Hvenær er tímabært að grípa til forvarna á virkum eldgosasvæðum? Um þetta er nokkur umræða og margvíslegar meiningar á reiki. Á meðan sumir benda á skynsemi þess að undirbúa forvarnir í þágu almannahagsmuna eru aðrir sem telja forvarnir ótímabærar. Almannavarnir ganga lengra og telja jafnvel umræðu um forvarnir við Hafnarfjörð ótímabæra.
Um mannvirkjahönnun á Íslandi gilda skv. íslenskum lögum evrópskir staðlar og hafa gert í tuttugu ár. Staðfærsla staðlanna gerist í gegnum svokölluð þjóðarskjöl, hvar tillit er tekið til staðhátta og breytileika (t.d. álag, efnisnámur og -framleiðsla). Evrópustaðlarnir eru heljarmikið kerfi sem heldur utan um aðferðarfræðina sem ber að fylgja svo tryggja megi öryggi, gæði og endingu mannvirkja í ýmsum aðstæðum. Mikilvægasti þáttur mannvirkjahönnunar er að tryggja öryggi fólks í manngerðum heimi. Þannig gilda sem dæmi sérstakar öryggiskröfur um hönnun burðarkerfa í mannvirkjum og náttúruvá í formi jarðskjálfta.
Skoðum það aðeins. EN 1998-1 (Eurocode 8) er jarðskjálftastaðall sem gildir á Íslandi með íslenskum þjóðarviðauka. Í honum eru í raun tvær meginkröfur til burðarkerfishönnuðar: 1) að mannvirki hrynji ekki í jarðskjálfta (no collapse requirement) og 2) að lágmarka tjón (damage limitation requirement). Fyrra tilvikið krefst hærra reikningslegs álags við lága tíðni (stór skjálfti á 475 ára fresti) og seinna tilvikið leyfir lægra reikningslegt álag við hærri tíðni (minni skjálfti á 95 ára fresti). Einfölduð framsetning, en að baki liggur margreynd tölfræði og líkindaútreikningar. Á mannamáli þýðir þetta að mannvirki eiga að standa af sér stóran skjálfta með ca 500 ára endurkomutíðni og þau eiga að skemmast lítið, jafnvel ekki í vægari skjálfta með ca 100 ára endurkomutíðni. Að þessum markmiðum eru margvíslegar leiðir (lausnir).
Í stuttu máli vil ég með þessu vekja athygli á því að aðferðarfræðin um hönnun og framleiðslu öruggra mannvirkja er þekkt og alls ekki ný af nálinni.
Það veit enginn hvenær næsta eldgos á sér stað
Í nýlegu viðtali fer jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands yfir rökin gegn tímabærum forvörnum við Hafnarfjörð. Hann tiltekur dæmi úr jarðsögunni á Reykjanesi hvar liðið hafi 150 ár án goss – að hans mati býsna langur tími sé rétt skilið – sem rök gegn því að hefja vinnu við forvarnir. Skilaboðin að það sé ekki tímabært. En við nánari athugun er þetta ef til vill ekki svo langur tími. Sé mið tekið af Evrópustöðlunum er þetta raunar frekar stuttur tími og í því ljósinu löngu tímabært að hefja vinnu við forvarnir.
„Það er í mörgu tilliti vissulega tímabært að hefja vinnu við forvarnir á Reykjanesi með fókus á öryggi fólks, lífsgæði og varnir innviða.“
Í skipulagi og mannvirkjahönnun ber samkvæmt gildandi regluverki að taka tillit til staðbundinnar áhættu sem getur verið af mjög margvíslegu tagi þegar náttúran er annars vegar. Að segja að það þurfi ekki að hefja vinnu við forvarnir alveg strax af því liðið geti mannsaldrar á milli atburða er því ekki alveg rétt sé mið tekið af gildandi mannvirkjastöðlum og viðurkenndum aðferðum. Það veit enginn nákvæmlega hvenær né hvar næsti jarðskjálfti verður, á sama hátt veit enginn nákvæmlega hvenær né hvar næsta eldgos á sér stað.
Að tala gegn forvörnum með þeim hætti sem nú er gert er umhugsunarvert, kannski sérstaklega þegar prófessor við Háskóla Íslands á í hlut. Öllu verra er það þegar Almannavarnir taka upp sambærilega orðræðu og ganga jafnvel lengra. Mögulega þess vegna voru öryggismál í Grindavík ekki í réttum farvegi. Mögulega þess vegna var heitavatnslaust á Suðurnesjum í köldum febrúarmánuði. Og mögulega þess vegna stafar íbúum Reykjanesskagans í dag veruleg ógn, þar sem stjórnun almannavarna virðist ekki fylgja þekktum viðmiðum. Landsmönnum öllum stafar enn fremur hætta af verulegu fjárhagslegu höggi, til að mynda ef Reykjanesbraut – sem meðal annars fæðir okkur með hundruð milljarða króna þjóðartekjum árlega – yrði kippt úr sambandi.
Tímabært að hefja vinnu við forvarnir
Þegar við rjúkum til eftir að komið er í óefni líkt og gert var við Svartsengi og Grindavík fylgir því gríðarlegur kostnaðarauki. Að ræsa út í neyðarkalli marga helstu jarðvinnuverktaka landsins inn á skilgreint hættusvæði og keyra þar tæki og tól dag og nótt við mannvirkjagerð – sem í ofanálag er ekki fullmótuð og jafnvel lítið hönnuð – er klárlega ekki besta leiðin þegar kemur að framkvæmdum. Hvorki hagkvæmar né bestu lausnir finnast með þeim hætti. Til að finna tæknilega góðar, hagkvæmar og umhverfisvænar lausnir þarf undirbúning. Og tíma. Enn fremur er lífsnauðsynlegt fyrir Ísland að virkja þekkinguna í samfélaginu í heild og láta af þessum leiðindaávana að leita alltaf í sama lokaða klúbbinn – það endar of oft frekar illa. Gerum þetta frekar á heiðarlegum og faglegum samkeppnisforsendum með fókus á langtímasjónarmið líkt og lög og reglur kveða á um. Enda ljóst að góðar úthugsaðar forvarnir hafa áhrif á verðgildi fasteigna á hamfarasvæðum.
Það er í mörgu tilliti vissulega tímabært að hefja vinnu við forvarnir á Reykjanesi með fókus á öryggi fólks, lífsgæði og varnir innviða. En fyrst þarf að móta vettvanginn, starfsmenninguna og skilning á því að þessi vinna getur ekki farið fram án rannsókna- og þróunarvinnu. Það er eina einasta leiðin ef við ætlum að gera þetta á hagkvæman og ábyrgan hátt.
Athugasemdir (1)