Mér var einu sinni boðið á stefnumót. Maðurinn hafði lengi dansað darraðardansinn fyrir framan mig en ég þótti bæði sein og áhugalítil til svars. Að lokum fór ég að renna hýru auga til hans og tók eftir eiginleikum sem heilluðu mig. Ég ákvað að para mig við karldýrið og hóf mökunarkallið. Ég þáði stefnumótið og undirbjó mig gaumgæfilega. Ég málaði mig í framan og hugði á sóknarleik. Ég klæddist þröngum kjól sem ýkti alla hóla og hæðir. Ég setti á mig rauðan varalit og blakaði augnhárunum daðurslega. Ég skreytti mig með gulli og glingri og hárið var greitt í ljónsmakka. Ég reyrði og lyfti barminum á þann hátt að hann var mættur um hálftíma á undan mér á veitingastaðinn. Ég gætti þess að kölnarvatnið tæki yfir skilningarvit hans og hreyfði mig þannig að hann fylgdi öllum mínum hreyfingum eftir á hugfanginn hátt. Ég gerði mig lostafulla í augum karldýrsins. Ég fór frjálslega með staðreyndir og skreytti afrekaskrána. Hann þandi bringuna á þann hátt að hann virkaði hærri en hann var í raun. Við vorum bæði líkt og frygðarfullir páfuglar þessa aprílkvöldstund á ónefndu ári. Árangursrík pörun hafði átt sér stað líkt og svo oft áður í náttúrunni.
Mökunarkall í náttúrunni vísar til hegðunar, bæði yrtrar og óyrtrar sem dýr framkalla þegar þau hyggja á fjölgun tegundar sinnar. Hegðunin getur komið frá karldýri jafnt sem kvendýri. Mökunarkall dýra hjálpar þeim að finna og velja rétta félaga til undaneldis. Mökunarkall dýra er afar fjölbreytt. Ákveðin tegund snáka gefur frá sér lyktarhormón sem gefur til kynna að kynlíf sé á boðstólum. Sniglar eiga sér langan forleik þar sem þeir nudda sér upp við hvor annan í marga klukkutíma. Galapagos-skjaldbakan réttir úr hálsinum, galopnar munninn og hreyfir höfuðið á ákveðinn hátt til að gefa karldýrinu til kynna að stundin sé runnin upp. Fuglar dansa, gefa frá sér hljóð og breiða út vængi og karlkyns gíraffar berjast um hylli kvendýrsins með því að slá löngum hálsunum saman á ofbeldisfullan hátt.
Kynþokki í vistkerfi manna
Mökunarkall mannsins byggist mikið á kynferðislegri aðlögun, eða því sem nefnt er kynþokki í daglegu tali. Kynþokka má líta á sem eldsneyti mökunarkallsins. Kynþokki er hæfnin til að vera aðlaðandi á þann hátt að það laði að ákjósanlegasta makann hverju sinni. Fjölgunartilburðir mannsins í dag eru lífsgæðaaukandi athöfn þar sem ásetningur getnaðar hefur að mörgu leyti vikið fyrir upplifun á líkamlegri nautn. Kynþokki getur falist í hverju sem er. Auðveldast er að tengja hann við útlit en hegðun, háttvísi og aðrir margvíslegir eiginleikar mannsins eru einnig mikilvægar kynþokkabreytur. Kímnigáfa er t.d. gífurlega kynþokkafullur eiginleiki fyrir mér. Skortur á henni hefur leitt til skammvinnra stunda á meðan ofgnótt hennar leiddi að lokum til varanlegrar svörunar.
Kynþokki er huglægur kraftur
Ég er eina stelpan í stórum strákavinahóp. Menn þessa hef ég flesta þekkt frá sjö ára aldri. Í návist þeirra og samhliða þeim var mér öruggt að taka út allan þroska. Þetta eru menn mikilla gæða sökum mannkosta. Uppvaxtarár mín með þeim gerði það að verkum að hugtakið karlmennska var byggt á jákvæðum grunni. Þetta eru ekki gúmmímenn sem eru dúnmjúkir af mýkt. Engir „kellingakarlar“ eins og þeir brothættu vilja titla menn sem taka fram úr þeim í bæði tilfinningum og tali.
„Annar þeirra birti mynd af sjálfum sér á brókinni og lét engin orð fylgja enda engra orða þarft. Sjálfstraustið hafði sláandi nærveru.“
Þetta eru margir hverjir hefðbundnir harðjaxlar af gamla skólanum en þó með háa tilfinningagreind og samkennd í samræmi við það. Þeir endurspegla óvini þeirra sem íhaldið lofar án þess þó að vera algjör andstæða þeirra. Þetta eru menn sem hlæja „af Andrew Tate-væddum“ athugasemdum andfélagslegra eymdarsála og hvetja mig áfram við að pirra þá. Þeir eru mínir uppáhaldskarlmenn. Ég hafði samband við þá í upphafi greinarskrifa og spurði þá hvað kynþokki væri fyrir þeim. Einn minna manna benti mér á Cornbread Cowboy. Amerískan karlkyns áhrifavald sem gerir út á kynþokka á kómískan hátt sem er á skjön við klámvæddan og einhæfan kynþokka. Maður sem hendir öllu tali um „Alpha energy“ á haugana og upphefur skvapkenndan raunveruleikann karlmanna í kúrekastíl og góðum skóm. Ég skildi aðlöðunina um leið. Annar þeirra birti mynd af sjálfum sér á brókinni og lét engin orð fylgja enda engra orða þarft. Sjálfstraustið hafði sláandi nærveru. Annar nefndi að raunverulegur kynþokki byggi ekki í einhverju ákveðnu útliti heldur sjálfsöryggi í því útliti sem um ræðir hverju sinni. Talað var um mikilvægi þess að upplifa virðingu í sinn garð fremur en innihaldsrýran losta. Hroki og yfirlætissemi væri með öllu kynþokkalausir eiginleikar óháð útliti og kyni. Vinkonur mínar voru á svipuðum nótum og nefndu oftast: Kímnigáfu, sjálfsöryggi, umhyggjusemi og einlægni. Eftir þessi samtöl hef ég komist að því að kynþokki er huglægur kraftur en ekki fyrir fram ákveðið form eða útlit.
Andrew Tate og aðrir mannkostaskertir moðhausar
Allir eiginleikarnir sem vinir mínir töldu upp virtust hins vegar á skjön við birtingarmynd kynþokka í mörgum miðlum. Þar er hann ekki birtur sem huglægur kraftur. Þar er hann iðulega einhæfur, klámvæddur og makaður skömm. Hann er látinn líta út fyrir að vera bundinn eingöngu við útlit og jafnvel notaður gegn konum. Áhrifavaldar íhaldsins eru orðnir einkar góðir í að afvegaleiða okkur. Áðurnefndur Andrew Tate spúir skaðlegri orðræðu í átt að ungum mönnum og venjuvæðir lítillækkandi aðför að konum. Ólíkt vinum mínum er Tate ekki maður mikilla mannkosta.
Mannkostir eru eiginleikar sem prýða eftirsóknarverða manneskju. Sterk tilfinningavitund er undirstaða mannkosta og forsenda velferðar og hamingju allra einstaklinga. Við Jubilee-stofnunina í Bretlandi er unnið að fjölbreyttum rannsóknum á siðferðisþroska og tilraunum í mannkostamenntun. Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki, er aðstoðarforstjóri stofnunarinnar og einn helsti drifkraftur rannsókna á sviði siðferðisuppeldis og mannkostamenntunar. Kristján leggur áherslu á mikilvægi mannkostamenntunar í æsku þar sem áhersla er lögð á þrautseigju, sjálfsaga og þolgæði og enn fremur siðferðislegar dygðir á borð við: góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu, umhyggju, þakklæti og mikilvægi tilfinningalegra og siðferðislegra innlita í eigin vitund.
„Sátt er bannorð fyrir kapítalískt neyslukerfi. Kynþokki hefur því verið einfaldaður í klámvætt líki, makaður skömm og eignaður konum sem sagðar eru minna virði en aðrar.“
Orðræða Tate er hins vegar á köflum óþægilega árangursrík þar sem hún elur á ótta og reiði. Tvær magnaðar tilfinningar sem skerða blóðflæði til framheilans og auðvelda því viðbragð án rökhugsunar. Donald Trump er annar sem hefur lært skrumskælingu ótta og reiði á mjög árangursríkan hátt sér í hag þrátt fyrir glæpsamlega vanhæfni í flestu öðru. Aðrir sem koma upp í hugann eru Íslandsvinurinn Jordan Peterson og pólitísku þáttarstjórnendurnir Candice Owens og Ben Shapiro. Þau tvö síðastnefndu leggja ofuráherslu á íhaldssöm kristileg gildi og gera mikið til að sannfæra hrædda og reiða að gagnsemi þeirra sé heildinni til góðs. Owens hefur m.a. tekið samfélagslega skaðlegt drottingarviðtal við Tate. Þau tvö virðast vera sammála um að þær konur sem haga sér á lostafullan hátt megi skaða eða lítillækka. Birtingarmynd mín í miðju mökunarkalli hefði án efa hlotið afhroð og skömm í þeirra augum. Ég gleð mig við það.
Lokaorð
Huglægum kynþokka fylgir vald sem leiðir af sér sátt í eigin skinni. Sátt er bannorð fyrir kapítalískt neyslukerfi. Kynþokki hefur því verið einfaldaður í klámvætt líki, makaður skömm og eignaður konum sem sagðar eru minna virði en aðrar. Þær sem ekki ná ásættanlegu virði eiga að bugta sig í þakklæti og beygja fyrir auman tilvistarrétt sem ákvarðaður er af kerfi sem vill ekki valdinu deila. Kynþokki er huglægur kraftur og mökunarkalli okkar fylgir lífeðlisfræðilegur tilgangur og ákveðin skynfærafró. Skaðleg kerfi og hræddir valdhafar í rökvillu eiga ekki að kæfa kraftinn þinn. Ég spyr því í lokin hvort þú eigir kynþokka þinn eða hefur einhver annar ákveðið hann?
Elsk! Hló upphátt að þessu og vá, hvað þetta er spot on.