Matvælastofnun hefur gefið út svarta skýrslu um laxalúsafaraldurinn hjá Arctic Fish og Arnarlaxi í Tálknafirði nú í haust. Faraldurinn er án hliðstæðu hér á landi. Í skýrslunni segir meðal annars að laxeldisfyrirtækin hafi verið illa búin undir lúsafaraldurinn. „Magn laxalúsar í Tálknafirði í október 2023 var meira en sést hefur áður hérlendis. Þetta aukna lúsaálag hafði mjög slæm áhrif á velferð fisksins og voru afleiðingarnar umfangsmiklar. Ljóst er að rekstraraðilar hafa verið illa búnir til þess að verjast miklu magni af laxalús og leiða má að því líkur að áhrif laxalúsarinnar hafi verið vanmetin. Regluverkið hefur ekki verið nægjanlega skýrt til þess að tryggja það að rekstraraðilar viðhafi öflugar forvarnir og skjót viðbrögð þegar mikillar lúsar verður vart.“
Laxalúsafaraldurinn hjá Arnarlaxi og Arctic Fish á Vestfjörðum vakti mikla athygli á seinni hluta síðasta árs eftir að kajakaræðarinn Veiga Grétarsdóttir náði myndum af sárugum og dauðum eldislöxum í sjókvíum síðarnefnda fyrirtækisins í Tálknafirði. Heimildin birti þessar myndir í byrjun nóvember. Um var að ræða fyrsta slíka faraldurinn hér á landi.
„Að mati Matvælastofnunar hefðu rekstraraðilar þurft að bregðast fyrr við auknu álagi laxalúsar í firðinum.“
Laxalúsin étur roðið á laxinum þannig að sár myndast og bakteríur komast í sárin og stækka þau; laxarnir verða svo veikburða vegna þessa og drepast á endanum ef þeim er ekki slátrað áður en til þess kemur.
Laxalúsin leiddi til þess að rúmlega 2 milljónir eldislaxa drápust eða var fargað hér á landi í október og nóvember í fyrra samkvæmt Mælaborði fiskeldis hjá MAST. Þetta var um helmingurinn af öllum afföllum hjá íslenskum sjókvíaeldisfyrirtækjum í fyrra en þau námu 4,5 milljón fiskum yfir árið.
Meiri viðbúnaður og nýr lagarammi
Tillögurnar sem Matvælastofnun gerir í skýrslunni er að laxeldisfyrirtækin verði meðvitaðri um möguleikann á slíkum laxalúsafaraldri í framtíðinni. „Matvælastofnun telur að hægt hefði verið að koma í veg fyrir umrædda atburði ef viðbrögð rekstraraðila og viðbragðsáætlanir hefðu verið samræmdari og ítarlegri. Þá hefði þurft að samræma lyfjaval við meðhöndlun og vinna markvisst saman að úrbótum á ástandinu. Þar að auki hefði þurft að samnýta búnað og mannskap rekstraraðila, svo vinna hefði mátt markvisst að aðgerðum. Rekstraraðilar þurfa að hafa samræmdar viðbragðsáætlanir og samnýta búnað og starfsfólk, þegar upp koma krefjandi aðstæður sem þessar.“
Þá telur stofnunin að Alþingi þurfi að breyta þurfi lögum um laxeldi á Íslandi þannig að komið verði í veg fyrir að sambærilegir atburðir endurtaki sig. „Nauðsynlegt er að breyta lagaumhverfi á þann hátt að settur verði heildstæður rammi fyrir varnir gegn sjúkdómum og sníkjudýrum í fiskeldi, með það að leiðarljósi að áhersla verði sett á fyrirbyggjandi aðgerðir og skjót viðbrögð, sem stuðlar að sjálfbæru og ábyrgu fiskeldi. Mikilvægt er að efla rannsóknir á líffræði laxalúsar á Íslandi, til þess að fá betri þekkingu á samspili laxalúsar í umhverfinu og áhrif hennar á fisk í sjókvíaeldi og villtri náttúru.“
Meira en 100 lýs
Í kjölfarið á birtingu mynda Veigu Grétarsdóttur í byrjun nóvember héldu fjölmiðlar áfram að fjalla um laxalúsina. Í ljós kom að meira en 100 laxalýs fundust á sumum af eldislöxunum hjá Arctic Fish í Tálknafirði sem drápust eða þurfti að farga vegna fyrsta lúsafaraldursins sem komið hefur upp í íslensku sjókvíaeldi. Þetta kom fram í tölum sem Matvælastofnun (MAST) sendi Heimildinni á grundvelli gagnabeiðni. Laxalýs á fiskum í kvíum eru taldar reglulega; starfsmenn eldisfyrirtækja háfa þá laxana, svæfa þá, telja lýsnar á þeim og setja svo aftur í sjóinn.
Um var að ræða tölur um fjölda lúsa úr sex sjókvíum Arctic Fish í Hvannadal í Tálknafirði. Þessar tölur voru meðal annars frá mælingum í viku 40, segir í svari MAST, eða frá 2. til 8. október. Þá fundust rúmlega 96 lýs á löxunum að meðaltali.
Athugasemdir