Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata, vill ganga úr skugga um að útvistun ræstingaþjónustu hjá hinu opinbera feli í raun í sér sparnað. Enn fremur vill hún vita hvort sá sparnaður væri þá réttlætanlegur með tilliti til lakra kjara ræstingafólks.
Varaþingmaðurinn sendi á dögunum fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðherra um málið.
Valgerður greindi frá því í Facebook-færslu að hún þekkti starfsvettvanginn nokkuð þar sem hún starfaði við ræstingar hjá Reykjavíkurborg þrisvar í viku þegar hún var í menntaskóla. Þar hafi hún upplifað sig sem hluta af vinnustaðnum – hafi mætt á árshátíðir og þekkt starfsfólkið.
„Svo fór ég að starfa fyrir ISS sem nú heitir Dagar og þá þurfti ég að þrífa miklu stærra húsnæði 5 sinnum í viku fyrir sömu laun,“ skrifar hún. „Á staðnum sem ég þreif fyrir ISS var ég ósýnileg, þekkti engan og var ekki hluti af vinnustað, fyrir utan að búa við lakari kjör,“ skrifar hún.
Athugasemdir (3)