Þeim tókst að lappa upp á ríkisstjórnina. Tjasla henni saman. Hún stendur. Katrín Jakobsdóttir getur boðið sig fram til forseta og kaffistofur og fjölskylduboð landsins höfðu eitthvað að tala um.
Stjórnarþingmenn voru reyndar ekkert á því að ráðherrakapallinn væri eitthvað til þess að ræða neitt sérstaklega. Þau voru þarna nokkur úr forystu flokkanna að hittast og ræða málin, meirihlutinn er sterkur og spannar hið pólitíska litróf, og það mátti bara taka sinn tíma. Þeim tókst að lappa upp á ríkisstjórnina. Tjasla henni saman. Hún stendur.
Á miðvikudaginn voru lyklaskipti í fimm ráðuneytum, Bjarni hitti Katrínu. Sigurður Ingi hitti Þórdísi Kolbrúnu, og dreif sig svo að hitta Svandísi. Bjarni sat í forsætisráðuneytinu örskamma stund áður en hann þurfti að rjúka upp á Rauðarárstíg til þess að skila Þórdísi Kolbrúnu lyklunum að utanríkisráðuneytinu og Svandís hefur rétt náð að stilla stólinn sinn áður en hún hefur drifið sig að hitta Bjarkeyju Olsen í matvælaráðuneytinu og látið hana hafa lykla. Þeim tókst að tjasla þessu saman.
Fyrri partur miðvikudagsins hefur verið ómögulegur í þessum fimm ráðuneytum. Nýir ráðherrar hafa allir viljað ávarpa starfsfólk sitt. Djókað kannski smá. Viðurkennt að þetta er óhefðbundið. Í hádeginu var kannski pantaður matur einhvers staðar frá og áhersla lögð á að öll sitji saman á kaffistofunni, það er ekki á hverjum degi að ný manneskja setjist í ráðherrastól og það er gott fyrir móralinn að hrista hópinn aðeins saman. Þeim tókst að lappa upp á þetta.
Það er alltaf stutt á milli hátíðleika og fáránleika. Ef við myndum skvetta vatni á kolla ungabarna og tilkynna viðstöddum nafn þess nokkrum sinnum á dag væri það bara asnalegt, til dæmis. Eins eru þessi lyklaskipti klén, maður fær það á tilfinninguna að það væri betra fyrir ráðuneytin að vera með aðgangsstýringu í appi, þá væri hægt að gefa nýjum ráðherra aðgang að nýju ráðuneyti eftir behag og senda fjölmiðlum tilkynningu. Það virðist ekki koma okkur við hver stjórnar, hvort eð er.
Athugasemdir