Alls hafa 27.707 skrifað undir undirskriftalista sem hefur yfirskriftina „Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra“ frá því að hann var settur í loftið á þriðjudag. Í gærmorgun, þegar Bjarni tók við lyklunum að forsætisráðuneytinu, var fjöldinn sem skrifað hafði undir um tíu þúsund. Hann hefur því hátt í þrefaldast á tæpum sólarhring.
Bjarni er að taka við forsætisráðuneytinu í annað sinn á sínum ferli, en hann gegndi embættinu um nokkurra mánaða skeið árið 2017. Hann hefur þó verið ráðherra samfleytt frá árinu 2013, lengst af fjármála- og efnahagsráðherra.
Undirskriftasöfnunin er rökstudd með því að vísa í að Bjarni njóti lítils trausts hjá almenningi á Íslandi, og er þar vísað í könnun sem Maskína gerði og birti niðurstöður úr í desember í fyrra. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum aðspurðum, 75 prósent, að þeir vantreystu Bjarna. Einungis 17 prósent sögðust bera mikið traust til hans. Hann var sá ráðherra sem mældist með mest vantraust og minnst traust.
Alltaf mælst með meira vantraust en traust
Maskína, og fyrirrennarar þess fyrirtækis, hafa mælt traust gagnvart ráðherrum um margra ára skeið. Þegar þær kannanir eru skoðaðar aftur í tímann vekur athygli að Bjarni hefur aldrei verið í þeirri stöðu að fleiri treystu honum vel til verka en vantreystu honum.
Honum hefur þó, tímabundið, einu sinni tekist að vinna verulega á hjá þjóðinni. Í desember 2021, skömmu eftir síðustu kosningar og á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisaði enn, voru 38 prósent aðspurðra farnir að treysta honum vel á meðan að 44 prósent sögðust bera lítið traust til hans. Sá árangur entist þó ekki lengi.

Vantraustið fór upp í 71 prósent í apríl 2022 , skömmu eftir að sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem hefur hlotið margháttað áfelli eftirlitsstofnana, fór fram. Þá sögðust einungis 18 prósent aðspurðra treysta Bjarna vel. Á fimm mánuðum gjörbreyttist því staðan til hins verra fyrir Bjarna. Vantraustið hefur, líkt og áður sagði, aukist síðan þá.
Gefur lítið fyrir mælingar fortíðar
Heimildin spurði Bjarna út í þessar traustmælingar eftir blaðamannafund á miðvikudag þar sem áherslur ríkisstjórnar hans voru kynntar. Þá sagðist hann ætla að nýta tíma sinn í embætti forsætisráðherra til að afla trausts á ríkisstjórninni og nefndi að skoðanamælingar breytist frá einum tíma til annars. „Þessar mælingar sem þú vísar til núna voru í kjölfar þess að ég var kannski mitt í talsverðum átakamálum,“
Hann sagðist vonast til að menn dæmi hann á verkum hans í nýju embætti. „Skoðanakannanir í gegnum tíðina hafa verið svo fjölbreyttar og mismunandi að þær eru ekki það sem að mér er efst í huga á þessum tímamótum.“ Honum þyki allt önnur staða uppi heldur en var fyrir nokkrum mánuðum.
„Eins og ég segi, ég hyggst haga verkum mínum í forsætisráðuneytinu þannig að það megi verða til þess að efla og viðhalda trausti á ríkisstjórninni heilt yfir,“ sagði Bjarni. Það sé honum ofar í huga en hvað mælingar fortíðarinnar hafa sagt.
Athugasemdir (3)