Allar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eru í raun þyngdaraflsvirkjanir þar sem þyngdarafl jarðar togar vatn í gegnum túrbínur sem knýja rafala sem við það framleiða rafmagn.
Þyngdaraflið er að magni til óþrjótandi afl og eilíft, nótt sem nýtan dag skilar það fullum afköstum hvernig sem vindar eða viðrar. Að beisla þyngdaraflið með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti er aðgangur að eilífri orku.
Í umræðu varðandi fyrirhuguð orkuskipti stendur til að innleiða í stórum stíl á Íslandi vindmyllugarða hvar sem því verður við komið. Við það mun ásýnd landsins taka stakkaskiptum.
Sú nýja sýn mun stinga í augu landsmanna og ferðamanna sem ferðast til landsins og hafa skapað mikið af tekjum og líflegum störfum sem ekki verður skipt út með vélmennum eða gervigreind og eru því alvöru verðmæti.
Sé brýn þörf á vindmyllumöstrum færu þau best á eyðisöndum sunnanlands úti við og í sjó hulin tíbrá.
Þá aftur að þyngdaraflinu sem togar
Víða um heim eru til skoðunar auknar aðferðir til að nýta þyngdarafl jarðar til orkuframleiðslu. Má þar nefna bygging á turnum með fallhæð og lóðum sem knýja rafala, einnig að láta þyngd falla niður í yfirgefnar djúpar námur með sama hætti og svo þarf að hífa og við það notuð umframorka.
Orka og sú vá sem henni tengist, skortur á orku, skaði á umhverfi, notkun á lífrænum orkugjöfum sem mögulega brenna okkur inni á tíma fékk mig til staldra við þetta viðfangsefni sem síðan leiddi mig að þeim möguleika að nýta fallhæð í sjó til að framleiða rafmagn.
Hugmyndin er fljótandi prammi sem eining sem hægt er að klasa og samtengja, á prammanum er kefli eða gír sem í hanga lóð og við fall knýr þyngdaraflið þannig rafal eða rafala líkt og gerist í vindmyllu.
Það sem gerir sjó hentugan er möguleikinn á að hafa mismunandi þyngdir og fallhæð eftir því hvað staðsetningin býður upp á og gera síðan falllóð nánast þyngdarlaus með loftlyftingartækni sem er m.a. notuð við að færa sokkin skip upp á yfirborð eða á réttan kjöl.
Á prammanum væri vindsnúður, sólarafhlaða og loftdemparar sem nýta ölduhreyfingu og þessir orkugjafar nýttir til að framleiða þrýstiloft sem dælt yrði í belgi sem myndu létta lóð við hífingu að yfirborði. Í klasa gæti einn af prömmunum lagt til orku til loftþjöppunar eða upphífingar ef notast væri við spil líkt og við akkeri skipa.
Ein hugsanleg lausn er að tengja saman tvö lóð á keðju yfir keðjuhjóli tengt aflgjöfum og við niðurfall annars togar það á sama tíma upp lóðið á hinum enda keðjunnar sem hefur fengið uppblásin belg sem geri það léttara eða nánast þyngdarlaust. Þetta endurtekur sig svo þegar belgurinn er tæmdur við yfirborð og lóðið fellur. Og togar upp gagnstætt lóð sem hefur fengið loft í sinn belg.
Á stærri skala væri athugandi að nýta olíuborpalla á úthafi sem hafa einhverra hluta vegna hætt olíuframleiðslu. Fallhæð undir olíuborpalli er allt að 3000 metrar og hægt sökum stærðar að hafa fjölda lóða og þannig hugsanlegt að breyta olíuborpalli til framleiðslu á vetni með rafgreiningu á sjó en nú er komin tækni við að rafgreina sjó án þess að til falli mikið magn af Klórs sem hliðarafurð. Rafgreining vatns var framkvæmd í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi þegar hún var og hét.
Flutningur með skipum á fljótandi eldsneyti frá borpalli er nú þegar smurð vél sem í þessu samhengi yrði vetnisknúinn. Ef verkfræðin rýnir þetta og þyngdaraflið er mögulegur virkjunarkostur með þessum hætti þá er stigið hagsælt skref í orku og loftslagsmálum.
Fallhæðir í fjörðum
Fyrir Alþingi liggur fyrir frumvarp varðand fiskeldi í sjó sem veitir fiskeldisfyrirtækjum bundinn nýtingarrétt til ræktunar í tilteknum fjörðum til allrar framtíðar.
Ef einhverjir framtakssamir skipasmiðir og verkfræðingar finna sig í þessari þyngdarafls virkjanahugmynd og til verða prammar sem framleiða rafmagn og koma má fyrir á firði við sjávarpláss til að hita hús og bræða síld með rafmagni keyptu af prammaveitu sveitarfélagsins er óheppilegt að plássið fyrir orkupramma sé frátekið til allrar framtíðar fyrir laxeldi. Starfsemi sem til þessa og líklega reglulega síðar er stórskaðlegt umhverfinu sem og fisknum í kerjunum.
Ráðstöfun til langs tíma eða tala ekki um allrar framtíðar á náttúru og auðlindum og því sem telst þjóðareign rúmast ekki í kjörtímabili ríkisstjórnar og ef kemur til tals á þjóðin að taka þá ákvörðun. Það er aldrei að vita hvaða möguleika framtíðin felur og það að festa slíkan bindandi samning til eilífðar er óráð.
Klukkur í stofum forfeðra okkar og mæðra gengu fyrir þyngdarafli þar sem lóð knúðu gangverk sem sýndi tímann sem nú gengur á okkur í umhverfis og orkumálum.
Mögulega geta virkjanir með ofangreindum hætti lagt lóð á vogarskál bjartari tíma í orkuframleiðslu og þyngdaraflið sem við þegar notum í vatnsvirkjunum verið lykill á þeirri vegferð.
Höfundur er myndlistarmaður
Athugasemdir