Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir ríkisstjórnina harkalega fyrir að ætla að afhenda laxeldisfyrirtækjum hér á landi rekstarleyfi í laxeldi með ótímabundnum hætti. Kveðið er á um þetta í lagafrumvarpi um lagareldi. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi á dag beindi Kristrún spurningum til matvælaráðherra, Bjarkeyjar Gunnarsdóttur: „Lengi getur vont versnað. [...] Ríkistjórnin ætlar að afhenda laxeldisfyrirtækjum firðina okkar. Hvað gengur fólki eiginlega til? [...] Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin?“
Kristrún sagði enn frekar: „Nýr hæstv. matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ætlar að mæla fyrir þessu frumvarpi á Alþingi á morgun og hefur tekið við þessu máli frá tveimur fyrrverandi matvælaráðherrum, fyrrverandi og núverandi foringjum Vinstri grænna, stjórnmálaflokks sem hefur á tyllidögum talað um þjóðareign auðlinda og mikilvægi þess að taka upp ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá en án árangurs. Hvers konar þjóðareign er það að gefa þessi leyfi með varanlegum hætti til einkaaðila? Hver eru rökin og hvað breyttist? Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi á náttúruauðlindum? Meira að segja í orkuvinnslu þar sem fjárfestingar eru sannarlega bundnar til langs tíma og borga sig til baka yfir margra áratuga tímabil fá orkufyrirtækin ekki nema tímabundin rekstrarleyfi.“
Bjarkey segir breytinguna formlegs eðlis
Bjarkey svaraði því til að lagabreytingin sem um ræðir væri fyrst og fremst formlegs eðlis þar sem rekstrarleyfin í sjókvíaeldinu hafi í reynd verið ótímabundin en nú sé bara verið að hnykkja á því að svo sé. „Í lögunum í dag eru rekstrarleyfi gefin út til 16 ára í senn og það kom m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að löggjöfin væri óljós varðandi þessi atriði. Þar segir m.a., svo ég vitni í þá skýrslu, virðulegi forseti: „Ríkisendurskoðun telur að matvælaráðuneyti þurfi að taka af allan vafa um hvort rekstrarleyfi teljist tímabundin eða ótímabundin eign.“Það var sérstaklega bent á það að þegar rekstrarleyfi rennur út þá hefur Matvælastofnun afar takmarkaðar heimildir til að synja aðila um endurnýjun þrátt fyrir að frávik hafi orðið í starfseminni eða hún ekki verið innan markmiða laganna. Það má því í rauninni segja að mörgu leyti að eins og staðan er í dag þá séu leyfin ótímabundin.“
Frumvarpið er til meðferðar á Alþingi og fer í 2. umræðu á morgun.
Orðrétt segir í lagaákvæðinu: „Ótímabundin rekstrarleyfi. Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla.“
Heimildin fjallaði um þetta lagaákvæði og hvað í því felst í síðustu viku.
„Hér er gerð tilraun til að lögfesta úthlutun náttúruauðlinda í íslenskum fjörðum og strandsjó til allrar framtíðar, sem telja verður nánast sem varanlega gjöf.“
„Varanleg gjöf“
Einn af fáum sem tjáðu sig um þetta lagaákvæði í þeim fjölmörgu umsögnum um frumvarpið sem Heimildin hefur kynnt sér er Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, en hann segir um að um sé að ræða „varanlega gjöf“ til laxeldisfyrirtækjanna: „Eitt hættulegasta ákvæði frumvarpsdraganna. Hér er gerð tilraun til að lögfesta úthlutun náttúruauðlinda í íslenskum fjörðum og strandsjó til allrar framtíðar, sem telja verður nánast sem varanlega gjöf. Stenst ekki ákvæði stjórnarskrár landsins.“
Ef íslenska ríkið myndi reyna að innkalla kvótann í sjókvíaeldinu eða banna sjókvíaeldi á Íslandi, líkt og umhverfisverndarsamtök og hagsmunaaðilar í laxveiði hafa krafist, gæti það átt yfir höfði sér skaðabótakröfur frá laxeldisfyrirtækjum vegna þessa ákvæðis.
Athugasemdir (2)