Fjölmargir notendur samfélagsmiðilsins Facebook voru í dag skyndilega skráðir út af aðgöngum sínum og eiga erfitt með að skrá sig inn á nýjan leik. Hið sama er segja um aðra samfélagsmiðla sem fyrirtækið Meta rekur. Instagram, Threads og Messenger lágu allir niðri.
Svo virðist sem vandinn hafi þó verið leystur og notendur geta nú skráð sig aftur inn á þjónustur Meta.
Enn sem komið er liggur ekki fyrir hvað olli vandanum. Samkvæmt villumeldingarþjónustunni Downdetector liggur vefsíðan Facebook niðri víða um veröld.
Samtals hafa hrannast inn meira en 250.000 villumeldingar þar sem notendur lýstu erfiðleikum með að skrá sig inn á samskiptamiðilinn. Haft er eftir talsmanni Meta á fréttamiðlinum Reuters að fyrirtækið geri sér grein fyrir vandanum og vinna sé hafin við að ráða bót á villunni sem kemur í veg fyrir að notendur geti skráð sig inn á miðlanna.
Netverjar víða um heim hafa sótt samfélagsmiðilinn X og velt vöngum yfir því hvað valdi biluninni hjá Meta. Þá hafa aðrir nýtt tækifærið í gamni og bent á að áreiðanleika eldri upplýsingveitna.
Í samtali við fréttastofu RÚV segir Anton Már Egilsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis, að allt bendi til þess að bilunin sé í innskráningarkerfi Meta sem hafi áhrif á reikninga fólks á heimsvísu.
Hann segir að ekki þurfi að hafa frekari áhyggjur af biluninni, litlar líkur séu að brotist hafi verið inn á samfélagsmiðlareikninga einstaklinga.
Fréttin verður uppfærð
Athugasemdir (1)