„Ef þú beitir kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi er líklegast að þú gerir það inni á þínu eigin heimili. Þú ert ekkert endilega undir áhrifum áfengis eða vímuefna en þó kemur það fyrir og það eru 95% líkur á að þú sért karlmaður. Það er líklegast að þú sért af íslensku bergi brotinn (76,6%) og að þú þekkir manneskjuna sem þú brýtur gegn, sennilega ertu vinur, kunningi eða maki.“

Þetta er á meðal þess sem lesa má út úr nýútgefinni ársskýrslu Stígamóta ársins 2023. Í fyrra komu alls 835 einstaklingar í 3.264 viðtöl, þar af voru 376 að koma í fyrsta sinn til Stígamóta. Frá upphafi hefur 11.101 einstaklingur leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Ofbeldismennirnir teljast vera 15.673 en eru væntanlega færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.
Í ársskýrslunni kemur fram að algengast er að fólk leiti til samtakanna til að vinna úr afleiðingum nauðgunar (69,5%) en kynferðisbrot gegn barni fylgir fast á hælana (52,1%). Körlum sem sóttu Stígamót fjölgaði á milli ára, úr 7,1% í 11,4%. „Getur það verið vegna mikillar umræðu um þjóðþekkta menn sem níddust á börnum á síðasta ári,“ segir í fréttatilkynningu Stígamóta. Sem fyrr eru það hins vegar konur sem eru helst brotaþolar kynbundins og kynferðislegs ofbeldis og þá einkum ungar konur.
Biðlisti eftir fyrsta viðtali styttist á milli ára í fyrsta sinn í þrjú ár. Enn voru þó 179 á biðlista um síðustu áramót sem samtökin segja ekki ásættanlegt því það getur þýtt þriggja mánaða bið eftir fyrsta viðtali.
Athugasemdir