið, förum úr því að gera ekki yfir í að gera og síðan vera eitthvað sem við vorum ekki áður. Fyrsta skrefið sem við tökum í hlaupum getur þannig verið hið „trúarlega stökk“ Kierkegaards. „Óendanleg uppgjöf er síðasta stigið fyrir trúna,“ skrifaði Kierkegaard. Þannig getum við fundið grunn fyrir því að taka fyrsta hlaupaskrefið. Við gefumst upp og trúum því um leið að við getum þetta. Eins og Andrea Kolbeinsdóttir hlaupari lýsir mikilvægasta lærdómnum í viðtali við Hlaupablaðið: „Að hafa trú á að þú getir eitthvað og þá getur þú það.“
Allt í einu fann ég mig á þrítugasta og fimmta kílómetra í maraþoni. Það var þegar maðurinn í risaeðlubúningnum tók aftur fram úr mér sem fræ efasemdanna sáðu sér í hlauparasálinni. Og þegar ég, skömmu síðar, sá vesalings hlauparann kasta upp Dettifossi af orkugelum við hliðina á mér, sem ég áttaði mig á því að við vorum öll að deila þessari kvöl saman. Að það væri kannski einhver tilgangur í henni, eins og búddistar líta svo á að lífið sé þjáning, vegna langana okkar. „Hvers vegna er ég að þessu?“ hugsaði ég, eða sagði upphátt, á 38. kílómetra. Þar sem lífið hefur verið einfaldað niður í eina löngun: Að stoppa.
Öll mín maranoja virtist vera að rætast. Magaverkur með óljósa stefnu, orkugel í útrásarhug, blæðandi nuddsár og yfirþyrmandi tilfinning um að nenna þessu ekki.
Mannshugurinn virkar þannig að eftir á sitja hátindarnir eftir í minningunni. Við gleymum erfiðleikunum. Eins og Steinn B. Gunnarsson íþróttafræðingur lýsir í viðtali við Hlaupablaðið deyfir hreyfing sársauka og er verkjastillandi. Fjölmörg áhrif líkamans eru óútskýrð, en við skiljum þau eingöngu með upplifuninni.
Við höldum nefnilega áfram. Við byrjum og höldum áfram, vegna þess að af því bara. Við þurfum enga ástæðu. Þurfum bara að trúa.
Hér er Hlaupablaðið, gefið út af Heimildinni í samstarfi við Hlaup.is.
Athugasemdir