Þingfundur var mjög stuttur í dag, aðeins fimm mínútur. En allir sextán dagskrárliðir sem taka átti fyrir voru felldir niður eftir að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hafði lesið upp tilkynningar. „Öll dagskrármál eru nú tekin af dagskrá. Fleira liggur ekki fyrir á þessum fundi. Fundi er slitið,“ sagði hann.
Meðal þess sem tilkynnt var var bréf frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún sagði sig frá þingmennsku frá og með deginum í dag. Enn fremur var vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra dreift til þingmanna.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu kallað eftir því að dagskráin yrði felld niður vegna þeirra sviptinga sem átt hafa sér stað í ríkisstjórninni síðustu daga. En nú starfar starfsstjórn sem þingmenn hafa haldið fram að geti ekki staðið í stefnumarkandi ákvörðunum, líkt og taka átti fyrir á fundinum í dag.
Athugasemdir