Komandi biskupskosningar þýddu að Pétur Georg Markan biskupsritari þyrfti mögulega að leita sér að nýrri vinnu. En vinnan kom til hans með símtali frá bæjarstjórn Hveragerðisbæjar í lok mars þar sem borin var undir hann ný staða, staða bæjarstjóra.
„Nýr biskup velur sér biskupsritara svo það var kannski farið að spyrjast út að ég væri á lausu einhvern tímann á árinu,“ segir Pétur léttur í bragði.
Forveri hans í bæjarstjórastólnum, Geir Sveinsson, sem einnig er þekktur fyrir afrek sín í handboltaheiminum, hætti eftir tvö ár í starfi. Í kjölfarið sagði hann farir sínar af samskiptum við minnihlutann, sem hefði skapað „eitrað umhverfi“, ekki sléttar. Geir hefði viljað klára þá vinnu sem hann hóf hjá bænum en sagði að hann og fulltrúar meirihlutans hefðu „ólíka sýn“ á hlutverk hans og því hafi starfslok verið það besta í stöðunni.
Aðspurður segist Pétur ekki hafa áhyggjur af því að lenda í sömu aðstæðum og að bæjarstjórnin sé vel mönnuð. Aftur á móti sé eðlilega tekist á innan sveitarstjórna um leiðir til betrumbóta.
„Sveitarstjórnarmál eru nærsamskipti og í stjórnmálum eru þetta nærstjórnmál þannig að þegar stundum gustar er þetta mjög nálægt manni. Þá skiptir máli að hafa ástríðu fyrir sveitarstjórnarmálum, að hafa ástríðu fyrir rekstri sveitarfélaga og taka þetta ekki persónulega.“
Flytur ef hann heldur áfram eftir tímabilið
Pétur hefur reynslu af stjórn sveitarfélags en hann var sveitarstjóri Súðavíkurhrepps frá árinu 2014 til ársins 2019 og hyggst nýta þá reynslu í nýja starfinu, meðal annars hvað varðar samstarf á milli sveitarfélaga.
„Þetta er hálfgerð fjölskylda, Árborg og Ölfus eru bara náskyld sveitarfélög og það er mjög mikilvægt að það sé gott samstarf þarna á milli,“ segir Pétur sem setur þó á oddinn áframhaldandi uppbyggingu í Hveragerði.
„Núna er rífandi gangur í atvinnulífinu og íbúaþróun og náttúrlega heilmikil uppbygging sem sveitarfélagið stendur að í kringum þetta – leikskólar og skólar og íþróttamannvirki,“ segir Pétur.
„Umbótum fylgja alltaf átök. Það er eðli umbótanna.“
Hann hefur engin sérstök tengsl við Hveragerði, að frátöldum ísbíltúrum í Eden sem barn, en segist hafa fylgst vel með „ævintýralegum“ uppgangi í sveitarfélaginu þegar hann var sjálfur í Súðavík. Þar sem Pétur er nú ráðinn til tveggja ára, út kjörtímabilið eins og lög gera ráð fyrir, hyggst hann ekki flytja búferlum með fjölskylduna til Hveragerðis í bili.
„En ég myndi aldrei taka nýtt kjörtímabil nema að búa á svæðinu,“ segir Pétur, sem sér þó fram á að vera mikið á svæðinu frá fyrsta degi. Hans fyrsta verk þegar hann tekur við 2. maí verður að kynnast starfsfólki Hveragerðisbæjar og svo Hvergerðingum sjálfum.
„Ég hef ofurtrú á tengslum,“ segir Pétur, sem fer að pakka saman á Biskupsstofu. Verkefnin þar hafa verið af ýmsum toga og kirkjunnar fólk hefur tekist á um verk Agnesar M. Sigurðardóttur biskups.
Þið Agnes hafið ekki siglt alveg lygnan sæ?
„Umbótum fylgja alltaf átök. Það er eðli umbótanna,“ segir Pétur og nefnir t.a.m. gangskör í ofbeldismálum og aðskilnað ríkis og kirkju. „Þetta er fyrst og fremst umbótatíð sem ég er rosalega stoltur af að vera þátttakandi í að einhverju leyti.“
Athugasemdir (1)