Við erum að verða allt of sein. Til að fá krakkana til setjast við morgunmatinn beiti ég neyðarúrræðinu: stilli símanum upp við borðsendann og set af stað hákarlamyndband. Áður en kaffivélin lýkur sér af er næsta myndband farið af stað. Kona í kafarabúningi útskýrir fyrir börnunum mínum hvernig þau geti komið í veg fyrir að hvítháfur éti þau. Ekki leggja á flótta, segir hún. Notið lófann til að ýta á nef hákarlsins. Haldið ró ykkar.
Þótt þau skilji ekki ensku flýti ég mér að skipta yfir á næsta myndband. Ég vil seinka því eins og ég get að þau læri trúarjátningu vestræns samfélags: Að allt sé ógn við líf þitt.
Þetta var líka svona um daginn: Ekki gera ÞETTA þegar krókódíll verður á vegi þínum. Gerðu ÞETTA þegar slanga bítur þig í hálsinn. Hættur alls staðar.
Fyrir ekki svo löngu sýndi algóriþminn mér fullklæddan karlmann sem tróð marvaða í sundlaug. Svona kemurðu í veg fyrir að drukkna, sagði hann og klæddi sig úr gallabuxunum, fyllti þær af lofti, batt þær utan um sig, breytti þeim í björgunarvesti.
Svona geturðu bjargað lífi þínu. Þú getur valið: að drukkna eða lifa.
Þetta eru þrjú merki þess að háhyrningur ætli að leggja til atlögu. Svona lifirðu af í eyðimörkinni. Fimm ávextir sem gætu drepið þig. Svona heldurðu lífi.
Þegar krakkarnir eru loks tilbúnir erum við að falla á tíma. Áður en ég fylgi þeim í skólann set ég á mig húfuna til að fela úfið hárið en læt sleppa að vera áfram í joggingbuxunum sem ég svaf í. Það er einhvern veginn svona sem maður lifir af.
Þegar ég kem heim hefur slokknað undir kaffinu. Ég þarf að mæta til kennslu eftir hálftíma. Ég gæti nýtt tímann í að búa um rúmin. En ég gæti líka slappað dálítið af, horft á nokkur myndbönd í símanum. Ég gæti lært að kveikja eld á eyðieyju. Ég gæti lært að grafa mig út úr snjóflóði, yfirbuga skógarbjörn, losna úr taki kyrkislöngu – og áður en ég legði af stað í vinnuna myndi ég skipta yfir í gallabuxurnar.
Því alheimurinn hefur hvíslað því að mér að ég hafi val: að ég geti byrjað daginn á að bjarga mér frá drukknun.
Athugasemdir