Samkvæmt nýlegri viðhorfskönnun sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent lét framkvæma nýlega eru 46 prósent landsmanna mótfallin því Ísland taki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár.
Könnunin var framkvæmd dagana 8. til 14. mars og voru landsmenn meðal annars spurðir út í viðhorf sín gagnvart sigurlagi Söngvakeppninnar, Scared of Heights í flutningi Heru Bjarkar og hvort þetta hefði verið lagið sem landsmenn hefðu viljað sjá sigra einvígið í úrslitum Söngvakeppninnar. Þá var einnig lagt mat á þátttöku í kosningum á úrslitakvöldinu.
Niðurstöður könnunarinnar er um margt forvitnilegar og virðast ekki vera í takt við úrslit Söngvakeppninnar. 42 prósent svarenda hefðu viljað að Wild West með Bashar Murad hefði borið sigur úr býtum í keppninni, en 38 prósent studdu Heru Björk. Það vekur einnig athygli hve stór hluti svarenda sögðust vilja að hvorugt lagið hefði unnið, heil 21 prósent.
Aldur, kyn og fjárhagsstaða lituðu kosningarnar
Í könnuninni var einnig skráður niður aldur, kyn og fjárhagsstaða svarenda. Þegar svör þátttakenda eru skoðuð út frá þessum þáttum má glöggt sjá skoðanamun milli kynslóða. Flestir á aldursbilinu 18 til 24 ára hefðu viljað að Bashar hefði unnið, eða um 73 prósent. Hins vegar vildu aðeins 15 prósent svarenda eldri en 65 ára að Bashar bæri sigur úr býtum.
Mikill meirihluti svarenda sögðust ekki hafa tekið þátt í kosningum í úrslitum Söngvakeppninnar, en samkvæmt könnuninni sögðust 23 prósent svarenda hafa kosið á úrslitakvöldinu.
Þegar kosningaþátttaka er skoðuð út frá aldri og fjárhagsstöðu sést einnig skýr munur. Aðeins 11 prósent svarenda á aldursbilinu 18 til 24 ára tóku þátt í kosningunum. Til samanburðar tók fjórðungur þeirra sem eru 65 ára og eldri þátt í kosningunum. Hæsta kosningahlutfallið var meðal einstaklinga á milli 35 til 44 ára.
Þá var líka marktækur munur í kosningaþátttöku eftir tekjubili. 15 prósent þeirra sem voru með minna en 400 þúsund krónur í mánaðartekjur kusu á umræddu kvöldi. Það hlutfall var helmingi hærra á meðal einstaklinga sem eru með milljón krónur eða hærra í mánaðarlaun.
Athugasemdir