Hagstofa Íslands birti fyrr í vikunni niðurstöður þjóhagsreikninga fyrir árið 2023. Áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu var 4.279 milljarðar króna. Breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi nam því um 4,1 prósentum.
Í tilkynningunni kemur fram að hagvöxtur í fyrra hafi að miklu leyti verið drifinn áfram af raunaukningu þjónustuútflutnings sem var jókst um 9,8 prósent.
Á þriðja og fjórða ársfjórðungi dróst úr aukningu landsframleiðslunnar í samanburði við árið þar á undan. Í tilkynningunni segir að sennilega megi rekja samdráttinn til eldsumbrotanna á Reykjanesi. Þá er þess einnig getið að einkaneysla hafi dregist saman um 2,4 prósent að raunvirði frá sama tímabili og árið á undan.
Metárið 2022
Í fréttatilkynningu Hagstofunnar er einnig sagt frá þvík að áður útgefnar hagvaxtarmælingar fyrir árin 2020 til 2022 hafi verið endurskoðaðar. Endurmatið byggir að miklu leyti á uppfærðum og nákvæmari gögnum um fjármunamyndun, sem urðu aðgengileg í fyrra.
Ljóst er að fjármunamyndun atvinnuveganna var töluvert vanmetin í fyrri hagvaxtartölum. Á vef Hagstofunnar segir að á þessum árum hafi mest hafi farið fyrir fjárfestingum í mannvirkjum og bílaleigubílum. Þannig fór mældur hagvöxtur árið 2022 úr 7,2 prósentum yfir 8,9 prósent.
Það er með því mesta sem hefur mælst í íslenskri hagsögu. Til að mynda er það meiri hagvöxtur en mældist árið 2007, þegar bankabólan náði hámarki, en þá var hann 8,5 prósent. Leita þarf aftur til ársins 1971 til þess að sjá hærri hagvaxtartölur en það ár jókst hagvöxtur um heil 13,1 frá árinu þar á undan.
Hafa ber þó í huga að árið 2022 var um margt óvenjulegt og samanburður við árin þar á undan bjagaður vegna áhrifa af völdum heimsfaraldursins. Það ár tók ferðaþjónustan við sér að fullum krafti og störfum fjölgaði hratt á milli ára.
Til að mynda jukust útgjöld ferðamanna hér landi um 107 prósent milli ára og námu alls um 390 milljörðum króna. Á því ári gætti einnig talsverðra áhrifa af stýrivaxtarlækkun Seðlabankans sem studdu við hraðan vöxt í framboði og eftirspurn sem átti sér stað á árinu, eftir að takmörkunum var aflétt.
Þá ber einnig að nefna efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda sem beitt var til að bregðast við kórónuveirfaraldrinum. Þessar aðgerðir ýttu einnig undir þenslu í hagkerfinu. Á árunum 2020 og 2021 var afkoma ríkissjóð neikvæð um 274 milljarðar króna, vegna fallandi tekna í tengslum við faraldurinn og stóraukinna ríkisútgjalda sem ráðist var í til að takast á við efnahagslegar afleiðingar hans.
Athugasemdir (1)