7. október kl. 14.00 hélt Katrín Jakobsdóttir til Bessastaða til að biðjast lausnar sem forsætisráðherra. Kl. 11.52 hafði RÚV.is opnað fréttavakt undir rauðum borða: „Velkomin á vaktina“. Fimm mínútum seinna birtist þar viðtal við dósent í lögfræði sem lýsti hvað væri í vændum. Nokkrum fréttum seinna: „Styttist í fundinn“. Kl. 14.02: „Fundurinn hafinn“. Kl. 14.27: „Hífandi rok á Bessastöðum en Katrínu líður vel“. Kl. 14.28: Mynd af nafni Katrínar í gestabók á Bessastöðum. Á fimm tíma fréttavakt birtust 18 fréttir sem uppfylltu allar spádóm dósentsins í fyrstu frétt dagsins.
Í bókinni The Image frá árinu 1961 fjallar Daniel Boorstin um svokallaða gervi-viðburði. Gervi-viðburðir eru ekki ófyrirsjáanlegir heldur skipulagðir: ekki jarðskjálfti heldur blaðamannafundur. Gervi-viðburðir eru sviðsettir svo hægt sé að flytja af þeim fréttir. Þeir taka ekki endilega af vafa heldur eru margræðir – kalla á skýringar, flytja okkur óljósar fréttir. Þannig getur einn gervi-viðburður kallað á annan. Þeir eru handhægir. Það er þægilegt að mynda þá. Fréttastofur nærast á þeim. Þær hætta að leita uppi fréttir og byrja að búa þær til.
Stanslausar fréttavaktir dynja á almenningi. Rauður borði á forsíðu RÚV gefur til kynna að stórtíðindi séu í vændum. Ekki eldgos, ekki rauð viðvörun heldur fundur. Lesendur eru hvattir til að endurhlaða síðuna til að nýjustu fréttir birtist jafnt og þétt. „Er stórra tíðinda að vænta í dag?“ spurði fréttamaður RÚV í fréttavakt sem þá hafði staðið í klukkustund. „Þetta er fallegur dagur,“ svaraði forsætisráðherra. Hvað má lesa í svarið? Það gæti kallað á aðra fréttavakt.
„Á meðan okkur er talin trú um að ákvarðanir stjórnmálamanna séu náttúruhamfarir erum við höfð að algjörum fíflum.“
3. nóvember 2022 fyrirskipaði lögreglan að ljóskösturum yrði beint að myndavélum fréttastofu RÚV svo ekki yrði hægt að mynda hælisleitendur sem leiddir voru upp í flugvél. Viku fyrr var sama fréttastofa með beina útsendingu í kvöldfréttum frá útgáfuhófi forsætisráðherra. Hún hafði gefið út glæpasögu.
Hver stóri glæpurinn er í þeirri sögu sem hér hefur verið rakin skal ósagt látið. En á meðan okkur er talin trú um að ákvarðanir stjórnmálamanna séu náttúruhamfarir erum við höfð að algjörum fíflum.
Athugasemdir (1)