Samninganefnd Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur (VSFK) hefur fengið heimild til þess að hefja undirbúning að verkföllum. Í tilkynningu sem Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK, birti á Facebook-síðu sinni sagði hún að Samtök atvinnulífsins haldi því ávallt fram að ekki sé rétti tíminn til átaka og kauphækkana.
„Ætli maður verði ekki bara að hætta þessu eða óska eftir að þau láti okkur vita hvenær við megum vinna vinnuna okkar,“ segir Guðbjörg í færslu sinni.
Í færslunni tilkynnti hún að félagið muni nú hefja vinnu við að undirbúa verkfallsaðgerðir og kosningu meðal félagsmanna. VSFK bætist við í hóp með Eflingu og Verkalýðsfélag Akraness sem munu brátt efna til verkfallskosninga hjá ræstingafólki sem skráð eru í félögin.
Verkfallskosningarnar munu að óbreyttu fara fram í næstu viku. Í fréttatilkynningu Eflingar kom fram að verði verkfallsaðgerðir samþykktir mun ræstingafólk leggja niður störf þann 18. mars.
Óánægja með endurskoðun á launaliði kjarasamninga
Alvarleg staða er komin upp í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og samninganefnda stéttarfélaga og landssambanda launafólks á almennum vinnumarkaði.
Sú flókna staða sem nú er upp má að miklu leyti rekja til ákvörðunar Samtaka atvinnulífsins um að opna aftur launaliðinn í viðræðum sínum við fagfélög iðnaðarmanna. Í vikunni féllust Samtök atvinnulífsins á kröfur samningnefnda fagfélaganna um auknar prósentuhækkanir á launum.
En samninganefndir Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsambands Íslands og MATVÍS greindu frá síðasliðinn laugardag að félögin hafi komið sér saman um að hefja undirbúning á verkfallsaðgerðum.
Sú ákvörðun hleypti illu blóði í samninganefndir breiðfylkingarinnar og í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í kjölfarið var ákvörðun Samtaka atvinnulífsins sögð vera mikil vonbrigði.
Þótti samninganefnd Breiðfylkingarinnar Samtök atvinnlífsins hafi sýnt sér og öðrum innan breiðfylkingarinnar „mikla vanvirðingu með því að rjúfa fyrirliggjandi samkomulag við hana um þá launastefnu sem marka átti í samningunum.“
Forsenduákvæði standa í VR og LÍV
Í síðustu viku drógu samninganefndir VR og Landsamband íslenzkra verzlunarmanna sig úr samstarfi við breiðfylkingu félaga Alþýðusambandsins. Var það meðal annars vegna ágreinings um forsenduákvæði kjarasamninga. Samkvæmt tilkynningu sem birt var vef VR, standa félögin nú utan viðræðna í nokkurskonar biðstöðu.
Fundur milli Samtaka atvinnulífsins og samninganefnda breiðfylkingarinnar hófst í morgun í Karphúsinu. Þá mun samninganefnd Eflingar og Samtaka atvinnulífsins funda húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Athugasemdir