„Herbergið var hryllingur,“ var það eina sem einn gesturinn á Reykjavík Downton Hotel hafði að segja í umsögn sinni á Tripadvisor. Hótelið er eitt þeirra fyrirtækja sem er rekið af Davíð Viðarssyni, einnig þekktum undir víetnömsku nafni sínu Quang Le, og var lokað af lögreglu í gær sem hluta af umfangsmiklum aðgerðum í tengslum við rannsókn á meintu mansali og peningaþvætti.
Davíð rekur tvö hótel í Reykjavík. Það eru Herkastalinn Guesthouse við Kirkjustræti og Reykjavík Downtown Hotel á Skólavörðustíg 42, en hið síðarnefnda er í sama húsi og einn af veitingastöðum Pho Vietnam keðjunnar sem Davíð hefur einnig rekið. Umsagnir um Reykjavík Downtown Hotel eru margar hverjar mjög neikvæðar og kvarta nokkrir undan kakkalökkum á hótelinu. Þar var tekið á móti gestum þar til í gær þegar lögregla innsiglaði hann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti í dag að krafist verði vikulangs gæsluvarðhalds yfir þremur körlum og þremur konum eftir aðgerðir lögreglu í gær á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Tilefni aðgerða lögreglu í gær voru rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og grunur um skipulagða brotastarfsemi. Hótelunum báðum var lokað, sem og veitingastöðum keðjanna Pho Vietnam og Wok On.
Hótelið sem um ræðir hefur áður ratað í fréttirnar en í húsinu var áður rekið hið alræmda Hótel Adam. Var það áður en Davíð Viðarsson hóf þar rekstur. Hótel Adam var lokað árið 2018 að kröfu sýslumanns eftir að upp komst um lögbrot.
Velti sér yfir kakkalakka
Í nóvember segir einn gesturinn á Reykjavík Downtown Hotel að verðið fyrir hótelherbergið hafi verið fínt en hvetur fólk til að passa sig á pöddunum. Hann skrifar í umsögn sinni á Tripadvisor að mikið af kakkalökkum hafi verið á herberginu hans. Honum hafi nánast orðið óglatt eftir að hann hafði óvart kramið kakkalakka sem höfðu skriðið undir rúmteppið hans þegar hann var sofandi og hafði velt sér yfir á þá. „Svo margir KAKKALAKKAR,“ skrifar hann en gefur þó 6 í heildareinkunn.
Hann er ekki einn um að kvarta undan kakkalökkum. Gestur frá Danmörku sem gisti þarna í febrúar segist hafa skilning á því að húsið sé úr sér gengið en það sé „engin afsökun fyrir hræðilegum óþef, sóðalegu baðherbergi og kakkalökkum í herberginu.“
Annar segir að staðsetningin hafi verið mjög góð en að herbergið hans hafi veri óhreint og þar hafi enn verið rusl frá síðasta hótelgesti. Sá þriðji segir að enginn morgunmatur hafi verið í boði þegar hann mætti í morgunmat og að herbergið hafi ekki verið þrifið nægilega vel. Margir kvarta yfir því að lyftan sé biluð og því vesen að fara með farangur milli hæða. Einhverjir sögðu sjónvarpið hafa verið bilað, það hafi verið hávaði vegna skorts á einangrun og greinilega löngu kominn tím á viðhald.
Gestur frá því í maí á síðasta ári segir það hafa verið hræðilega reynslu að gista á Reykjavík Downtown Hotel. „Hjálpaðu sjálfum þér og forðastu þennan hryllilega stað,“ skrifar hann.
Alls voru yfir tuttugu sem gáfu hótelinu einkunnina „Hræðilegt“.
Gestir sem gistu í Herkastalanum hafa mun betri sögu að segja þó heildareinkunn þeirra fyrir gistinguna sé lág miðað við aðra gististaði í Reykjavík.
Margir hrósa staðsetningunni sérstaklega, enda er húsið í hjarta borgarinnar.
Hins vegar gera ýmsir athugasemdir, til að mynda gestur frá Ástralíu sem gisti þar í haust. Hann segir eldhúsið hafa verið skítugt, fýla hafi komið af gömlum mat í ísskápnum og ruslið hafi ekki verið tæmt.
Þurfti að farga mat að kröfu heilbrigðiseftirlitsins
Heimildin greindi frá því í nóvember að þurft hafi að farga matvælum á veitingastað Pho Vietnam í október að kröfu heilbrigðiseftirlitsins. Á þremur stöðum veitingakeðjunnar fundust matvæli með sama lotunúmer og matvæli sem fundust í ólöglega lagernum í Sóltúni 20. Heilbrigðiseftirlitið setti takmarkanir á starfsemi tveggja veitingastaða vegna ýmissa brota, svo sem vegna skorts á kælingu og rekjanleika matvæla.
Matvæli með sama lotunúmer og matvæli í kjallaranum að Sóltúni fundust á veitingastöðum Pho Vietnam á Laugavegi 3, Tryggvagötu 20 og Snorrabraut 29. Matvæli á síðarnefndu stöðunum tveimur voru einnig með sömu dagsetningu og matur sem fannst í Sóltúni. Þetta kom fram í skýrslum heilbrigðiseftirlitsins.
Athugasemdir (1)