Ég veit satt að segja ekki hvað ég hef lært í lífinu eða hvort ég hef lært nokkuð. Kannski kom ég í heiminn fullur af þekkingu sem ég hef smám saman verið að glutra niður á langri ævi. Og kannski er þetta einmitt eins og Kristján Fjallaskáld sagði, drykkfellda þunglyndisskáldið sem mamma kenndi mér að meta: „Í heim ég nakinn hér kom fyrst / og heiminn nakinn við ég skil, / ekkert grætt og ekkert misst / ég á því hef að vera til ...“ Kannski. Og ekkert lært. Ég veit það ekki.
Ég sit hér við skrifborðið í herberginu mínu og reyni að þjappa hugsunum mínum saman í lærdóminn sem ég dreg af þessu öllu saman en ég neita því ekki að svona pistill er full mikið eins og „Sagt eftir leikinn“ fyrir minn smekk: „Já. við vorum að gera ýmsa tæknilega feila í vörninni og hefðum mátt vera meira skapandi sóknarlega séð en heilt yfir reyndum við að spila okkar leik ...“
Eitthvað svona. Mér finnst enn of mikið eftir af sumrinu í mér til að efnið veki hjá mér raunverulegan áhuga og fyrr en varir er ég kominn í flæðið og farinn að bjástra við prentarann (kannski einhver lærdómur í því? Tæknifyrirtækin geta boðið upp á að setja þennan texta upp eins og sonnettu eftir Keats en þeim virðist ofviða að búa til prentara handa okkur sem virka). Svo er ég farinn að klippa táneglurnar af alúð – kannski að lærdóminn sé einmitt að finna í þessum litlu hreinlætisathöfnum daglegs lífs. Örugglega. Ég set Spottann í gang og læt eins og svo oft tilviljun ráða um valið úr 12.000 lögum – sem er eiginlega það næsta sem ég kemst guði á þessum degi – og fæ þá upp Stevie Wonder að syngja háðslega um Mister Know it all – herra alvitran – einmitt. Þegar svo Nina Simone fylgir í kjölfarið með Nobody knows you when you're down and out gef ég upp á bátinn að láta guð hendingarinnar um að leiðbeina mér.
Hvað hef ég lært á langri ævi? Ég hef lifað magnaða tíma, fylgst með stórkostlegum fjöldahreyfingum magnast upp og breyta heiminum til hins betra þrátt fyrir allt – fyrst mannréttindahreyfinguna á sjöunda áratugnum og svo í kjölfarið femínísku byltinguna með nýjum og nýjum bylgjum. Ég er karlmaður af þeirri kynslóð sem þurfti í snatri að tileinka sér viðhorf og verk sem ekki höfðu verið talin hæfa körlum áður. Ég var alinn upp af konu sem vann alla tíð utan heimilis, gegndi þar mikilvægu trúnaðarstarfi og kom oft þreytt heim en annaðist engu að síður öll heimilisstörf meira og minna – matreiðslu, þrif og annað en bjó með karli sem kom sér undan heimilisstörfum með alls konar misfráleitum afsökunum – og komst upp með það. Það er þrátt fyrir allt grundvallarmunur á viðhorfum hans til verkaskiptingar kynjanna og svo aftur viðhorfum jafnaldra minna upp til hópa. Þegar ég fór að búa sjálfur þurfti ég að læra á þvottavél og ryksugu og uppþvottabursta og náttúrlega eldamennsku frá grunni, sem tókst bærilega með aðstoð bóka Sigrúnar Davíðsdóttur og Önnu Gísladóttur. Þetta var mannbætandi og auðgandi og raunar lítið mál samanborið við hitt: að þurfa að tileinka sér alla þá tækni sem hefur komið fram frá lokum síðustu aldar og gjörbreytt daglegu lífi okkar. Allt þetta tæknivesen – öll þessi lykilorð! Öll þessi sönnunargögn – allt frá því hver var uppáhaldskennari manns í 12 ára bekk og til þess að merkja við allar myndir með ljósastaurum – sem maður þarf að leggja fram í sífellu til að sýna óyggjandi fram á að maður sé sá sem maður segist vera. Og hvenær er maður það svo sem?
Ég hef verið hér og þar. Ég hef unnið í fiski og verið í mis-slarksömum verbúðum víða um landið; vann í alls konar byggingavinnu; var rengörings-assisent á dönsku elliheimili og uppvaskari í Svíþjóð þar sem við bjuggum sjö saman í einu herbergi; hef verið kaupamaður í sveit og andað að mér maurasýru fyrir lífstíð í súrheysturninum; verið í hljómsveit, stundað háskólanám, starfað sem prófarkalesari, verið blaðamaður, skrifað bókmenntagagnrýni, gert útvarpsþætti, skrifað pistla, skrifað skáldsögur, gegnt þingmennsku, haldið utan um bækur fyrir alls konar fólk, verið lesari mestallt lífið. Ég hef kynnst fullt af skemmtilegu fólki, gengið í gegnum lífið með dásamlegri konu og alið með henni upp tvær dætur sem eru ekki bara klárar og skemmtilegar heldur umfram allt góðar manneskjur. Þegar ég lít í eigin barm út frá því fólki sem ég hef átt samleið með í gegnum lífið finn ég að ég hef verið gæfumaður. Ég hef líka notið þeirrar gæfu að hafa átt samleið með sjálfum mér. Ég hef alltaf unað mér vel einn og í eigin félagsskap.
„Ég hef lært að fólk er vesen og vafstur en því fylgir líka músík og sögur og hlátur og sorg“
Og hvað hef ég svo lært? Eitt og annað smálegt, eins og að sleppa því að kaupa kort í ræktina í janúar en dansa bara sjálfur heima Andradansinn; að það er hægt að komast af með tvo hljóma þegar maður býr til lag; að allt sem maður hefur skrifað gleymist jafnharðan; að maður á ekki að dæma fólk og skilgreina eftir verstu stundunum í lífi þess; að maður missir ekki af neinu þó maður sleppi einhverjum mannfagnaði, mestu varðar að missa ekki af sjálfum sér. Ég hef lært að fólk er vesen og vafstur en því fylgir líka músík og sögur og hlátur og sorg. Ég hef lært að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Ég hef lært að lífið er ekki maraþon heldur frekar eins og badminton þar sem maður spilar stundum með öðrum í tvíliðaleik og stundum er mótspilarinn ekki einstaklingur heldur kringumstæður og hugsanir, jafnvel maður sjálfur. Og það sem gildir er að klúðra ekki dauðafærunum – og heilsunni, ekki síst geðheilsunni. Eða kannski er lífið einmitt ekki íþróttaleikur heldur tónverk með tilbrigðum við stef í mislöngum köflum. Lífið á að minnsta kosti ekki að vera þolraun eða þrekvirki – það er gjöf. Og svo dýrmæt að því verður ekki komið í orð.
Allt þetta getur hvert og eitt ykkar sagt sér sjálft. Og líka þetta hér:
Ameríkanar tala um að maður eigi að vera vænn við þá sem maður hittir á leiðinni upp því að maður geti rekist á þá á leiðinni niður. Þetta byggir á grundvallarforsendu sem ég held að sé röng. Lífið er ekki lóðrétt heldur lárétt, að minnsta kosti fyrir okkur sem höfum notið þeirrar gæfu að búa ekki við örbirgð. Það er ekki fjallganga, ekki príl. Ég er nú ekki ræktarsamari steingeit en svo að mér er lífsins ómögulegt að líta á það sem verkefni mitt að klöngrast upp á einhvern ímyndaðan tind. Við förum okkar miskrókóttu leið í gegnum þá daga sem okkur eru mældir, um hæðir og hóla og jafnvel dimman dal eða bjarta sléttu, úr einni vist í aðra, og fyrir kemur að við villumst af leið. Þá er mikilvægt að geta fetað sig til baka til að finna á ný réttu leiðina. Það gerum við með því að reyna að skilja alltaf eftir okkur dálítið ljós þegar við yfirgefum staði – hvort sem það er vinnustaður eða annar félagsskapur – dálítið bros.
Athugasemdir (2)