Dómur féll í hryðjuverkamálinu svokallaða klukkan eitt í dag. Hlaut Sindri Snær Birgisson 24 mánaða fangelsisdóm og Ísidór Nathansson hlaut 18 mánaða fangelsisdóm. „Gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt verður dregið frá refsingunni,“ kemur fram á Vísi. Þeir eru sýknaðir af tilraun til hryðjuverka en sakfeldir fyrir vopnalagabrot.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra, sagði að dómurinn verði afplánaður í gegnum Samfélagsþjónustu.
Sindri var ákærður „fyrir tilraun til hryðjuverka, með því að hafa ákveðið að valda, með skot- og/eða sprengjuárás, hér á landi, ótilgreindum hópi fólks, á ótilgreindum stað og tíma, bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þeirra í hættu með stórfelldum eignaspjöllum, í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta og veikja eða skaða stjórskipun og þjóðfélagslegar undirstöður ríkisins. Ásetning sinn til hryðjuverka sýndi ákærði ótvírætt í verki á tímabilinu maí til september 2022.“ Er það rakið nánar á tíu blaðsíðum hvernig hann hafi gert það.
Hryðjuverkin hafi hann ætlað að fremja dulbúinn sem lögreglumaður. Í tölvusamskiptum er þeim Sindra og Ísidóri tíðrætt um ýmsa þekkta hryðjuverkamenn og fjöldamorðingja, til að mynda Anders Behring Breivik sem drap 77 manns í hryðjuverkaárásum í Osló og Útey árið 2011. Fjöldamorðin framdi Breivik dulbúinn sem lögreglumaður til að fólk teldi sér ekki standa ógn af honum.
„Ég er búinn að missa allan áhuga á skotvopnum,“ sagði Sindri fyrir dómi í febrúar. Ísidór sagði að það hefði ekki hvarflað að honum á neinum tímapunkti að það yrðu einhver voðaverk framin.
Málarekstur ákæruvaldsins byggði meðal annars á samskiptum sem Sindri og Ísidór áttu á samskiptaforritinu Signal þar sem rætt var um að drepa ýmist þekkt og háttsett fólk í íslensku samfélagi og ásetning Sindra um að fremja ýmis konar hryðjuverk.
Við aðalmeðferðina sögðust þeir báðir sjá eftir þeim óviðeigandi skilaboðum sem fóru þeirra á milli. Hvorugur hafi meint það sem þeir skrifuðu og þeir hafi sannarlega ekki ætlað sér að drepa neinn. Þótt skoðanir þeirra væru ólíkar skoðunum þess fólks sem um var rætt þá stafi því fólki engin ógn af þeim. Um fíflaskap hafi verið að ræða, í einhverjum tilvikum eftir að umrætt fólk hafði verið í fréttum, hótanirnar því innantómar.
Sindri játaði sök að hluta og viðurkenndi að hafa framleitt 40 þrívíddarprentaða parta í byssur.
„Ég held að það sé gríðarlegur léttir að þeir hafi verið hreinsaðir af þessum ásökum til hryðjuverka,“ sagði Sveinn Andri við blaðamenn fyrir utan dómssal. Sagði hann þetta vera óvenju alvarleg vopnalagabrot, „náttúrulega framleiðsla á vopnum og fleira, breytingar. En að öllu jöfnu á það ekki að þýða að okkar umbjóðendur þurfa að afplána sína dóma í fangelsi. Þeir eiga að geta tekið sína dóma út í samfélagsþjónustu.“
„Þetta er áfellisdómur fyrir ákæruvaldið,“ sagði Sveinn Andri. Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður Ísidórs, tók undir það.
Ég skora á heimildina að fylgja þessu máli eftir með viðtölum við fróða menn á þessu sviði. Það hlaðast upp urmull af spurningum: Er hryðjuverkalöggjöfin ófullkomin? Var málið illa unnið af hálfu ákæruvaldsins? Er íslenska dómskerfið of lint?
Ef maður segir við mann í tveggja manna tali að hann vilji gera eitthvað á einhverjum stað á einhverjum tíma. Getur það þá verið refisvert ef hann framkvæmir það aldrei? Eru "hugsanaglæpir" refsiverðir samkvæmt íslenskum lögum?