„Það sem ég sagði við hann var: Fiskeldi er komið til að vera á Íslandi. Það er hægt að gera það ef það er gert almennilega. En það eru tvö fyrirtæki hér á landi sem eru í eigu Norðmanna sem eru illa búnir að skíta í heyið og þeir verða bara að hysja upp um sig brækurnar,“ segir Kristján Þ. Davíðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva og stjórnarformaður útgerðarrisans Brims, í samtali við Heimildina, aðspurður um viðtal sem hann veitti þýska tímaritinu Der Spiegel nú í apríl. Með norsku fyrirtækjunum á hann við Arctic Fish og Arnarlax.
Í viðtalinu var haft eftir Kristjáni að honum þætti sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum vera „ógeðfellt“ og að hann teldi að annaðhvort ætti laxeldi að vera á landi eða úti á rúmsjó, fjarri íslenskum fjörðum. Þessi ummæli Kristjáns vöktu athygli þar sem hann hefur unnið fyrir hagsmunasamtök sjókvíaeldisfyrirtækja og talað fyrir slíku eldi í mörg ár.
Kristján segir hins vegar að hann sé alls ekki á þeirri skoðun að hætta eigi sjókvíaeldi á Íslandi. „Alls ekki, alls ekki. Ég er nú í stjórn landeldisfyrirtækis og hluthafi í því og ég er líka hluthafi í sjókvíaeldi og ég held að þetta geti mjög vel lifað saman. Landeldi verður alltaf bara lítil prósenta af heildarframleiðslu heimsins. Bara út af orkukostnaði, fjárfestingarkostnaði og bara öllu. Þetta er svo dýrt. Landeldi verður alltaf bara niche-atvinnugrein,“ segir Kristján.
Hann segist ekki skilja hvernig ummæli hans hafi verið mistúlkuð svona í viðtalinu. „Þetta er bara kjaftæði sem stendur í greininni. Ég er alls ekki á móti sjókvíaeldi: Bara dream on [...] Ég get ekki tekið ábyrgð á því sem einhver þýskur blaðamaður skrifar.“
Athugasemdir