Árið 2013 kom hópur alþjóðlegra leiðtoga saman í Suður Afríku. Í hópnum var að finna forstjóra fyrirtækja, fyrrverandi þjóðarleiðtoga og forystufólk á sviði mannréttinda og verkalýðshreyfingarinnar. Öll voru sammála um að tímabært væri að leiða mikilvægar umbreytingar á sviði viðskipta og efnahagsmála. Leið A - að hámarka hagnað og hagvöxt á kostnað umhverfis og samfélags - væri einfaldlega ekki lengur í boði. Stórar áskoranir blöstu við á öllum sviðum samfélagsins og ný nálgun í forystu, viðskiptum og efnahagsmálum var ekki bara tímabær, heldur nauðsynleg. Hópurinn nefndi sig B Team og einsetti sér að vinna saman að því að sýna og sanna að fyrirtæki eigi og geti verið hreyfiafl til góðs. Síðan eru liðin ríflega tíu ár og ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera forstjóri þessara frjálsu félagasamtaka síðastliðin sex ár. Okkar leiðtogar storka gjarnan viðteknum venjum og gerast góðar fyrirmyndir í heiðarlegum, mennskum og ábyrgum viðskiptaháttum. Dæmisögur af þessum vettvangi segja meira en mörg orð.
Hamdi Ulukaya er tyrkneskur smali sem flúði til Bandaríkjanna til að læra ensku. Hann hafði einungis 3.000 Bandaríkjadali meðferðis sem dugði skammt fyrir skólagjöldum svo hann réði sig fljótlega til sveitastarfa. Þar fór hann að dreyma um að búa til gæða grískt jógúrt sem hann saknaði að heiman. Árið 2005 tókst honum að fá lán til að kaupa gamla og yfirgefna verksmiðju af fyrirtækinu Kraft. Þannig hófst ævintýrið á bak við Chobani sem er nú stærsti framleiðandi grísks jógúrts í Bandaríkjunum. Fjárhirðirinn (Chobani þýðir fjárhirðir) varð milljarðamæringur með þá einföldu en mannlegu sýn að henda gömlu forstjórabókinni og þeim ómanneskjulegu áherslum sem henni gjarnan fylgja og leggja heldur alla áherslu á að breyta rétt gagnvart starfsfólki sínu og samfélagi. Hamdi hefur frá upphafi ráðið innflytjendur og flóttafólk í vinnu og er nú um þriðjungur starfsfólksins úr þeirra hópi. Hann er sannfærður um að það sé leitun að betra starfsfólki en hann gerir sér jafnframt grein fyrir að hann þarf að veita þessum starfsmannahópi sérstakan stuðning. Hamdi stofnaði Tent-samtökin til að hvetja önnur fyrirtæki til að láta sig varða málefni flóttafólks. Í dag eru á þriðja hundrað stórfyrirtækja í samtökunum og vinna þau saman að því að greiða leið innflytjenda og flóttafólks að atvinnu. Það er líklega það mikilvægasta sem hægt er að gera fyrir fólk sem hefur orðið að flýja heimkynni sín. Greyston Bakery býr til brúnkökur sem að mestu enda sem innihald í ís frá Ben & Jerry’s. Félagið er 40 ára gamalt og þegar það var stofnað í Brooklyn vantaði starfsfólk og þegar mikið lá við leitaði stofnandinn til heimilislausra. Upphafið markaði sýn fyrirtækisins á ráðningar starfsfólks. Greyston stundar svokallaðar opnar ráðningar (e. open hiring). Það þýðir að þeir sem hafa áhuga á að starfa hjá Greyston geta einfaldlega skrifað nafn sitt á lista og næst þegar starf losnar fær næsta nafn á listanum það. Fyrirtækið óskar ekki eftir ferilskrá, viðtölum, sakavottorði né meðmælum og ef viðkomandi starfsmaður er að takast á við t.a.m. gjaldþrot, fíkn eða annan vanda er fyrirtækið reiðubúið til aðstoðar. Eina krafan er að þú mætir til vinnu á réttum tíma og takir þátt í starfsþjálfun til að verða góður bakari. Fyrir það fær nýr starfsmaður laun sem eru hærri en lágmarkslaun og aðgang að félagsþjónustu sem vinnur að lausnum til að hjálpa þér að komast á rétta braut í lífinu og halda þér þar.
Fátt er fólki mikilvægara en að hafa tilgang, fá að nýta krafta sína til gagns og góðs. Chobani og Greyston eru öðrum fyrirmynd í hvernig viðhorf okkar til þess hvaðan góðir starfskraftar koma, hvers þeir þarfnast og hvað þarf að gera til að breyta aðstæðum öllum til batnaðar, fyrir fólkið sem um ræðir sem og samfélagið sjálft. Ég hvet íslensk fyrirtæki til að velta fyrir sér hvernig þau geti lagst á árar um að gefa fólki tilgang og tækifæri, þeim og samfélaginu til góðs.
Athugasemdir