Hver er munurinn á því að vera undir stórskotahríð í Úkraínu og Palestínu? spurði Kristján Kristjánsson Guðrúnu Hafsteinsdóttur á Sprengisandi helgina sem leið. Guðrún svaraði ekki spurningunni. Þess í stað sagði hún að við værum að fylgja öðrum Evrópuþjóðum með því að veita Úkraínumönnum viðbótarvernd. Auðvitað eigum við að veita fólki á flótta undan ógeðfelldri innrás Pútíns vernd — fólk hefur rétt til lífs. Fólk á Gaza hefur rétt á vernd undan ógeðfelldum fjöldaslátrunum Netanyahu.
Hver er munurinn á því að vera undir stórskotahríð í Úkraínu og í Palestínu? Guðrún velti því fyrir sér hvers vegna aðrar þjóðir, nær hryllingnum í Palestínu, veittu fórnarlömbum Netanyahu ekki vernd. Örlátasta leiðin til þess að túlka þessa spurningu Guðrúnar væri að kalla hana stórkostlega fávísa, því eins og Kristján benti henni á eru tvær milljónir Palestínu undir vernd í Jórdan. Í Egyptalandi eru níu milljónir fólks á flótta. Landamærin að Egyptalandi eru vissulega lokuð, enda vilja Egyptar ekki leyfa Netanyahu að skófla öllum íbúum yfir þau um leið og hann jafnar Gaza við jörðu. Sanngjarnari túlkun er að Guðrún hafi nýtt tækifærið til þess að blása í hundaflautu: Nágrannar þeirra vilja þetta fólk ekki einu sinni, hvernig stendur á því?
„Það lýsir manneskjunni ekkert betur en hvernig hún kemur fram við annað fólk, allt fólk.“
Hver er munurinn á því að vera undir stórskotahríð í Úkraínu og í Palestínu? Fólki er tíðrætt um framsal fullveldisins í sambandi við orkumál, ekki síst forsetaframbjóðanda einum og fyrrum flokksbróður Guðrúnar. Hvað með mennskuna? Það lýsir manneskjunni ekkert betur en hvernig hún kemur fram við annað fólk, allt fólk.
Hver er munurinn á því að vera undir stórskotahríð í Úkraínu og í Palestínu? Litla Ísland getur ekki bjargað heiminum, því miður, segir Guðrún. Hver sá sem tortímir einni sál hefur um leið tortímt heiminum öllum. Og hver sá sem bjargar einu lífi hefur bjargað heiminum öllum, sagði öldungurinn Hillel. Víst getum við bjargað heiminum. Við getum eignað okkur eigin mennsku og staðið keik andspænis eigin spegilmynd. Þess í stað framseljum við mennskuna, látum ósýnilegt samkomulag kerfa vestrænna þjóða ákvarða hvernig fólk við erum.
Athugasemdir (1)