„Vorrúllur er eitthvað sem ég kann að gera. Mamma kenndi mér að búa þær til,“ sagði Charla Mae Calzada. Charla býr til heimagerðar vorrúllur og selur þær til styrktar fjölskyldu sambýlismanns síns, Mahmoud Ali frá Palestínu. Eru þau að safna pening til að koma fjölskyldu Mahmoud frá stríðsátökunum í Gasa.
Charla segir söfnunina ganga mjög vel. Til að byrja með óskuðu þau eftir styrkjum frá fólki „en það var ekki nóg. Svo ég þurfti að finna aðra leið. Eitthvað sem ég gæti gert sjálf.“ Þá datt henni í hug að búa til vorrúllurnar. Charla er frá Filippseyjum og sagði að fjölskyldan borði mikið af vorrúllum og lá því beinast við fyrir henni að búa til vorrúllur og selja fyrir söfnunina.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Charla býr til heimagerðar vorrúllur og selur en hún og vinkona hennar stofnuðu samtökin Tala Project árið 2018 í kjölfar fellibyls á Filippseyjum. Gekk salan þá afar vel og rann ágóðinn til fórnarlamba fellibylsins Mangkhut.
Þegar Charla og Mahmoud hafa safnað þeim pening sem þarf til að bjarga fjölskyldu þeirra frá Gasa mun Mahmoud fara út til Egyptalands til að sækja fjölskylduna sína. Mun hann byrja á því að sækja pabba sinn, Hussein Ali. Hussein kom til Íslands í febrúar fyrir ári síðan en var vísað úr landi 6. október, degi áður en stríðið hófst. Hussein er með dvalarleyfi í Grikklandi.
Ætla þau að reyna að bjarga allri fjölskyldunni sem eru foreldrar Mahmoud, þrjár systur, mágur Mahmoud og þrjár litlar frænkur hans. Átti ein af systrum Mahmoud að vera að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur á þessu ári. Hún sendi nýverið skilaboð á Chörlu um að ástandið á Gasa sé mjög slæmt. Dauðinn væri allsstaðar. Stríðið skemmi allt, heimili og drauma. Ekkert sé á sínum stað og að það kosti mikið að ferðast frá Gasa.
Athugasemdir