Síðastliðinn áratug hefur fæðingartíðni á Íslandi verið allt að því í frjálsu falli. Yfirleitt er miðað við að hver kona þurfi að eignast sem nemur 2,1 barni á lífsleiðinni til þess að viðhalda mannfjöldanum. Árið 2022 var fæðingartíðnin komin niður í 1,59 börn. Fram til ársins 2014 hafði fæðingartíðnin aldrei farið neðar en 1,93 börn og á þrjátíu ára tímabili þar á undan var fæðingartíðnin að meðaltali 2,1 barn. Þessi þróun er ekki bundin við Ísland og sést mjög sambærileg þróun á hinum Norðurlöndunum. Það sem fyrst og fremst keyrir þessa þróun áfram er seinkun foreldrahlutverksins, þ.e. fólk bíður með að eignast sitt fyrsta barn en sambærilegt hlutfall og áður, af þeim sem hafa á annað borð eignast barn, eignast annað barn, eða um það bil níu af hverjum tíu mæðra.
Háskólamenntaðir stöðugir
Þá benda rannsóknir til þess að barnleysi hafi aukist á Íslandi. Síðastliðinn áratug höfðu í kringum 15% kvenna og 25% karla ekki eignast barn þegar þau voru 45 ára, samanborið við 11% og 18% áratugina þar á undan. Þá vaknar upp sú spurning hvort þessi þróun nái jafnt yfir alla eða hvort ákveðnir hópar samfélagsins hafi síður tilhneigingu til þess að eignast barn en aðrir. Stutta svarið er já. Þegar fæðingartíðni er brotin niður eftir menntunarstigi sést að fæðingartíðni er lægri meðal fólks með lágt menntunarstig. Tilhneiging háskólamenntaðra til barneigna hefur á hinn bóginn haldist nokkuð stöðug síðastliðin tíu ár.
Samskonar mynstur kemur í ljós þegar barneignir eru greindar eftir tekjum fólks, þar sem tekjuhærri hóparnir hafi ríkari tilhneigingu til barneigna.
Samskonar mynstur kemur í ljós þegar barneignir eru greindar eftir tekjum fólks, þar sem tekjuhærri hóparnir hafi ríkari tilhneigingu til barneigna. Bráðabirgða niðurstöður benda til þess að fyrir um það bil aldarfjórðungi voru um það bil 36% meiri líkur á að kona í efsta tekjufimmtungnum yrði móðir samborið við konu í neðsta tekjufimmtungnum en árið 2022 voru þessar líkur komnar upp í 500%. Þess ber að geta að líkurnar eru reiknaðar út frá bæði tímasetningu og fjölda kvenna sem eignast barn. Lækkandi fæðingartíðni á Norðurlöndunum hefur komið fólki í opna skjöldu þar sem Norðurlöndin voru leiðandi í mótun opinberrar stefnu sem gerir konum kleift að stunda vinnu utan heimilis og sem hvetur til jafnrar þátttöku mæðra og feðra í umönnun barna sinna.
Mikilvægt skref þegar feður öðluðust rétt til þriggja mámaða óframseljanlegs fæðingarorlofs
Árið 2000 steig Ísland mikilvægt skref í að jafna fjölskylduábyrgð mæðra og feðra þegar feður öðluðust rétt til þriggja mánaða óframseljanlegs fæðingarorlofs. Í dag eiga foreldrar samtals rétt á greiðslum í 12 mánuði, þar sem sex mánuðir bundnir við hvort foreldri en foreldrar geta framselt sex vikur til hins foreldrisins. Þá sýna tölur frá OECD að hlutfall þriggja til fimm ára barna á leikskólum er nær hvergi jafnhátt og á Íslandi. Þannig styður stefna stjórnvalda að mörgu leyti við atvinnuþátttöku beggja foreldra og þátttöku beggja í umönnun barna sinna, sem aftur ætti að virka sem hvati til barneigna. Hins vegar vekur lækkandi fæðingartíðni upp spurningar um hvort stefna stjórnvalda styðji nægilega vel við barnafjölskyldur á Íslandi. Í því sambandi má nefna að víða þurfa foreldrar enn að brúa allt að 12 mánaða bil frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn kemst inn á leikskóla. Einnig hefur lágt þak á fæðingarorlofsgreiðslur komið niður á fjárhag margra fjölskyldna.
Foreldrar á Íslandi undir álagi
Erlendar rannsóknir benda til þess að stór meirihluti ungs fólks vill eignast barn einhvern tímann á lífsleiðinni. Hins vegar virðist ungt fólk leggja áherslu á að ná vissum markmiðum fyrir barneignir, svo sem að búa yfir félagslegu og efnahagslegu öryggi og að hafa uppfyllt langanir sínar um persónulega reynslu og upplifanir. Nýlegar erlendar rannsóknir hafa líka bent til þess að ungt fólk sé sífellt svartsýnna á framtíðarhorfur næstu kynslóðar, sérstaklega vegna loftslagsbreytinga en þó ekki eingöngu. Nýlegar rannsóknir benda ennfremur til þess að foreldrar á Íslandi, og þá sérstaklega mæður, séu undir álagi þegar reynt er að ná jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Bent hefur verið á í þessu sambandi að mæður séu mun líklegri en feður til þess að brúa umönnunarbilið frá fæðingarorlofi og þar til barnið kemst á leikskóla og endurteknar kannanir meðal foreldra á Íslandi sýna að undanfarin 20 ár hefur verið hæg en stöðug lækkun á hlutfalli mæðra sem finnst auðvelt að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þrátt fyrir aukna þátttöku karla í heimilishaldi á undanförnum árum sýna rannsóknir að ábyrgð á verkstjórn og skipulagi liggur oftast enn hjá konum. Þetta á einnig við hjá gagnkynja pörum sem hafa fram að foreldrahlutverki lagt áherslu á jafna skiptingu verka.
Nýlegar erlendar rannsóknir hafa líka bent til þess að ungt fólk sé sífellt svartsýnna á framtíðarhorfur næstu kynslóðar, sérstaklega vegna loftslagsbreytinga en þó ekki eingöngu.
Rannsóknir á móðurhlutverkinu sýna að á undangengnum árum og áratugum hefur móðurhlutverkið að mörgu leyti orðið tímafrekara, dýrara og flóknara, samfara aukinni áherslu á að mæður skuli fylgja ráðleggingum sérfræðinga um hvað sé barni fyrir bestu. Þessi hugmyndafræði hefur á íslensku verið nefnd „áköf mæðrun” og sýna viðtöl við íslenskar konur að hugmyndir um að mæður skuli setja þarfir barna framar sínum eigin virðast nokkuð útbreiddar í íslensku samfélagi og mæður upplifa gjarnan samviskubit og kvíða yfir að standa ekki undir þeim miklu kröfum sem gerðar eru. Ungar konur á Íslandi tilheyra jafnframt kynslóð sem býr yfir miklu frelsi þegar kemur að barneignum, hvort þær vilji börn, með hverjum, hvenær og hve mörg. En frelsi dagsins í dag fylgir líka sú vissa að frelsið sé einungis tímabundið og að láni, því að kynjaðar byrðar foreldrahlutverksins og samfélagslegar kröfur um ákafa mæðrun muni sníða þeim nokkuð þröngan stakk þegar þær ganga inn í það.
Athugasemdir